Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2019, Blaðsíða 15
24.3. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 segir Laufey en hún notar einnig tónheilun í kyrrðarjóga. Til þess spilar hún bæði á hörpu og gong. Laufey er því núna í 40% starfi á Landspít- alanum en að auki heldur hún fyrirlestra, er með vinnustofur og kennir tíma í Yoga Shala. Algjörlega svart og hvítt Blaðamanni finnst nóg um og spyr hvort ekki sé hreinlega of mikið að gera hjá henni. „Nei, það er nefnilega eitt, þegar maður er búin að ná tökum á streitu og maður er með verkfærin og úrræðin, þá er ekki of mikið að gera. Auðvitað þarf maður að passa sig og finna jafnvægið. Streita er eitur í mínum bein- um og um leið og ég finn streituna kemur kvíð- inn.“ Hvað veldur þér kvíða í dag? „Að fá ekki nógan svefn veldur mér kvíða. Ég myndi aldrei fara að vinna næturvaktir aft- ur og ég fer ekki í næturflug. Svo á ég erfitt með breytingar eða óvissu. En það gengur samt betur. Fyrir þremur árum hefði ég aldrei þorað að halda fyrirlestur eða vera með nám- skeið en í dag finnst mér það ekkert mál. Ég kann núna að stjórna kvíðanum og geri það m.a. með öndunaræfingum sem ég hef lært. Í Kyrrðarjóga legg ég áherslu á hugleiðslu, önd- un, djúpslökun og tónheilun,“ segir Laufey sem segist stöðugt vera að bæta við sig námi en hún er um þessar mundir að útskrifast úr þriðja jógakennaranáminu. „Ég er alls staðar og úti um allt og finnst það ekkert mál,“ segir Laufey og nefnir að hennar líðan í dag sé gjörólík líðaninni sem var árið sem hún örmagnaðist. „Þetta er algjörlega svart og hvítt. Ég er í svo mikilli gleði. Ég finn alveg kyrrðina og á auðvelt með að nálgast hana því ég er vel virk með mikla orku, eld og ástríðu sem ég þarf oft að dempa. Þá er gott að hafa þessi úrræði. Það að stunda hugleiðslu hefur líka fært mér mikið sjálfstraust, sjálfsþekkingu og sátt. Ég er um- burðarlyndari og kærleiksríkari og í sterkari tengingu við tilfinningar mínar. Ég er ekki sama manneskjan, ég segi oft Laufey fyrir hrun og Laufey eftir hrun. Ég held að það hafi verið tilgangur með þessu öllu. Í dag lít ég á mig sem boðbera hugleiðslu og kyrrðar,“ segir hún. „Mín mantra í lífinu er svona: ég treysti innsæi mínu, ég tala sannleikann og ég hlusta á hjartað.“ Opna töfraheiminn Það má segja að hjónin vinni bæði að því að fólk öðlist betri heilsu; Ingvar læknar fólk lík- amlega en Laufey andlega. Vissulega eru þau bæði að vinna með starfsemi heilans þótt á ólíkan máta sé. Þegar Laufey fór að stunda hugleiðslu af miklum móð smitaði hún mann- inn sinn af áhuganum. „Hann er búinn að fylgjast með mér á þess- ari vegferð og dáist að árangri mínum. Hann er mjög stoltur af mér, að hafa farið úr þess- um dimma dal og á þennan fallega stað sem ég er á í dag. Hann sem heilaskurðlæknir vildi kynna sér vísindin á bak við hugleiðslu. Hann er farinn að halda fyrirlestra með mér um hvað það er sem gerist í heilanum þegar hug- leiðsla er stunduð. Hugur og líkami eru sam- ofnir; þetta er ekki aðskilið. Og það er hægt hafa mótandi áhrif á heilann sinn ævina út,“ segir hún og nefnir að þau hjón séu gjarnan beðin um að halda saman vinnustofur og fyrirlestra. „Ég tala og leiði hugleiðsluna og hann, þessi klettur sem er fæddur með innri kyrrð, kemur með vitneskju úr heimi vísinda. Saman náum við að matreiða þetta á þann hátt að við náum að breiða út boðskapinn, boðskap heilsu. Við erum fullkomin samsetning,“ segir hún og seg- ist vilja byggja brú á milli vestrænna vísinda og austrænnar visku. „Fólk á Vesturlöndum er að átta sig á því að þessi aldagamla viska er að virka. Hug- leiðsla er heimspeki og það hafa allir aðgang að henni. En hún er líka vísindi því það er bú- ið að sanna ágæti þess að hugleiða. Hug- leiðsla er mótefnið, ókeypis og án aukaverk- ana. En það þarf einhver að leiða þig inn í hana og opna þennan töfraheim og ég geri það í gegnum jóga nidra. Því þetta er töfra- heimur,“ segir Laufey. „Ég hef alltaf litið á mig sem sterka og kraftmikla konu sem gæti sigrast á öllu. Þessi týpíska ofur- kona. En þarna hafði ég bara enga orku og í stað- inn fyrir að leita mér hjálpar dró ég mig í hlé,“ segir Laufey Steindórsdóttir jógakennari, sem fann leið út úr álagi og streitu í gegnum hugleiðslu. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.