Skessuhorn


Skessuhorn - 09.03.2016, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 09.03.2016, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 9. MARS 201618 Hjalti Allan Sverrisson býr í Grundarfirði ásamt konu sinni Lísu Ásgeirsdóttur og tveimur sonum. Þau eiga og reka Rútu- ferðir ehf sem hefur verið vax- andi fyrirtæki síðan það var stofn- að fyrir fjórum árum. Helstu verk- efni þess eru akstur fyrir Strætó bs en auk þess akstur ferðafólks af skemmtiferðaskipum og ýmislegt fleira taka þau að sér. Nú bíða þau eftir að fá afgreitt ferðaskrifstofu- leyfi sem gefur ýmsa möguleika í rekstrinum. Fréttaritari Skessu- horns kíkti í heimsókn til Hjalta Allans sem er fæddur í Ástralíu en ættleiddur af íslenskum hjónum. Hann leitar nú uppruna síns í hópi andfætlinga okkar. Leitaði tengsla við ættingja sína Hjalti er fæddur 20. febrúar 1969 í borginni Perth í Ástralíu. Hann var nokkura daga gamall þegar örlög- in gripu í taumana og hann var ætt- leiddur. Það voru íslensk hjón sem bjuggu í Ástralíu á þessum tíma og voru í ættleiðingarhugleiðingum sem ættleiddu piltinn. Þriggja ára gamall flutti Hjalti svo með foreldr- um sínum til Íslands, siglandi með skipinu Southern Cross. Fjölskyld- an skaut svo rótum í Grindavík en móðir hans er þaðan. „Ég hef nú alltaf litið á mig sem Íslending þó ég hafi oft hugleitt uppruna minn,“ segir Hjalti þegar hann er inntur eftir þessu. „Ég var sjö eða átta ára þegar jafnaldri minn minnist á það við mig að ég sé ættleiddur en hann hafði sennilega heyrt það hjá for- eldrum sínum. Ég vissi nú varla þá hvað það þýddi að vera ættleiddur og ég spurði móður mína nánar út í það.“ Hjalti ólst upp í Grindavík og undi sér þar við leik og störf líkt og jafnaldrarnir í sjávarplássinu. „Ég man að ég var mikið að spá í uppruna minn eftir að ég komst að því að ég væri ættleiddur og móðir mín var búin að skýra þetta út fyr- ir mér,“ segir Hjalti en það var ekki fyrr en árið 1991 þegar hann eign- ast sína fyrstu dóttur með þáverandi sambýliskonu að hann fór virkilega að velta þessu fyrir sér. „Já, þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn fór ég að hafa mikinn áhuga á áströlskum uppruna mínum og sendi bréf út og spurðist fyrir um þessi málefni hjá þarlendum barnaverndaryfir- völdum,“ segir Hjalti. Þá var haft samband við blóðforeldra hans ytra sem neituðu öllum samskiptum. „Ég skildi aldrei hvernig hægt var að gefa barn til ættleiðingar en væntan- lega hafa þau haft sínar ástæður fyrir því,“ segir hann. Eftir það réði hann einkaspæjara í Ástralíu til að kom- ast að einhverju um uppruna sinn. „Já, ég réði mér spæjara til að kíkja á þetta og komst þá að því að ég á tvær systur úti. Þetta var upp úr seinni fyrirspurninni minni en þá vildu þær ekki hafa samband til baka,“ segir Hjalti en hann var 22 ára þeg- ar þetta var og systur hans 18 og 20 ára. „Við höfðum varla þroska til að meðtaka þetta þá en það er öðru- vísi í dag enda erum við öll á fimm- tugsaldri núna,“ segir Hjalti og hlær. Önnur systir Hjalta hafði svo sam- band fyrir ári síðan. „Ég fékk bréf frá systur minni í Ástralíu í fyrra og hef verið í bréfaskriftum við hana en hin systirin vill ekki vera í sambandi því henni finnst hún vera að fara á bakvið móður sína með því,“ segir Hjalti en hann stefnir á að hitta þær einhvern tímann í framtíðinni. Þessi ættleiðingarmál höfðu ekki djúpstæð áhrif á Hjalta og hann lét ekki trufla sig að blóðforeldrar hans vildu engin samskipti, utan eitt at- riði: „Helst myndi ég vilja vita ætt- arsögu mína hvað varðar t.d. erfða- sjúkdóma og slíkt, en ég hef enga vitneskju um neitt slíkt í dag,“ seg- ir Hjalti. Nú á hann sjálfur fimm börn og tvö barnabörn og væri til í að hafa meiri upplýsingar um upp- runa sinn. Frá eðalvögnum til Noregs og loks til Grundarfjarðar Hjalti bjó í Grindavík til ársins 1999 og rak þar eðalvagnaþjón- ustuna Royal Limousine sem eins og nafnið gefur til kynna gerði út lúxus bíla af fínustu gerð. Einn- ig rak Hjalti flutningaþjónustu um tíma í Grindavík en árið 1999 slitu hann og þáverandi sambýliskona hans samvistum og Hjalti flutti út til Svíþjóðar. „Ég flyt til Svíðþjóðar og fer að vinna á flutningabíl. Það var heilmikið ævintýri en maður keyrði alla leið frá Norður-Noregi og Murmansk niður til Frakklands og stundum til Spánar og þá aðal- lega Barcelona. Hver ferð tók viku- tíma og svo keyrði maður til baka með grænmeti og ávexti frá Spáni til Noregs.“ Hjalti fór þó aðra hverja helgi til Íslands til að vera með dætrum sínum þremur og í einni af þeim ferðum kynntist hann núverandi konu sinni. „Já, það var árið 2000 að ég og Lísa förum að slá okkur upp saman,“ segir Hjalti hlæjandi og gjóar augum til konu sinnar. „Ég flyt þá fljótlega heim aftur til Íslands til að vera með Lísu og fór þá fljótlega að keyra rútur og síðar stofnuðum við Lísa jeppafyrirtæki sem sérhæfði sig í að ferja ferðamenn um fjöll og fyrn- indi. En þeim rekstri urðum við að hætta eftir 11. september 2001 en þá steinhættu ferðamenn allt í einu að koma.“ Hjalti og Lísa ráku með- al annars bónstöð til skamms tíma áður en þau hófu rekstur á verk- takafyrirtæki með hjólaskóflu og vörubílum. „Já, þetta var í góðær- inu og við bjuggum í Hveragerði og gerðum út þessar vinnuvél- ar. Svo kom 2008 eins og frægt er orðið og við lentum ansi illa í því. Við náðum okkur þó fljótt á strik að nýju og í janúar 2009 fluttum við hingað til Grundarfjarðar og ég fór að vinna við akstur.“ Bíður eftir ferðaskrif- stofuleyfi Árið 2011 hóf Hjalti svo að aka fyrir Strætó bs sem verktaki. „Við keyptum litla rútu og hófum að aka fyrir Strætó frá Hellissandi í Borg- arnes. Svo vex þetta batterí og árið 2012 stofnum við Rútuferðir ehf,“ segir Hjalti Allan en Rútuferðir hefur verið vaxandi fyrirtæki í takt við fjölgun ferðamanna. „Strætó bs er okkar stærsti viðskiptavinur en skemmtiferðaskipin eru þar skammt undan,“ segir Hjalti en í dag á fyrir- tækið tvær 50 manna rútur og þrjár minni rútur sem taka 15-19 farþega hver. Auk þess eiga þau breytt- an Ford Econoline fyrir fjallaferð- ir. „Ég keyri mest sjálfur en hef þó nokkra bílstjóra sem ég get hóað í þegar mikið liggur við,“ en Hjalti er einmitt nýkominn heim úr einni slíkri ferð þegar fréttaritari kíkti við í kaffi. „Á veturna keyrum við líka mikið fyrir erlendar ferðaskrif- stofur sem eru með hópa í ferðum hérna á Snæfellsnesi.“ Rútuferðir eru einnig að bíða eftir ferðaskrifstofuleyfi til að bæta reksturinn enn frekar. „Já, við ætlum að bjóða upp á ferðir fyrir Íslend- inga sem vilja fara í öðruvísi ferð- ir erlendis og erum við þá að hugsa um Ítalíu, Færeyjar og svona sér- sniðnar ferðir fyrir hvern og einn,“ segir Hjalti en ferðaskrifstofuleyfið ætti að detta í hús hjá þeim á næstu vikum og þá ættu Vestlendingar að geta fengið hjálp við að skipuleggja óhefðbundnar draumaferðir hjá Rútuferðum ehf. tfk Hjalti Allan Sverrisson hjá Rútuferðum ehf: Hefur prófað allt frá eðalvagnaþjónustu til reksturs rútufyrirtækis Lísa Ásgeirsdóttir og Hjalti Allan reka Rútuferðir ehf. Hjalti við rúturnar sínar. Hjalti gerir meðal annars út Ford Econoline fjallatrukk.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.