Húnavaka - 01.01.2019, Síða 170
H Ú N A V A K A 168
f. 1958, börn þeirra eru þrjú. Jóhanna Erla, f. 1958, gift Gunnari Rúnari
Kristjánssyni, f. 1957, börn þeirra eru tvö. Nína Margrét, f. 1970, gift Ómari
Ragnarssyni, f. 1957. Þau eiga alls fimm börn.
Helga var fjölskyldukona þar sem samheldni, góðvilji og glaðværð var
jafnan í fyrirrúmi. Hún var trúnaðarvinur barnanna, sterk í nærveru sinni og
stuðningi, bjartsýn og hvetjandi á alla lund. Húsmóðurhlutverkinu sinnti hún
með miklum sóma, glæsilegur gestgjafi og samtaka voru þau hjón í því sem
öðru. Veisluborð var búið og til reiðu með örlitlum fyrirvara. Þannig var það
á þingmannsárum Pálma og alla tíð.
Gjafmild var Helga og næm á líf og líðan annarra. Hún hugsaði lítt um
eigin hag en hjarta hennar sló með þeim sem áttu erfitt uppdráttar.
Samræðulist hafði hún á valdi sínu. Hún fitjaði upp á málefnum að ræða,
eitthvað það sem máli skipti að henni fannst. Og auðvelt átti hún líka með að
skipta um umræðuefni ef í óefni stefndi. Allt með brosi á vör, leikin og lipur í
samskiptum við fólk og að sjálfsögðu eins við alla. Hún gerði sér ekki
mannamun, það var ekkert slíkt í hennar fari.
Fyrir norðan starfaði Helga í kvenfélaginu Voninni í Torfalækjarhreppi.
Hún var hannyrðakona, listakona í höndunum. Einnig prjónaði hún lopa
peysur í stórum stíl til útflutnings. Sum árin syðra vann Helga við
verslunarstörf. Árið 1998 fluttu þau hjónin svo í Blönduhlíð 19. Þá nutu þau
þess að vera vetrartíma ár hvert á Kanaríeyjum, kynntust þar góðu samfélagi
fólks og lögðu gott eitt til þess sjálf með nærveru sinni og eðlislægum góðvilja
og manngæsku. Hvarvetna var vinum að mæta og traustir vinir voru þau sjálf.
Helga lést í Tampa á Flórída. Útför hennar fór fram frá Háteigskirkju 13.
apríl. Jarðsett var í kirkjugarðinum á Þingeyrum daginn eftir, 14. apríl.
Sr. Hjálmar Jónsson.
Ingimundur Sigfússon,
Þingeyrum
Fæddur 13. janúar 1938 – Dáinn 20. mars 2018
Ingimundur var sonur hjónanna, Sigfúsar Bergmanns Bjarnasonar (1913-
1967), stofnanda og forstjóra Heklu og Rannveigar Ingimundardóttur (1912-
1986). Hann var elstur fjögurra systkina. Hin eru Sverrir, f. 1939, Sigfús, f.
1944 og Margrét, f. 1947.
Fyrstu æviár Ingimundar bjó fjölskyldan að Stóra-Ási á Seltjarnarnesi en
flutti svo í Vesturbæinn á Víðimelinn, þar sem hann ólst upp. Hann gekk í
Melaskólann, næst var það Gagnfræðaskóli Vesturbæjar, svo tók við nám við
Verslunarskóla Íslands og eftir það nám í lögfræði við Háskóla Íslands.
Árið 1959 kvæntist hann Valgerði Valsdóttur, f. 1939. Foreldrar hennar
voru Valur Gíslason (1902-1990), leikari og Laufey Árnadóttir (1916-1996).
Þau Valgerður og Ingimundur eignuðust tvo syni; Val, f. 1961, og Sigfús