Morgunblaðið - 24.04.2019, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2019
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Það gengur bæði hægt og illa að
finna hjúkrunarfræðinga til starfa.
Þegar við fyrst tókum við þessum
rekstri átti ég ekki von á því að það
yrði svona erfitt að finna hjúkrunar-
fræðinga og sjúkraliða, en vegna
þessa höfum við ekki getað opnað
allt heimilið,“ segir Svanlaug Guðna-
dóttir, framkvæmdastjóri hjúkr-
unar, við Morgunblaðið.
Vísar hún í máli sínu til Seltjarnar,
nýs hjúkrunarheimilis að Safnatröð
1 á Seltjarnarnesi, en það var form-
lega vígt 2. febrúar síðastliðinn.
Seltjörn samanstendur af fjórum
tíu herbergja heimilum sem í eru alls
40 hjúkrunarrými og miðlægum
kjarna fyrir dagdvöl, sjúkraþjálfun,
iðjuþjálfun og þjónustu fyrir allt að
25 manns.
Alls eru í dag sex hjúkrunarfræð-
ingar starfandi á nýja heimilinu og
dekka þeir um fimm stöðugildi. Til
að teljast fullmönnuð segir Svanlaug
um fimm stöðugildi hjúkrunarfræð-
inga vanta og fjögur til fimm stöðu-
gildi sjúkraliða. Vegna þessa manna-
hallæris eru einungis 10 rými af 40
nýtt í hjúkrunarheimilinu.
„Við ætlum að taka inn aðra tíu í
næstu viku og getum þá keyrt heim-
ilið með tuttugu manns. Og þannig
verður það eitthvað áfram þar til við
fáum fleiri hjúkrunarfræðinga,“
segir Svanlaug, en starfsemi hófst í
Seltjörn 20. mars síðastliðinn.
Aðspurð segist hún hafa auglýst
eftir starfsfólki frá því í janúar. „Það
gengur hins vegar lítið,“ segir Svan-
laug og heldur áfram: „Það hefur
líka ekki gengið að fá hjúkrunar-
nema, ég hélt að við myndum nú fá
þá til okkar í sumar. Maður er orðinn
hálfráðþrota eins og staðan er.“
Vandinn kemur ekki á óvart
Guðbjörg Pálsdóttir er formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
(FíH). Hún segir mönnunarvanda
Seltjarnar ekki koma sér á óvart.
„Það er alls staðar skortur og í
þessu tilfelli er um að ræða nýtt hús-
næði, en þau eru aftur á móti ekki
samkeppnishæf við Landspítala þeg-
ar kemur að launum. Þegar laun
fólks eru jafn veigamikið atriði og það
er í dag í bland við þennan mikla skort
á hjúkrunarfræðingum, sem við vitum
að hafa yfirgefið störf sín vegna lé-
legra launakjara, mikils álags í starfi
og ófullnægjandi starfsumhverfis, þá
er gott húsnæði ekki nóg,“ segir Guð-
björg og bætir við að uppbygging
nýrra hjúkrunarheimila víðs vegar um
land sé auðvitað af hinu góða. „En það
gleymist hins vegar alveg að hugsa út
í hvernig í veröldinni við ætlum að
manna þessa vinnustaði. Þessi staða
mun ekkert breytast fyrr en farið
verður út í aðgerðir til að bæta laun.“
Þá segir Guðbjörg auðveldlega
hægt að ráða 300 hjúkrunarfræðinga
til starfa um allt land þegar í dag – svo
mikil er þörfin fyrir þetta fólk.
„Það þarf að fara að svara þessari
spurningu: Hvað ætla yfirvöld að gera
með íslenska heilbrigðiskerfið? Það er
búið að viðurkenna vandann en hvað á
að gera svo?“
Fást ekki til starfa á glænýju heimili
Hjúkrunarheimilið Seltjörn á Seltjarnarnesi glímir við mikla manneklu og því ekki hægt að fylla öll rými
Búið að leita að starfsfólki frá því í janúar Stjórnvöld þurfa að bregðast við, segir formaður FíH
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Heimili Aðbúnaður er til fyrirmyndar en formaður FíH segir það ekki nóg.
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Samkvæmt könnun sem Félag ís-
lenskra hjúkrunarfræðinga (FíH)
gerði í vetur meðal sinna félags-
manna eru aðeins 8% hjúkrunar-
fræðinga sátt við launin sín. Þátttaka
í könnuninni var góð en um 2.100
hjúkrunarfræðingar svöruðu, eða
rúm 75% félagsmanna.
Samkvæmt sömu könnun vilja
hjúkrunarfræðingar helst leggja
áherslu á hækkun dagvinnulauna í
kjaraviðræðunum. Það var oftast
sett sem fyrsta val, stytting vinnu-
vikunnar var oftast nefnd sem annað
val og í þriðja sæti kom krafa um
hækkun greiðslna vegna vaktaálags.
Frá þessu er greint á vef FíH.
Miðlægir samningar hjúkrunar-
fræðinga losnuðu í lok mars sl. og
hafa viðræður við ríki og borg farið
hægt af stað, að sögn Gunnars
Helgasonar, sviðsstjóra kjara- og
réttindasviðs FíH. Tveir samninga-
fundir eru að baki, auk vinnufundar,
en næsti fundur með samninganefnd
ríkisins er nk. mánudag.
Vilja fara nýjar leiðir
„Við höfum verið að klára okkar
kröfugerð og væntum þess að heyra
eitthvað frá ríkinu. Við viljum fara að
sjá eitthvað gerast. Hvernig ætlar
ríkið að reka heilbrigðiskerfið? Það
er mikill skortur á hjúkrunarfræð-
ingum og miklar breytingar þurfa að
verða á starfsumhverfi, launakjörum
og vinnutíma ef á að fá menntaða
hjúkrunarfræðinga til starfa í sínu
fagi. Við viljum nálgast verkefnið
með opnum huga og fara nýjar leiðir.
Málið snýst ekki bara um hjúkrunar-
fræðinga heldur heilbrigðiskerfið í
heild sinni,“ segir Gunnar.
Hann segir vandann m.a. birtast í
því núna að illa gangi að ráða í sum-
arafleysingar, einnig á landsbyggð-
inni sem hafi þó gengið ágætlega til
þessa. „Hjúkrunarfræðingar eru
orðnir óþreyjufullir. Það er orðið
langt síðan alvöru samtal hefur átt
sér stað við okkar viðsemjendur. Síð-
ustu viðræður árið 2015 enduðu með
verkföllum og gerðardómi. Það er
undirliggjandi ólga meðal félags-
manna, við viljum að starfsumhverf-
ið batni þannig að hægt verði að fá
fólk til starfa og einnig að halda fólki
í starfi sem vinnur við fagið í dag,“
segir Gunnar enn fremur.
Aðeins 8% hjúkrunar-
fræðinga sátt við launin
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Undirbúningur fyrir verkfalls-
aðgerðir er þegar hafinn hjá iðn-
aðarmönnum þó að enn sé ósamið
við Samtök atvinnulífsins.
Kristján Þórður Snæbjarnarson,
formaður Rafiðnaðarsambandsins
og talsmaður iðnaðarmanna í við-
ræðunum, segir sína menn ætla að
gefa viðræðunum tækifæri til
næstu helgar. Hafi ekkert gerst í
lok vikunnar verði gripið til að-
gerða. Iðnaðarmannafélögin ná til
um 16 þúsund manns en um 13
þúsund iðnaðarmenn taka laun
samkvæmt þeim samningum sem
reynt er núna að ná við SA.
Farið að reyna á þolrifin
Iðnaðarmenn áttu vinnufund í
gær og í dag er fundur í Karphús-
inu með ríkissáttasemjara. Að
sögn Kristjáns var farið yfir ýmis
efnisatriði í gær en ekkert mark-
vert átti sér stað.
„Við ætlum samt sem áður að
reyna til þrautar í vikunni og sjá
hversu langt við komumst. Þetta
er ekkert búið fyrr en það er
búið,“ segir Kristján en vill ekki
nánar fara út í hvar helsti ágrein-
ingurinn liggi í viðræðunum við
SA. Unnið sé samtímis í mörgum
atriðum, eins og launaliðnum,
vinnutíma og fjölda ákvæða samn-
inganna.
„Það skal viðurkennast að þolin-
mæði okkar er orðin afar tak-
mörkuð og farið að reyna verulega
á þolrifin hjá mönnum,“ segir
Kristján.
„Þetta verður taktískt“
Mörg ár eru síðan iðnaðarmenn
fóru síðast í verkfall. Slíkar að-
gerðir voru boðaðar í júní 2015 en
af þeim varð ekki þar sem samn-
ingar náðust á síðustu stundu.
Kristján segir verkfallssjóði
standa mjög vel og iðnaðarmenn
séu reiðubúnir til átaka ef með
þurfi.
„Þetta verður taktískt,“ sagði
Kristján, spurður hvernig mögu-
legar aðgerðir yrðu, og útilokaði
ekki að vinnustöðvun yrði fyrst
boðuð hjá tilteknum hópi iðnaðar-
manna. Að öðru leyti vildi hann
ekki tjá sig um aðgerðaáætlunina.
Viðræður við ríki og sveitarfélög
eru skemmra á veg komnar, sem
og vegna sérkjarasamninga, eins
og við Félag atvinnurekenda,
orkufyrirtækin og stóriðjuna.
Þolinmæðin
afar takmörkuð
Morgunblaðið/Golli
Iðnaðarmenn Takist samningar ekki við Samtök atvinnulífsins gætu um 13
þúsund iðnaðarmenn gripið til verkallsaðgerða. Samningafundur er í dag.
Iðnaðarmenn reiðubúnir í aðgerðir
Álfheimum 74, 104 Rvk, sími 568 5170
Verið velkomin
• Kjólar
• Túnikur
• Skyrtur
• Jakkar
• Bolir
• Buxur
• Pils
• Vesti
• Peysur
NýttNýtt