Skessuhorn - 24.08.2016, Qupperneq 26
MIÐVIKUDAGUR 24. ÁGÚST 201626
Vísnahorn
Jæja gott fólk. Einhvers
staðar verðum við að byrja
á pistlinum. Fyrst kemur
hér vísa eftir Stefán Stef-
ánsson frá Móskógum:
Margt ég prófað misjafnt hef
en mestan halla gerði
er hamingjunnar hlutabréf
hröpuðu úr öllu verði.
Á fyrstu árum útvarpsins var dagskrá þess
mjög til umræðu manna á meðal og ýmsar skoð-
anir uppi um gæði þeirra sem þar létu ljós sitt
skína. Til manns sem oft kom fram í útvarpinu
var kveðið:
Löngum hefur lítið grín
létt mér tímans byrði
en alltaf finnst mér þögnin þín
þúsund dala virði.
Minnir reyndar aðeins á vísu Ingveldar á
Reykjum þegar kvæðakver Halldórs Kiljan kom
út en oft var aðeins ein vísa á hverri síðu og þótti
nýtnu fólki ódrýgilega farið með pappírinn:
Þitt hef ég lesið Kiljan kver,
um kvæðin lítt ég hirði.
En eyðurnar ég þakka þér,
þær eru nokkurs virði.
Mönnum hefur lengi sviðið misskipting auðs-
ins hér á jörð. Jafnvel áður en kvótakóngarnir
urðu til. Indriði Þorkelsson á Fjalli kvað:
Allt er vald hjá einum drottn
álög tvinna og þrinna.
Þeir sem aldrei aldrei botn
eigna sinna finna.
Á kreppuárunum var oft þröngt í búi og vafa-
laust ekki síður í sjávarþorpunum. Eitthvað mun
hafa verið um að nefndir voru sendar til að biðja
æðri veraldleg yfirvöld um aðstoð og eins og
vanalega voru þær sakaðar með réttu eða röngu
um að maka krókinn sjálfum sér í hag. Þá kvað
Lúðvík Kemp:
Þjóðin svöng og þreytt í dag,
þrjóta löngum efndir.
Safna föngum sér í hag
sultargöngunefndir.
Ástin hefur orðið mannkyninu æði sterkt afl
og oft örlagarík enda fáir sem alveg hafa sloppið
við hana. Þessi er eftir Sveinbjörn Beinteinsson:
Þótt ég færi vítt um veg
var ég þér alltaf nærri,
hvar sem þú ert þar er ég,
þó ég verði fjærri.
Ragnar Ágústsson frá Svalbarði kvað um ákaf-
lega ástfangið par og hefði einhver sagt að minna
hefði nú sloppið til:
Svo er ástin meyju og manns
menn ei þekktu slíka.
,,Ef þú ferð til andskotans
ætla ég þangað líka.“
Þó getur nú ástin tekið breytingum sem og
annað. Ekki veit ég nafnið á þeim góða manni
sem svo kvað við sína innvígðu ektakvinnu:
Þungskilið þykir mér ekki
að þú skyldir vilja mig
en hvernig í fjandanum fékk ég
þá flugu að eiga þig.
Eitthvað líkt fór víst fyrir Sigurði Helgasyni
frá Jörfa þegar hann hafði búið í fá ár með seinni
konu sinni á Fitjum í Skorradal:
Þó ég gangi margs á mis,
mundi ég una högum,
ef friðarögn til fágætis,
fengi á sunnudögum.
Margir hafa sent vinum sínum afmæliskveðj-
ur í bundnu máli og stundum verða þær örlítið
uppskrúfaðar. Hermann Jóhannesson frá Kleif-
um sendi skólabróður sínum þessa kveðju:
Þér ég óskir fagrar flyt.
Flýi þig sorg og kvíði.
Megir þú hljóta meira vit
og meiri andlitsprýði.
Nú er ég ekki fullviss hvort það var sami mað-
ur sem Hermann lýsti með þessum orðum:
Kyrtlar sora og syndar
svella í loðnum kroppnum.
Minnislaus hausinn myndar
massíva kúlu á toppnum.
Hinsvegar hef ég grun um að sá sem Her-
mann yrkir um í þessari vísu sé sá sami og sú
fyrsta er ort um:
Veröld full af vonsku er
vélráðum og táli
en verst af öllu virðist mér
að vera skyldur Páli.
Fyrir margt löngu var Bjarni Ásgeirsson á
ferð um Mývatnssveit. Fór framhjá heimkynn-
um Þuru í Garði og notaði tækifærið til að senda
henni þessar vísur:
Fjöllin mynda fagran hring
full af gróður-arði,
unaðshljómar allt um kring,
ilmur úr hverju barði.
Birkihríslur, berjalyng,
blóm í laut og skarði,
Mývatnssveitar mesta þing
mun samt Þura í Garði.
Ásgrímur Kristinsson frá Ásbrekku í Vatnsdal
var afbragðssnjall hagyrðingur eins og fleiri af
þeirri ætt en hann var afkomandi Bólu Hjálm-
ars. Hann orti um þann forföður sinn:
Hjálmar kól þótt kvæði snjallt,
kenndi ei skjól um veginn.
Nú er Bólu ætt um allt
orðin sólarmegin.
Annar afkomandi Bólu Hjálmars er séra
Hjálmar Jónsson og er fjarri því að kallast poka-
prestur en það orð var stundum notað um lé-
lega presta. Þegar séra sá útskrifaðist úr Guð-
fræðideildinni fékk hann þessa kveðju frá frænku
sinni:
Út á brautir auðs og frama
ertu stiginn.
Prýðisefni í það sama
eins og striginn.
Nú nálgast göngur og réttir og vonandi fer
allt vel í þeim aðgerðum eins og reyndar oftast
nær. Veðurfar er þó nokkuð misjafnt á haustin
og árið 1963 kölluðu Húnvetningar og Skagfirð-
ingar ,,Vonda haustið“ og þurfti þá ekki nánari
útskýringu. Það haust kom Sveinn Jóhannsson á
Varmalæk óvenju seint í skála. Var spurður tíð-
inda úr sinni för og svaraði af sínum alkunnu ró-
legheitum:
Þegar heimahögum fjær
heiðarlöndin könnum,
geta svona tvær og tvær
tafið fyrir mönnum.
Guðmundur Jónsson í Ljárskógum mun hins-
vegar hafa ort eftirfarandi sjálfslýsingu í leit-
um eða heimasmölun. Íklæddur regnkápu mik-
illi sem huldi mikið af manninum og nokkuð af
hestinum þar með:
Kápan hylur klársins lend
kitlar nárastandinn.
-Helvíti er að horfa á Gvend
hann er eins og Fjandinn.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 0g 849 2715
dd@simnet.is
En hvernig í fjandanum fékk ég - þá flugu að eiga þig?
Fjölmenni var viðstatt hátíðar-
guðsþjónustu á Akranesi síðastlið-
inn sunnudag. Þá var fagnað 120
ára vígsluafmælis kirkjunnar og
30 ára afmælis safnaðarheimilisins
Vinaminnis. Séra Agnes M. Sig-
urðardóttir biskup Íslands prédik-
aði en auk hennar þjónuðu við at-
höfnina prestar safnaðarins sr. Eð-
varð Ingólfsson og sr. Þráinn Har-
aldsson auk sr. Þorbjarnar Hlyns
Árnasonar prófasts á Borg. Sókn-
arnefndarfólk las ritningarorð og
kirkjukórinn söng undir stjórn
Sveins Arnars Sæmundssonar org-
anista.
Eftir guðsþjónustu var gestum
boðið til hátíðarkaffis í Vinaminni.
Við það tækifæri færðu hjónin
Ingólfur Árnason og Guðrún Ag-
nes Sveinsdóttir Akraneskirkju að
gjöf þrjár milljónir króna til minn-
ingar um látna ástvini. Í gjafabréfi
segir að gjöfin sé frá fyrirtækjun-
um Skaganum hf. og Þorgeiri og
Ellert hf. Sérstaklega minnast þau
með gjöfinni þriggja einstaklinga:
Árna Ingólfssonar læknis, föður
Ingólfs, sem lést í júní síðastliðn-
um, Unu Jónmundsdóttur, móður
Guðrúnar Agnesar, sem lést árið
2013 og Harðar Pálssonar bak-
ara sem lengi var stjórnarformaður
Þ&E og sat auk þess í sóknarnefnd
Akraneskirkju. Biskup og fulltrúar
safnaðarins veittu gjöfinni viðtöku
og þökkuðu af alhug þessa höfð-
inglegu gjöf. mm/ Ljósm. ki
Hátíðarguðsþjónusta á 120 ára
vígsluafmæli Akraneskirkju
Prestar og biskup tóku á móti gestum að athöfn lokinni. Frá hægri: Agnes M Sig-
urðardóttir, Eðvarð Ingólfsson, Þráinn Haraldsson og Þorbjörn Hlynur Árnason.
Þau stilltu sér upp til myndatöku að lokinni afhendingu peningagjafarinnar.
F.v. Ingólfur Árnason, sr. Agnes M Sigurðardóttir, sr. Eðvarð Ingólfsson, Indriði
Valdimarsson skrifstofustjóri Akraneskirkju og Guðrún Agnes Sveinsdóttir.
Prestar Akraneskirkju, þeir Þráinn Haraldsson og Eðvarð Ingólfsson.
Séra Agnes M Sigurðardóttir heilsar hér upp á gamalt fermingarbarn sitt frá
preststíð hennar á Hvanneyri, Guðmund Rúnar Hjörleifsson frá Heggstöðum.
Með þeim á myndinni er dóttir Guðmundar, Guðrún Karitas.
Birgir Pálsson og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.