Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2019, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2019, Blaðsíða 13
24.3. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 Góð viðbrögð við nýrri tónlist Samhliða spilamennsku, söng og að sinna starfi skólastýru hefur Edda sjálf verið í eigin tónlistarsköpun. „Ég hef alltaf verið að búa til músík en svo- lítið án þess að láta aðra vita. Ég hef ekki verið tilbúin að leyfa fólki að heyra og fundist það óþægilegt einhverra hluta vegna. En fyrir fjórum árum gerði ég disk, minn fyrsta sóló- disk,“ segir hún en hann heitir No Words Needed. Hún segir útgáfuna tímafreka og kostn- aðarsama en engu að síður hafi verið kominn tími á annan disk. „Ég ákvað bara að kýla á að gera annan disk,“ segir hún en hann ber nafnið New Suit. „Hann er bara búinn að vera að- gengilegur á Spotify síðan 1. mars. Tónlistin mín hefur verið að fá góð viðbrögð hjá útvarps- stöðum sem spila svona tónlist. Það er byrjað að spila mig í Bandaríkjunum og í Bretlandi og svo er þetta smátt og smátt að fara um heim- inn,“ segir Edda en ef þú flettir henni upp á Spotify þá er hún undir flokknum Smooth Jazz. Friðrik Karlsson er upptökustjóri á plöt- unni. ,,Hann setur sinn lit í tónlistina mína,“ segir Edda en hann spilar líka á gítar. Bjarni maður hennar spilar á bassa og þau fengu breskan trommuleikara til liðs við sig auk góðra gesta. Á nýja diskinum ákvað Edda að stíga út fyrir þægindarammann og spila allt píanó sjálf. „Það er ekki nóg fyrir mig að semja lögin og láta einhverja aðra spila það. Þó að ég hafi spilað laglínurnar á fyrri plötunni er ég að spila allt hljómborð núna. Það er eng- inn sem spilar annað píanó, bara ég. Þar sem ég er klassískt menntaður píanóleikari fékk ég aldrei kennslu í spuna þannig að ég þurfti að fara að taka sóló en vissi ekki alveg hvernig ég ætti að gera það. Þess vegna heitir nýja platan, New Suit, eða ný föt, því mér finnst ég vera í nýjum fötum á þessum diski.“ Hún segir lögin koma til sín. „Ég sest hérna niður við píanóið og byrja að spila. Þá er eins og ég fari í einhverja hugleiðslu og þá bara kemur lag. Mér finnst bara eins og það sé verið að senda mér lag. Ég þarf ekki að sitja lengi við og böggla saman einhverju. Mér finnst það bara vera skylda mín að gera eitthvað við þetta og koma því áfram,“ segir hún en það er píanó, bassi og trommur í stof- unni enda er hugmyndin að halda stofu- tónleika við tækifæri. Hún er líka að skoða heppilega dagsetningu fyrir útgáfutónleika og stefnir á frekari spilamennsku erlendis. „Svo erum við að fara að halda upp á 30 ára afmæli skólans í maí,“ segir hún þannig að það er mikið í gangi. Dagskrá barna þétt skipuð Hvað hefur breyst á þessum tíma frá því að þú stofnaðir skólann? „Mér finnst börn í dag hafa alltof mikið að gera. Ég veit ekki af hverju sú þróun hefur orðið, hvort það sé vegna þess að foreldrar þurfa að fá frekari pössun fyrir börnin sín, en dagskrá barna er ofsalega þétt skipuð í dag. Við höfum lent í því að nemendur hafa þurft að taka sér frí frá námi að læknisráði. Það er búið að setja þau í svo mikið að þau bara höndla það ekki. Foreldrar í dag tala um að barnið sé að fara á píanó- eða fiðluæfingu rétt eins og það sé að fara á fótbolta- eða handboltaæfingu. Þá þýðir það það að barnið fer í tónlistarskólann og er með kennararum sínum í þann tíma sem það þarf að vera og kemur svo aftur eftir tvo daga því börnin eru oftast tvisvar í viku og svo bara gerist ekkert. Tónlistarnám er þannig að þú kemur og hittir kennarann þinn og ferð í gegnum ákveðið efni, hann kennir þér og legg- ur þér fyrir það sem þú átt að æfa þig á heima. Þú æfir þig og kemur svo aftur í tímann. Það er ekki nóg að mæta bara í tónlistarskólann og ætla að vera hljóðfæraleikari, þú verður að æfa þig.“ Henni finnst skilningurinn á þessu hafa minnkað með árunum. „Það er alls ekki gert ráð fyrir tímanum sem barnið þarf til að æfa sig. Eftir því sem miðar áfram í tónlistarnáminu þá þarf að sinna því betur en það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir þessum tíma í dag, ég hef smá áhyggjur af þessari þróun. Þetta er mesti munurinn sem ég finn.“ Henni finnst börn í dag einangraðri en þau voru. „Þau eru frekar heima, kannski í tölvu, frekan en úti að leika sér með félögunum. Samskipti barna eru ekki eins og þau voru fyrir 30 árum. Mér finnst að foreldrarnir reyni að stuðla að því að börnin þeirra séu í meiri félagsskap en ekki endilega á réttum vettvangi,“ segir Edda og útskýrir að sam- spilsæfingar geti verið góður félagsskapur fyrir börn. „Þá hittir barnið aðra krakka á svipuðu reiki og þau spila öll saman. Krakk- arnir eru að vinna að ákveðnum verkefnum saman. Þau eru ekki í samkeppni eins og oft í íþróttum,“ segir Edda, sem hefur upplifað ákveðna árekstra milli íþrótta og tónlistar- náms og að íþróttaviðburðir séu frekar teknir framyfir tónlistarviðburði. „Þetta keppnisskap, að það þurfi allir að vinna, vera sigurvegarar, það er ekki svo ríkt hjá okkur í tónlistinni. Þarna eru allir að skapa eitthvað í sameiningu. Það er gott að þjálfa sig í því að hlusta á hvað hinn aðilinn er að spila og taka mið af því heldur en að þurfa bara að hugsa um sjálfan sig.“ Alltaf gaman hjá þeim Bjarni, eiginmaður Eddu, er aðstoðar- skólastjóri tónlistarskólans og þau hafa því unnið ekki bara saman í tónlistinni heldur líka innan skólans. Hvernig er að hafa unnið svona mikið með eiginmanni sínum í gegnum tíðina? „Mér finnst það bara forréttindi. Við erum búin að vera saman frá því að ég var 16 ára. Ekki bara hjón heldur erum við búin að vera að vinna svo mikið saman, við vinnum saman á hverjum einasta degi,“ segir Edda sem var 17 þegar þau giftu sig og þurfti að fá undanþágu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu vegna þessa en Bjarni er þremur árum eldri. „Mér finnst þetta frábært. Við höfum unnið vel saman og styðjum hvort annað. Sérstak- lega þegar ég greindist með þennan sjúkdóm. Þá er hann búinn að koma mjög sterkur inn eins og hérna á heimilinu. Það eru ekki allir sem myndu ná að vera hjón og vinna svona mikið saman en það er alltaf gaman hjá okkur.“ „Það fá allir eitthvað til að glíma við. Með jákvæðu viðhorfi og góð- um lífsstíl hefur mér tekist að fara léttar í gegnum þetta en ella held ég,“ segir hún um MS-sjúkdóminn. Morgunblaðið/Eggert „Fólki finnst nafnið Tónskóli Eddu Borg vera svo gamalt og heldur að ég sé miklu eldri en ég er. Það hefur ekki hugmynd um að ég var bara að verða 23 ára þegar skólinn var stofn- aður. Fyrir svona 2-3 árum á opnu húsi var ég að hjálpa for- skólakrökkunum að undirbúa sitt atriði og sat á gólfinu með þeim. Þá vindur sér gestur að manninum mínum og segir: „Fyrirgefðu að ég spyr, þetta er kannski skrýtin spurning en er Edda Borg ennþá á lífi?“ Bjarni sagði að þetta væri nú fín spurning hjá honum og svaraði þessu játandi. „Er hún hérna í dag?“ spurði maðurinn og Bjarni svaraði honum því að ég sæti þarna á gólfinu hjá krökkunum!“ Henni finnst sérstaklega gaman að fylgja nemendum sínum eftir. „Það eru nokkrir sem hafa farið í gegnum skólann hjá okkur sem eru búnir að leggja það fyrir sig að vera tónlistarmenn. Og svo er líka komin önnur kynslóð af nemendum í skólann; þeir sem voru hjá okkur í skól- anum fyrstu árin, núna eru börnin þeirra mætt. Það yljar mér. Þá mæta ömm- urnar, mömmurnar og börnin á tónleika. Mér finnst ég eiga pínulítinn part af öllum börnunum þannig að ég hef eignast mjög mikið af börnum í gegnum tíðina,“ segir Edda og bætir við að hún hafi alltaf gam- an af því þegar fyrrverandi nemendur heilsi uppi á hana á förnum vegi. Vakandi gagnvart nýjungum Eru miklar tískusveiflur í hljóðfæravali? „Það er alltaf einhver tíska í gangi og þetta kemur í bylgjum. Einn veturinn voru rosalega margir á þverflautu hjá okkur og eftir sigur Eurovision-stjörn- unnar Alexanders Rybak vildu allir læra á fiðlu. Og núna í kjölfar Bohemian Rhap- sody þá vilja mjög margir spila Queen- lögin og vera eins og Freddie Mercury, bæði spila og syngja. Það er orðið svolítið algengt núna að við erum með nem- endur sem eru bæði að læra á hljóðfæri og eru farnir að syngja með hljóðfær- unum. Það er mjög áhugavert. Við verð- um alltaf að vera vakandi gagnvart nýj- ungum. Það sem virkaði fyrir 30 árum er ekkert endilega leiðin í dag þó að þessi klassíska, hefðbundna leið sé alltaf málið. Við verðum að vera opin fyrir nýjungum. Við verðum að vera vakandi fyrir því hvað er vinsælt hjá þeim til að mæta þeim á þeim stað sem þau eru. Þau læra ákveðinn grunn og svo getum við tekið eitthvað nýtt með og inn á milli.“ Störf framtíðarinnar eru að breytast og ekki er ólíklegt að listnám og skapandi hugsun verði mikilvægari í framtíðinni. Hvernig horfir þetta við þér? „Allar list- greinar eru miklu mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. Þetta hefur svo víð- tæk áhrif. Til dæmis ef við tökum tónlist- ina, þá notar einstaklingurinn tónlist við öll tækifæri. Þú hlustar á tónlist þegar þér líður vel eða ert sorgmædd. Þú hlustar á tónlist við allskonar athafnir. Það er við hæfi að bjóða upp á tónlist þegar eitthvað er um að vera þannig að hún snertir okk- ur á svo rosalega mörgum sviðum. Tón- listin spilar svo stórt hlutverk í lífi allra. Það er líka mikilvægt fyrir fólk að kynnast tónlist ekki bara til þess að spila á hljóð- færi heldur líka til að geta notið tónlistar- innar. Hún hefur djúp áhrif á einstakling- inn, þroskar hann og hjálpar honum á svo mörgum sviðum,“ segir hún. „Ég held líka að þeir sem fara í gegnum tónlistarnám læri ákveðna hugsun og skipulagningu. Ég vil meina að tónlistar- námið komi til góða síðar meir á öðrum vettvangi. Eins og nemendur okkar hafa sagt, að það að fara í gegnum skólann hjá okkur og koma fram á tónleikum og fara í gegnum þá æfingu hafi hjálpað þeim á fullorðinsárum að stíga fram á öðrum sviðum.“ Edda er ánægð með að hafa starfað með börnum allan þennan tíma. „Mér finnst líka að það hafi hjálpað mér að vera ung í anda að vera svona mikið innan um börn.“ „Er Edda Borg ennþá á lífi?“ Edda kann vel við sig á gólfinu hjá krökkunum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.