Skessuhorn


Skessuhorn - 08.06.2016, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 08.06.2016, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 8. JÚNÍ 2016 19 Frambjóðendur til forseta svara spurningum Skessuhorns sinni mótar hins vegar embættið með sín- um hætti. Ég hef lagt áherslu á að á komandi árum eigi forsetinn að „horfa heim“ og fær- ast nær fólkinu í landinu. Þetta verður meðal annars gert með því að opna Bessastaði fyrir öllum landsmönnum – bjóða alla velkomna til Bessastaða. Um leið þarf forsetinn að huga að hinum andlegu innviðum þjóðarinnar og fást við þennan óróa og þessa skrýtnu tilfinn- ingu sem hefur verið að grípa um sig í land- inu allt allt of lengi. Forsetinn, hafi hann til þess burði og þrek, getur stuðlað að meiri sátt í þjóðfélaginu og hann getur stöðvað þöggun um mikilvæg mál - verið í fararbroddi þess að knýja á um umræðu, sem leiðir til athafna - jákvæðra athafna í þágu lands og þjóðar. 3. Hvernig á forsetinn að haga synjunar- valdinu? Ef hann á að taka mark á áskor- unum, hversu hátt hlutfall kosningabærra Íslendinga þarf þá að skora á hann? Forseti skal beita svokölluðum málskotsrétti af hófsemd og aðeins þegar um er að ræða mál sem eru mikilvæg land og þjóð og eru óafturkræf. 4. Finnst þér þurfa að breyta Stjórnarskrá Íslands. Ef já, hverju vildir þú helst breyta? Það á aldrei að kollvarpa stjórnarskrá lýð- veldis. Breytingar kunna að vera nauðsynleg- ar, líkt og 1995 þegar nýr mannréttindakafli, sem styrkti stöðu og réttindi borgaranna, var samþykktur. Það er eðlilegt framhald af þeim breytingum að setja inn í stjórnarskrá rétt al- mennings til að kalla fram þjóðaratkvæða- greiðslur í ákveðnum málum. 5. Ertu trúuð/aður? Já. 6. Trúir þú á líf eftir dauðann? Upprisan er forsenda trúarinnar. 7. Hversu sýnilegur á forsetinn að vera á al- þjóðavettvangi? Forsetinn á að tala máli Íslands og gæta hags- muna lands og þjóðar utan land og innan. 8. Ef þú kemst til valda, munt þú beita þér í embættinu til að tala fyrir einhverjum ákveðnum málum. (T.d. utanríkismálum, mannréttindamálum, velferðarmálum eða öðru?) Forseti er fyrst og fremst forseti allra Íslend- inga, en hann getur talað máli þeirra sem eiga undir högg að sækja. Hann getur einn- ig tryggt að raddir sem flestra Íslendinga fái að heyrast en ekki aðeins raddir örfárra sem hæst hrópa. 9. Er eitthvað sem Ísland hefur sem önnur lönd hafa ekki? Þurfa Íslendingar að breyta markaðssetningu landsins á einhvern hátt? Ef já, hvar eigum við að leggja áherslurn- ar? Við eigum bókmenntirnar og menninguna, náttúruna og síðast en ekki síst íslenska tungu. 10. Hverjir eru þínir helstu kostir? Reynsla og þekking á íslenskri stjórnsýslu, stjórnmálum, menningu og listum. Kjarkur að nýta reynsluna og þekkinguna til að taka ákvarðanir af yfirvegun í erfiðum málum. 11. Hverjir eru þínir helstu veikleikar? Ég læt aðra um dæma um það, en mínir gallar ættu að vera öllum ljósir og engir leyndir. 12. Hvers vegna vilt þú verða forseti Ís- lands? Vegna þess að ég tel mig geta unnið þjóðinni gagn. 13. Hvenær tókst þú ákvörðun um að bjóða þig fram? Stuttu áður en framboðsfrestur rann út. 14. Hvert yrði þitt fyrsta verk ef þú yrðir kosin/n forseti? Þakka fyrir mig. 15. Munt þú breyta áherslum í orðuveiting- um forseta? Það á alltaf að gæta ákveðinnar íhaldssemi við orðuveitingar en við eigum að vera óhrædd að veita þeim viðurkenningu sem unnið hafa gott verk fyrir land og þjóð. 16. Hvaða forseti á lýðveldistímanum finnst þér hafa skarað fram úr? Hver með sínum hætti stóð vaktina af prýði. 17. Hvað er það sem þú ert stoltust/stoltast- ur af að hafa gert á ævinni? Að hafa lifað lífinu. 18. Hver eru þín helstu áhugamál? Bridge, trjárækt, bókmenntir, náttúran og dýr. 20. Hvaða staður á Vesturlandi finnst þér fallegastur? Fátt er fegurra en Snæfellsjökull. Halla Tómasdóttir 1. Hverjir eru fjölskylduhagir þínir? Ég er gift Birni Skúlasyni úr Grindavík, hann er menntaður stjórnunarsálfræðingur og heilsukokkur og rekur verslunina Nóa- tún í Austurveri. Við eigum tvö börn, Tóm- as Bjart 14 ára og Auði Ínu 12 ára. 2. Hvernig skilgreinir þú hlutverk Forseta Íslands? Forseti á að vera jákvætt afl sem getur sætt og sameinað og verið farvegur fyrir vilja þjóð- arinnar. Ég sé forseta sem leiðtoga sem leið- ir samtal um stór mál er varða framtíð okk- ar allra. Þá veitir forseti stjórnsýslunni einn- ig ákveðið aðhald og er mikilvægur málsvari lands og þjóðar á alþjóðlegum vettvangi. 3. Hvernig á forsetinn að haga synjunar- valdinu? Ef hann á að taka mark á áskor- unum, hversu hátt hlutfall kosningabærra Íslendinga þarf þá að skora á hann? Beiting málskotsréttarins á ekki að vera háð- ur geðþótta forseta á hverjum tíma held- ur tæki sem hann getur beitt í þágu þjóð- arinnar þegar eindregið ákall hefur kom- ið fram um beitingu málskots í mikilvægum málum. Æskilegt er að rammi verði settur um málskotsréttinn í stjórnarskrá en þangað til er rétt að forseti setji sér nokkuð skýran og málefnalegan ramma um beitingu hans þar sem fyrirsjáanleiki er afar mikilvægur á þessu sviði eins og í öllu stjórnarfari. 4. Finnst þér þurfa að breyta Stjórnar- skrá Íslands. Ef já, hverju vildir þú helst breyta? Ég tel komna þörf á að breyta stjórnar- skránni. Breið, þverpólitísk sátt þarf hins vegar að vera um breytingar á stjórnarskránni þar sem henni er ætlað að vera grundvall- arrammi um samfélagið um ókomin ár og standa vörð um grunngildi þess. Hún má þó ekki standa í vegi nýrra viðhorfa og framfara. Ég tel ráðlegast að breyta stjórnarskránni í tveimur skrefum: Byrja á að ná sátt um ný, umdeild ákvæði sem löngu er orðið tímabært að fjallað sé um um í stjórnarskránni, svo sem náttúruna, auðlindirnar og beint lýð- ræði. Þegar það hefur tekist er rétt að færa texta stjórnarskrárinnar í heild til nútímans og skerpa á því sem óljóst hefur verið talið í henni. Stjórnarskráin er í grunninn 19. ald- ar skjal, margt í henni er torskilið öðrum en löglærðum og jafnvel mótsagnakennt. Óljós ákvæði um valdheimildir æðstu ráðamanna svo sem forseta geta skapað hættu á að þeir verði fyrirferðarmeiri en æskilegt er. Óvissa um verkaskiptingu æðstu stjórnenda ríkisins getur beinlínis verið hættuleg á viðsjárverð- um tímum. 5. Ertu trúuð/aður? Ég trúi því að hver manneskja eigi rétt á að rækta sinn anda og sína sál með sínum hætti. Við fjölskyldan erum í Þjóðkirkjunni. 6. Trúir þú á líf eftir dauðann? Manneskjur lifa áfram í minningu samferða- fólks síns og því tel ég mikilvægt að koma fram af heiðarleika, réttlæti, umhyggju og hlýju, þannig minningar vil ég að lifi eftir minn dag og þannig sál vil ég vera. 7. Hversu sýnilegur á forsetinn að vera á alþjóðavettvangi? Nokkuð sýnilegur. Forseti getur gegnt mik- ilvægu hlutverki í að kynna landið og koma á framfæri því sem við höfum upp á að bjóða. Þá tel ég einnig mikilvægt að forseti tali fyrir því á alþjóðavettvangi að jafnrétti og mann- réttindi séu í heiðri höfð og leggi sitt af mörkum í þeim efnum. Það er mikilvægt að hafa hugfast að forseti er þjónn og fulltrúi þjóðarinnar og á fyrst og fremst að koma fram sem slíkur á erlendum vettvangi. 8. Ef þú kemst til valda, munt þú beita þér í embættinu til að tala fyrir einhverjum ákveðnum málum. (T.d. utanríkismálum, mannréttindamálum, velferðarmálum eða öðru?) Ég mun áfram leggja áherslu á þau málefni sem ég hef unnið ötullega að í nær tvo ára- tugi. Ég vil vinna að jafnrétti fyrir alla, öfl- ugu og fjölbreyttu menntakerfi, og sköpun og frumkvæði á öllum sviðum okkar samfé- lags. Ég trúi því að þessi atriði skipti sköpum fyrir bjarta framtíð okkar allra og ákvörðun unga fólksins um að búa hér. Ég á mér þann draum að Ísland verði fyrst til að brúa kynja- bilið og fyrirmynd annarra þjóða í því að hér fái allir jöfn tækifæri óháð kyni, aldri, bú- setu, uppruna og fjárhagslegri stöðu. 9. Er eitthvað sem Ísland hefur sem önn- ur lönd hafa ekki? Þurfa Íslendingar að breyta markaðssetningu landsins á ein- hvern hátt? Ef já, hvar eigum við að leggja áherslurnar? Við eigum geysimiklar auðlindir í landinu okkar og náttúrunni. Hreint loft, vatn og orka eru meðal okkar helstu auðlinda og þær ber að standa vörð um, en ég tel okkar stærstu auðlind vera fólkið, tungumálið og menninguna. Við höfum heilmargt uppá að bjóða fyrir þá sem vilja sækja okkur heim og þannig getum við skapað verðmæti, en við verðum að finna leiðir til þess að hér verði byggð upp sjálfbær ferðaþjónusta sem ekki ógnar samfélaginu okkar, náttúrunni, frið- sældinni og öðrum þeim þáttum sem gera okkur einstök og eftirsóknarverð. Við eig- um að leggja áherslu á gæði í ferðaþjónustu fremur en magn. Einungis þannig getum við skapað starfsgrein sem ber arð til lengri tíma litið, bæði efnahagslega og samfélags- lega séð. 10. Hverjir eru þínir helstu kostir? Ég er dugleg, heiðarleg og læt verkin tala. Ég hef verið óhrædd að taka að mér verk- efni og ábyrgð og þannig hef ég öðlast mikla og fjölbreytta reynslu. Ég hef hæfileika til að leiða fólk saman, sætta og sameina. Ég hlaut heilbrigt uppeldi á venjulegu heimili þar sem heiðarleiki, dugnaður og hlýja réðu för og bý að góðri alþjóðlegri menntun og starfs- og lífsreynslu frá Íslandi, Bandaríkj- unum, Bretlandi og Norðurlöndum. 11. Hverjir eru þínir helstu veikleikar? Sumum finnst ég eiga það til að tala of mik- ið, enda er ég ekki mikið fyrir það að liggja á skoðunum mínum, og einhverjum kann að finnast ég full ákveðin. Ég hef líka heyrt því fleygt að það sé ekki endilega heppilegt fyrir forsetaframbjóðanda að hafa starfað í viðskiptalífinu, ég er því ósammála. Ég tel stjórnunarreynslu af hinu góða og sé það sem ótvíræðan kost að þekkja til innviða viðskiptalífsins til að geta veitt því hæfilegt aðhald og hvatt það til jákvæðra umbreyt- inga. Ég var ekki þátttakandi í vafasömum verkefnum í aðdraganda hrunsins, nafn mitt kemur hvergi fram í Rannsóknaskýrslu al- þingis og ég hef aldrei átt aflandsreikninga. 12. Hvers vegna vilt þú verða forseti Ís- lands? Ég ákvað að gefa kost á mér í kjöri til forseta Íslands vegna þess að í þessu mikilvæga hlut- verki er hægt að gera gagn og koma góðu til leiðar. Í þessu embætti er hægt að vinna að hagsmunum heildarinnar þvert á alla flokka og hagsmunaöfl. Ég veit að ég get gert mik- ið gagn fyrir íslenska þjóð, bæði hér heima og að heiman. Ég vil leggja mig fram um að græða sárin í samfélaginu og byggja upp traust á ný. Ég vil líka að við Íslendingar get- um áfram verið stolt af okkar einstöku nátt- úru, tungu og ríka menningararfi og verið öðrum þjóðum fyrirmynd hvað varðar jafn- rétti og sjálfbærni. 13. Hvenær tókst þú ákvörðun um að bjóða þig fram? Hugmyndin kviknaði fyrst fyrir tæpu ári síðan þegar ungt fólk sem aðstoðaði mig við ráðstefnuna „WE 2015 - samtal um brú- un kynjabilsins“ setti fram þessa hugmynd. Ég tel að þau hafi séð mikilvægi þess að tala fyrir framtíðarmálefnum. Í byrjun desemb- er var stofnuð áskorunarsíða á Facebook, en það var ekki fyrr en að Ólafur Ragnar til- kynnti í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki gefa kost á sér að ég fór að hugsa mál- ið af alvöru. Ákvörðun var svo tekin fyrstu vikurnar í mars og framboð tilkynnt þann 17.mars. 14. Hvert yrði þitt fyrsta verk ef þú yrðir kosin/n forseti? Þakka kjósendum og stuðningsfólki mínu og sjálfboðaliðum fyrir traustið. Síðan myndi ég byrja strax að leggja línurnar fyrir fram- tíðina, fyrir opnari Bessastöðum og fyrir ár- legum Þjóðfundum um stór mál sem varða framtíð okkar allra. Ég vil vera forseti sem horfir til framtíðar og horfir til þess að virkja þjóðina með sér í mótun hennar. 15. Munt þú breyta áherslum í orðuveit- ingum forseta? Ég er fylgjandi því að veita þeim viðurkenn- ingu sem leggja sig fram um að láta gott af sér leiða í okkar samfélagi og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um hvunndagshetjurnar sem leggja mun meira af mörkum en hægt er að gera ráð fyrir að starfið kalli á. Ég myndi vilja hvetja fólk sérstaklega til þess að til- nefna slíkar manneskjur, því þær eru sam- félaginu okkar ómetanlegar. Ég myndi líka vilja auka gagnsæi í störfum orðunefndar og kynna þjóðinni ferlið. 16. Hvaða forseti á lýðveldistímanum finnst þér hafa skarað fram úr? Hver og einn forseti hefur haft sín sérkenni og allir hafa staðið sig vel á sinn hátt. Ég neita því þó ekki að forsetatíð Vigdísar á sér sérstakan sess í hjarta mínu, kannski vegna þess að ég var þá sjálf á mótunarárum og hún var sterk fyrirmynd, en ekki síður vegna þess að hún braut blað með því að vera kos- in þjóðhöfðingi fyrst kvenna og tókst á ein- stakan og einlægan hátt að gera embættið að sínu. 17. Hvað er það sem þú ert stoltust/stoltast- ur af að hafa gert á ævinni? Ég er stoltust af börnunum mínum, ekkert kemst í hálfkvisti við það. En ég er líka stolt af því að hafa komið með virkum hætti að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, að hafa barist fyrir jafnrétti, ekki bara í orði held- ur á borði, í verkefnum eins og Auði í krafti kvenna og Auði Capital, og að hafa verið ein af þeim sem leiddi Þjóðfundinn 2009, þar sem slembiúrtak þjóðarinnar fékk tækifæri til að ræða sín grunngildi og framtíðarsýn. 18. Hver eru þín helstu áhugamál? Ég æfði handbolta og fótbolta í æsku, og áhugi á íþróttum er allnokkur á heimilinu. Sonur okkar æfir fótbolta og dóttir okk- ar fimleika og við foreldrarnir verjum tölu- verðum tíma með þeim í því. Ég var lengi í kór og lærði á píanó og nýt fjölbreyttrar tónlistar hvar sem tækifæri gefst. Við höf- um öll gaman af ferðalögum og ýmiskonar útivist og mér finnst fátt betra en að komast uppí bústað þar sem næði gefst til að lesa. Þá kunnum við öll vel að meta góðar stund- ir við matarborðið í hópi vina og eiga með þeim uppbyggilegar og fróðlegar samræður um öll heimsins mál. 19. Hefur þú einhverja tengingu við Vest- urland? Pabbi minn fæddist í Skagafirði, en varð snemma munaðarlaus og var orðinn vinnu- maður í sveit 8 ára gamall. Hann kom í Borgarfjörðinn 16 ára gamall og bjó þar í 2 ár og sagði alla tíð að Borgarfjörðurinn væri einstakur í fegurð og að þar hefði sér liðið best. Foreldrar mínir keyptu sér því sumar- bústað þar og börnin mín og við öll eyddum mörgum góðum stundum þar. 20. Hvaða staður á Vesturlandi finnst þér fallegastur? Það eru svo margir fallegir staðir á Vest- urlandi að það er ekki einfalt að velja, en mér hefur alltaf fundist einstaklega fallegt í kringum Hreðavatn, við Norðurá og í sjálfri Pardísarlaut.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.