Skessuhorn - 22.04.2015, Síða 27
27MIÐVIKUDAGUR 22. APRÍL 2015
Víða hefur verslunarrekstur í fá-
mennari byggðum í landinu reynst
þungur síðustu árin og áratug-
ina. Skemmst er að minnast þess
að verslun var lokað í Hrísey fyr-
ir skömmu og glöggt hefur stað-
ið með að halda opinni verslun á
Reykhólum. Dalir eru ekki fjöl-
mennt svæði en þar eru þó kostur
að í gegnum héraðið liggur Vest-
fjarðavegur. Umferð í gegnum
Dalina hefur verið að aukast síð-
ustu árin, fyrst og fremst vegna
tilkomu Djúpvegar um Þrösk-
ulda sem og mikillar aukningar
ferðamanna. Þetta hefur orðið til
þess að verslun hefur verið að efl-
ast í Búðardal. Ingvar Bæringsson
verslunarstjóri hjá Samkaupum
Strax í Búðardal segist hafa orðið
vel var við þessa þróun. „Yfir sum-
arið, sérstaklega þegar vel viðrar,
er ösin hérna eins og í Kringlunni
í Reykjavík. Vetrarumferð ferða-
manna hefur líka verið að aukast
og það eykur verslunina hjá okk-
ur líka,“ sagði Ingvar þegar blaða-
maður Skessuhorns leit inn til hans
í verslunina í síðustu viku.
Erfiðara að áætla inn-
kaup yfir sumarið
Samkaup Strax er eina matvöru-
verslunin í Búðardal og tók Ingvar
formlega við starfi verslunarstjóra
síðasta haust eftir að hafa leyst af
um tíma. Hann kom til starfa í
Samkaupum haustið 2011, byrjaði
þá að steikja hamborgara þar eins
og hann orðar það. „Þetta átti bara
að vera aukavinna en varð smátt og
smátt að aðalstarfi. Það má segja
að ég hafi verið á réttum stað á
réttum tíma því fljótlega var ég var
gerður að aðstoðarverslunarstjóra.
Svo leið ekki á löngu áður en versl-
unarstjórinn hætti og ég var látinn
leysa hann af um tíma. Ég kann
ágætlega við mig í þessu starfi. Það
er líflegt og skemmtilegt, reynd-
ar svolítill erill oft á tíðum en það
leysist í samstarfi við gott starfs-
fólk,“ segir Ingvar. Spurður um
hvernig það sé að áætla innkaup
og þar með vörunýtingu í versl-
un eins og í Búðardal segir Ingvar
að það sé miserfitt eftir árstíðum.
„Það er mun auðveldara að vetrin-
um þegar viðskiptavinirnir eru að
stærstum hluta heimafólk sem er
að kaupa sömu nauðsynjavörurnar
frá viku til viku. Það er strembn-
ara yfir sumarið. Þá er meðal ann-
ars betra að fylgjast vel með veð-
urspám til að áætla söluna. Ann-
ars er það líka þannig að varðandi
suma vöru er ómögulegt að áætla.
Stundum hef ég tekið inn vöru
sem ég hef búist við að hreyfist lít-
ið en hefur svo rokselst. Svo á móti
þá pantar maður stundum vöru og
gerir ráð fyrir að hún rokseljist en
svo kemur annað á daginn. Það má
segja að þetta sé ein af skemmti-
legri hliðunum við að sinna versl-
unarrekstri. Það er ekkert á vísan
að róa, þótt vissulega sé betra að
hafa fast land undir fótum.“
Mjólkurfræðingurinn
fór í verslunina
Ingvar er frá bænum Þorbergs-
stöðum í Dölum þar sem hann ólst
upp. Hann er mjólkurtæknifræð-
ingur að mennt frá Óðinsvéum í
Danmörku. Byrjaði að starfa hjá
MS í Búðardal 1991 og ekki leið á
löngu þar til hann fór á iðnsamning
hjá fyrirtækinu. Hann nam mjólk-
urfræðina og mjólkurtæknifræð-
ina á tíunda áratugnum og starfaði
síðan hjá MS fram á árið 2009. Þá
hætti hann hjá MS og gerðist með-
eigandi Þorgríms Guðbjartsson-
ar á Erpsstöðum í rjómabúinu sem
byggt var upp á Erpsstöðum. „Ég
er ennþá að vinna hjá Þorgrími við
að gera skyrkonfektið. En það kom
í ljós að ég hafði ekki fjárhagslegt
bolmagn til að standa að rjóma-
búinu með honum og það varð til
þess að ég dró mig út úr rekstrin-
um og seldi honum minn hlut árið
2012,“ segir Ingvar.
Öll reynsla nýtist
Aðspurður segir Ingvar að sér hafi
fundist tímabært eftir tuttugu ára
starf í mjólkursamlagi að breyta
til og fara að gera eitthvað annað.
Hann segir verslunarmennskuna
skemmtilega tilbreytingu. En nýt-
ist reynsla hans úr starfi mjólkur-
fræðingsins hjá Samkaupum? „Já,
það þýðir alla vega ekki að senda
mér ónýta osta,“ segir Ingvar og
hlær en bætir við: „Í mjólkurfræð-
inni eins og í annarri iðn lærir
maður svolítið um fyrirtækjarekst-
ur og líka í sambandi við starfs-
mannahald og verkstjórn. Allt nýt-
ist þetta og líka reynsla sem fæst af
mismunandi störfum,“ segir Ing-
var. Hann segir að starfsmenn séu
að jafnaði sex yfir vetrartímann hjá
Samkaupum Strax í Búðardal, fyr-
ir utan starfsmann sem kemur tvo
daga vikunnar til að fylla á hill-
urnar í búðinni og starfsmann sem
vinnur við kjúklingatilboð á föstu-
dögum. Yfir sumarið þurfi svo
að fjölga starfsfólki verulega, þar
sem að yfir þann tíma margfaldast
verslunin.
þá
Ösin stundum eins og í Kringlunni
- segir Ingvar Bæringsson verslunarstjóri hjá Samkaupum Strax í Búðardal
Ingvar Bæringsson verslunarstjóri hjá Samkaupum í Búðardal. Verslun Samkaupa í Búðardal er við þjóðleiðina á Vestfirði.
„Menntun núna! í Norðvestur-
kjördæmi“ er tilraunaverkefni um
eflingu menntunar í kjördæm-
inu. Markmið verkefnisins eru að
efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á
vinnustað í kjördæminu, auka sam-
starf atvinnulífs og fræðsluaðila í
kjördæminu um starfstengt nám,
fjölga einstaklingum sem ljúka iðn-
námi og efla íslenskukunnáttu inn-
flytjenda í kjördæminu. Verkefnið er
liður í átaki til þess að hækka mennt-
unarstig í íslensku atvinnulífi og er
fjármagnað af aðilum vinnumark-
aðarins. Símenntunarmiðstöðin á
Vesturlandi hefur undanfarin miss-
eri tekið þátt í þessu verkefni og fékk
í þeim tilgangi rúmlega átta millj-
ón króna styrk í verkefni sem kall-
ast „Tæknistoðir“ og verður námið
í boði næsta haust. Tæknistoðir eru
einkum ætlaðar fólki sem er á vinnu-
markaði og hefur því reynslu úr at-
vinnulífinu. Námið er ætlað fólki
sem er að minnsta kosti 23 ára og
hefur hug á að ná sér í starfstengd
réttindi í bygginga- eða málmtækni-
greinum.
Hörður Baldvinsson verkefnis-
stjóri hjá Símenntunarmiðstöðinni
á Vesturlandi segir að með því að
bjóða upp á þetta nám sé verið að
koma til móts við þá sem vilja byrja
tækninám í sinni heimabyggð. Það
sé þannig uppbyggt að nemar þurfi
ekki að fara um langan veg til að ná
í grunnmenntun í viðkomandi iðn-
grein. Ætlunin er að námið verði
kennt í dreifnámi og stór hluti náms-
ins fari fram í gegnum Internet-
ið. Auk þess verða haldnar staðlot-
ur þar sem nemendur koma saman
og hitta leiðbeinendur og samnem-
endur. „ Við vitum að það eru tals-
vert margir á Vesturlandi sem vilja
ná sér í löggild iðnréttindi og erum
því að hvetja fólk til að afla þeirra.
Þetta er spennandi verkefni og við
erum stolt af því vera brautryðjend-
ur á þessu sviði. Verkefnið nær til
alls kjördæmisins,“ segir Hörður.
Símenntunarmiðstöðin hefur áður
kennt námsleiðina Menntastoðir
með svipuðu fyrirkomulagi og hefur
það reynst mjög vel. „Það er trú okk-
ar að Tæknistoðir verði einnig vin-
sælar meðal þeirra sem vilja starfa í
bygginga- eða málmtæknigreinum,“
segir Hörður verkefnisstjóri.
þá
Tæknistoðir - verkefni til hækkunar
menntunarstigs byrjar næsta haust
Námið er einkum ætlað þeim sem starfa í bygginga- og málmtæknigreinum.
Síðastliðið sunnudagskvöld bauð
karlakórinn Söngbræður upp á
aldar afmælistónleika í Reyk-
holtskirkju. Söngbræðrakórinn
var að vísu ekki stofnaður fyrr en
árið 1978 en nafn hans var á sín-
um tíma valið með skírskotun og
til að heiðra minningu Söngfélags-
ins Bræðranna sem starfaði í upp-
sveitum Borgarfjarðar frá 1915 til
1958. Á tónleikunum á sunnudag-
inn fluttu Söngbræður nokkur af
sömu lögum og Bræðurnir sungu
á sinni tíð auk hluta úr eigin söng-
skrá. Kórnum stjórnaði sem fyrr
Viðar Guðmundsson, um undir-
leik á píanó sá Heimir Klemenz-
son og kórbandið skipuðu þeir
Bjarni Guðmundsson og Guð-
bjartur Björgvinsson.
Auk söngs á þessum vortón-
leikum Söngbræðra var farið yfir
sögu Bræðrakórsins. Bjarni Guð-
mundsson á Hvanneyri hafði tek-
ið saman í stuttu máli sögu Bræðr-
anna. Kórnum stjórnaði alla tíð
Bjarni Bjarnason bóndi og org-
anisti á Skáney. Bræðranafnið var
valið vegna þess að allir félagar í
kórnum áttu þar bróður eða bræð-
ur, utan söngstjórans. Bræðurn-
ir æfðu mikið og sungu við fjöl-
mörg mannamót í héraði á fyrri
hluta síðustu aldar. Komu þeir
flest starfsár sín saman að hausti,
viku í senn, til æfinga á Skáney.
Unnu kórfélagar að morgni við
ýmis búverk en æfðu söng frá nón-
bili og fram á kvöld þann tíma sem
þeir dvöldu þar. Á tónleikunum á
sunnudaginn var m.a. notað eitt af
fjölskyldu harmoníum Bjarna frá
Skáney, tónsproti hans úr hvalbeini
og þá voru sýndar handskrifaðar
nótur úr safni hans, en nótnasafn-
ið er stórt. Bjarni Bjarnason starf-
aði sem organisti í Reykholti í sjö
áratugi og reyndar í fleiri kirkjum
í héraðinu. Dóttursonur hans og
nafni, Bjarni í Nesi, tók síðar upp
þráðinn og var lengi organisti í
Reykholti. Bjarni í Nesi þakkaði
kórnum að loknum tónleikum fyr-
ir framlag sitt og þessa upprifjun á
starfi Bræðrakórsins.
Þess má að lokum geta að stefnt
er að því að sýna upptöku frá tón-
leikunum á vef Skessuhorns eftir
um tvær vikur. mm
Söngbræður fylltu Reykholtskirkju
Brot af handskrifuðu nótnasafni
Bjarna Bjarnasonar var haft til sýnis á
tónleikunum.
Söngbræður og Viðar Guðmundsson söngstjóri. Snorri Hjálmarsson er þarna að
hefja einsöng í einu laganna sem kórinn flutti.
Viðar Guðmundsson spilar hér á harmoníum sem Bjarni Bjarnason hafði til afnota
þegar hann var hjá afkomendum sínum í Birkihlíð. Harmoníum þetta er nú eign
Reykholtskirkju.