Skessuhorn


Skessuhorn - 21.10.2015, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 21.10.2015, Blaðsíða 26
MIÐVIKUDAGUR 21. OKTÓBER 201526 Tónskáldið og sópransöngkonan Alexandra Chernyshova gaf nýver- ið út nótnabókina Skáldið og Bisk- upsdóttirin, í kjölfar samnefndrar óperu sem hún samdi og frumsýnd var vorið 2014 í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Bókin inniheldur fjórtán lög; aríur, dúett, tríó og kóra með píanóundirleik úr óperunni. Þá er stutt saga óperunnar sögð á þrem- ur tungumálum, íslensku, ensku og rússnesku, ásamt textum laganna. „Bókin er meira en bara nótur, þetta er heil bók sem hentar vel fyrir alla sem vilja spreyta sig á því að syngja óperulög. Bókin er góð gjöf fyr- ir tónlistarfólk, söngfólk og erlenda vini sem myndu vilja syngja ný er- lend lög. Mér fannst sniðugt að gera þetta svona, bókin gat farið lengra en bara til Íslendinga með þess- um hætti,“ segir Alexandra í sam- tali við Skessuhorn. Bókin er fagur- lega myndskreytt ljósmyndum úr ís- lenskri náttúru sem allar eru tekn- ar af eiginmanni Alexöndru, Jóni Rúnari Hilmarssyni. Alexandra seg- ir að hver mynd sé sérvalin með til- liti til texta bókarinnar. „Ég gerði allt sem ég mögulega gat til að fólk geti tengst verkinu án þess að sjá það á sviði. Það gerði ég svo hægt sé að túlka lögin betur þegar þau eru sungin.“ Ákvað að kýla á þetta Alexandra var þrjú til fjögur ár að semja óperuna. Hún skrifaði hana upprunalega fyrir hljómsveit enda segir hún að upphaflega hafi aldrei verið ætlunin að gefa út bók. „Þeir sem tóku þátt í flutningi óperunn- ar hvöttu mig svo til að skrifa píanó- undirleik líka. Ég hef fengið mikið hrós fyrir verkið og mér þykir mjög vænt um það. Ég hef meðal ann- ars fengið að heyra að óperan hafi íslenska sál og snerti hjarta áheyr- andans,“ segir hún stolt. Alexandra er einnig píanóleikari og hafði því næga þekkingu til að skrifa píanó- útsetningar sjálf. „Ég ákvað að kýla bara á þetta. Ég er ein af þeim sem framkvæmi bara þegar ég þori, ég get og ég vil. Ég get verið mjög ákveðin,“ segir hún. Alexandra var í mikilli vinnu fyrst eftir frumsýn- ingu óperunnar í fyrra og vann svo að útsetningunum á lögunum og nótnabókinni í eitt ár. „Eftir frum- sýninguna sótti ég um styrk í Starfs- menntunarsjóð og fékk. Ég hafði reyndar líka sótt um styrk til að fá að sýna óperuna í heild sinni en fékk ekki. Ég varð svolítið svekkt þá og gleymdi næstum því að gleðjast yfir þessum styrk sem ég fékk. Ég varð rosalega hissa fyrst en ákvað svo bara að henda mér í þetta.“ Hún segir bókina vera gott náms- efni og fáir klassískir söngvarar séu að gefa út efni um þessar mund- ir. „Bókin er á þremur tungumál- um og svo geta þeir sem ekki tala ís- lensku hlustað á framburðinn á net- inu. Ég stefni svo á að setja mynd- bönd á Youtube þar sem ég kenni flutning laganna. Mig langar líka að bjóða upp á námskeið, þar sem ég get kennt áhugafólki, nemendum í tónlistarskólum eða kórsöngvurum þessi lög.“ Slóðin inn á Youtube síðu Alexöndru er: https://www.youtube. com/alexandrachernyshova Byrjaði ung að semja Alexandra hefur verið viðloðandi tónlist frá því hún var lítið barn. Fimm ára gömul byrjaði hún að læra á píanó og fór snemma að syngja. Hún hafði þó lítinn áhuga á klass- ískum söng þegar hún var yngri, popptónlistin átti hug hennar allan. „Ég var byrjuð að semja lög þrettán ára gömul. Fjórtán ára tók ég þátt í keppni í Úkraínu meðal ungs fólks og vann í henni. Ég hélt áfram að semja og syngja, keypti mér gítar og lærði á hann til að geta gripið í hann þegar ég söng,“ rifjar hún upp. Alexandra söng á þessum tíma ýmis dægurlög og kom víða fram, bæði á sviði, í útvarpi og sjónvarpi. Átján ára samdi hún verkið Súkkulaðiland, sem hún þýddi seinna meir yfir á ís- lensku fyrir stúlknakórinn Drauma- raddir Norðursins. Var með popprödd - En hvað varð til þess að Alexandra fór yfir í klassíska tónlist? „Ég veit það eiginlega ekki alveg. Ég er ekki alin upp við klassíska tónlist að öðru leyti en að fara stundum í óperuna. Við systurnar fengum menningar- legt uppeldi og farið var með okk- ur í söfn, leikhús og þess háttar. En ég söng alltaf í kór. Fólk hafði oft hvatt mig í þessa átt, enda er ég með sterka rödd en það var ekki fyrr en ég var fimmtán ára sem ég ákvað að fara þessa leið.“ Alexandra segir að það hafi verið í kjölfar áheyrnar- prufu sem hún fór í fyrir unglinga- kór í Kiev. „Þetta var frægur kór sem ferðaðist um heiminn og hélt tón- leika. Ég mætti í prufuna með gítar- inn minn, búin að koma víða fram og var alveg viss um að ég kæmist inn. Svo sagði stjórnandinn við mig að ég væri með popprödd. Hún sagði að ég væri efnileg en að þau þyrftu krakka sem kynnu að beita röddinni á annan hátt og það myndi taka of langan tíma að kenna mér það,“ út- skýrir Alexandra. „Það var þá sem ég áttaði mig. Mér fannst skrítið að heyra að það myndi taka mig langan tíma að læra og ég bað foreldra mína um að fá að fara í söngnám í fram- haldinu.“ Að sögn Alexöndru getur það skipt máli að byrja að hlusta á tónlist snemma á lífsleiðinni. „Mað- ur verður fyrir svo miklum áhrif- um þegar hlustað er á tónlist. Tón- list getur hrifið börn mikið og þá eru þau líklegri til að vilja læra og prófa ýmislegt. Lifandi tónlist hríf- ur mest og foreldrar mættu vekja áhuga barna sinna á tónlist með því að fara með þau á tónleika sem þau gætu haft gaman af.“ Náði fljótt góðum árangri Alexandra var sextán ára gömul þegar hún byrjaði að læra klassískan söng. Þá var henni bent á að popp- söngurinn gæti truflað raddbeitingu hennar og lagði hún því poppið á hilluna. „Í tíu ár einbeitti ég mér alveg að óperusöng og náði góð- um árangri þar. Ég söng t.d. mitt fyrsta alvöru hlutverk í Kiev óper- unni þegar ég var 18 ára. Ég hafði einungis lært söng í þrjú ár þeg- ar það var. Ég var mjög ung radd- lega séð þegar ég byrjaði í klassíska söngnum og á meðan röddin þjálf- ast borgar sig ekki að rugla hana með öðruvísi söng. En það er allt í lagi þegar röddin hefur náð fullum þroska.“ Hún segir klassískt söng- nám taka langan tíma og það geti tekið mörg ár að þjálfa upp rödd- ina. „En klassískur söngur er mjög gefandi. Maður lærir nótnalestur og önnur tungumál samhliða, enda eru óperur oftar en ekki á ítölsku eða öðrum tungumálum. Þetta hef- ur góð áhrif í lífinu, maður þrosk- ast mikið í klassísku tónlistarnámi,“ segir Alexandra. Hún segir jafn- framt að klassískum söng megi líkja við íþrótt, enda þurfi miklar æfing- ar og að söngvarinn þurfi að halda sér í formi. „Ég þarf að vera heilsu- hraust til að geta sungið. Sund og jóga hjálpar mikið við öndun og það er gott að labba og anda. Ítalski tenórinn Enrico Caruso sagði að þeir sem kunni að anda, kunni líka að syngja.“ Alexandra eignaðist sitt þriðja barn fyrir stuttu og hún söng á tón- leikum gengin 38 vikur. Hún seg- ist hafa verið heilsuhraust á með- göngunni og þó óperusöngur geti tekið á hafi hún vel getað sung- ið á meðan hún gekk með barnið. „Þetta var öðruvísi á hinum tveim- ur meðgöngunum mínum, þá tók ég fjögurra mánaða hlé frá söngn- um. Maður hefur engra annarra kosta völ en að halda sér í formi. Þetta er barátta eins og svo margt annað, það eru allir að berjast fyrir sínu. Þetta snýst þess vegna allt um formið sem maður er í.“ Söngurinn eins og tungumál Alexandra er frá Úkraínu og flutt- ist til Íslands fyrir tólf árum. Hún segist strax hafa tekið eftir söng- menningu Íslendinga. „Ég tók eftir því hversu margir góðir söngvarar eru á Íslandi og margir góðir kórar. Í Úkraínu er bara atvinnufólk í kór- um en hér eru það bændur og alls- kyns fólk,“ segir hún og brosir. Hún segir töluverðan mun vera á heimi klassískrar tónlistar úti og hér, enda sé Úkraína mun stærra land og þar séu fleiri óperuhús. „Óperumenn- ingin er líka mun eldri þar, eða frá lokum 18. aldar þegar óperan kom frá Ítalíu yfir til Úkraínu. En þó það séu ekki mörg óperuhús hér og einungis tvær óperur settar upp ár- lega þá er mikil samkeppni. Söngur er stór hluti af íslenskri menningu og það er ekki sjálfgefið. Íslending- ar syngja mikið og þannig næ ég að tengjast þeim. Söngurinn er eins og tungumál sem tengir saman fólk með ólíkan bakgrunn.“ Hún segir að henni þyki undarlegt að fylgjast með fréttaflutningi af því ástandi sem komið er upp í tónlistar- og söngskólum í Reykjavík og vísar til þess að nýverið hafi þurft að segja öllum söngkennurum upp störfum hjá Söngskóla Sigurðar Demetz. „Mér finnst skrítið að það sé svona lítill stuðningur við söngnám og það sem er svona stór partur af ís- lenskri menningu,“ segir hún. Blessun að geta starfað við listina Fyrst eftir flutningana til Íslands bjó Alexandra í Keflavík. Eftir það bjó hún í eitt ár austur á Bakkafirði, þar sem íbúafjöldin er um áttatíu manns. „Ég man hvað ég varð glöð þegar ég kom inn á bókasafnið og fann þar flygil undir yfirbreiðslu,“ segir tónlistarkonan sem átti erfitt með að ímynda sér lífið fyrir austan án tónlistar. Hún fór svo að kenna söng og tónlist á Bakkafirði. Seinna fluttust hjónin norður í Skagafjörð þar sem hún stofnaði Óperu Skaga- fjarðar sem setti meðal annars upp þrjár óperur og gaf út tvo geisla- diska. Fyrir norðan stofnaði hún einnig eigin söngskóla og stúlkna- kórinn Draumaraddir Norðurs- ins. „Ég hef verið mjög heppin. Ég hitti alltaf gott tónlistarfólk sem starfar með mér. Það er blessun að geta gert það sem manni langar, að geta gert tónlistina að atvinnu. Þó það sé ekki alveg á sama hátt og ég ímyndaði mér þegar ég var ung. En ég er mjög ánægð með þann stað sem ég er á í dag. Ef ég hefði ekki flutt til Íslands, þá hefði ég örugg- lega aldrei skrifað óperu.“ Útgáfutónleikar í kvöld Í kvöld, miðvikudag, verða útgáfu- tónleikar Alexöndru á nótnabók- inni „Skáldið og Biskupsdóttirin“ haldnir í Kaldalóni í Hörpu klukk- an 20. Á tónleikunum koma fram einsöngvarar: Alexandra Cherny- shova, Ásgeir Páll Ágústsson, Elsa Waage, Eiríkur Hreinn Helgason, Kristján Jóhannsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Ísabella Leifsdóttir, Egill Árni Pálsson, Margrét Einars- dóttir, Michael Jón Clarke, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir og Söng- sveitin Filharmónía, stjórnandi Magnús Ragnarsson með píanó- undirleik Helgu Bryndísar Magn- úsdóttur. Kynnir er Guðrún Ás- mundsdóttir. Miðasala fer fram á harpa.is. Einnig er hægt að kaupa miða og nótnabókina á sérstöku til- boðsverði. Bókina má einnig nálg- ast í Tónastöðinni, Hljóðfærahús- inu og á bókasöfnum á Akranesi og í Borgarnesi. Þá er hægt að senda Alexöndru tölvupóst á netfangið alexandra@dreamvoices.net. grþ / Ljósm. Jón Rúnar Hilmars- son. „Söngurinn er eins og tungumál sem tengir saman fólk með ólíkan bakgrunn“ Rætt við tónskáldið Alexöndru Chernyshovu sem gaf nýverið út sína fyrstu nótnabók Alexandra Chernyshova óperusöngkona og tónskáld gaf nýverið út sína fyrstu nótnabók. Nótnabókin inniheldur fjórtán lög, texta og sögu óperunnar á þremur tungumálum. Frá uppsetningu óperunnar Skáldið og Biskupsdóttirin í Hallgrímskirkju í Saurbæ.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.