Skessuhorn - 24.08.2016, Blaðsíða 30
MIÐVIKUDAGUR 24. ÁGÚST 201630
Íslandsmeistarinn Lenka Ptáční-
ková og stórmeistarinn Jón L. Árna-
son sigruðu á Minningarmóti Birnu
Norðdahl í skák sem haldið var á
Reykhólum laugardaginn 20. ágúst.
Keppendur komu hvaðanæva af land-
inu og var mikil stemning í íþrótta-
húsinu þar sem mótið fór fram við
frábærar aðstæður. Mótið var hald-
ið til að minnast Birnu E. Norðdahl
(1919-2004) sem var brautryðjandi í
kvennaskák á Íslandi. Birna var bóndi
og listakona og fyrsta konan sem sög-
ur fara af að hafi teflt á skákmóti hér-
lendis, árið 1940. Hún átti frum-
kvæði og allan heiður af því að ís-
lensk kvennasveit fór í fyrsta skipti á
Ólympíuskákmót, í Argentínu 1978.
Íslenskar landsliðskonur í skák voru
heiðursgestir á mótinu á Reykhól-
um, og í þeim hópi voru skákkonur
sem tefldu með Birnu á Ólympíum-
ótum 1978 og 1980. Þetta var hluti
af upphitun kvennalandsliðsins fyrir
Ólympíumótið í Bakú sem hefst eftir
hálfa aðra viku.
Tefldar voru átta umferðir með
tíu mínútna umhugsunartíma og
voru keppendur 37, þar af fjórir stór-
meistarar. Í kvennaflokki urðu Lenka
Ptáčníková og Hallgerður Helga Þor-
steinsdóttir jafnar og efstar, en Lenka
var hærri á stigum. Guðlaug Þor-
steinsdóttir, sem varð fyrst kvenna
Íslandsmeistari árið 1975, hreppti
bronsið, en jafnar í 4.-7. sæti urðu
Hrund Hauksdóttir, Veronika Stein-
unn Magnúsdóttir, Áslaug Kristins-
dóttir og Sigurlaug R. Friðþjófsdótt-
ir. Þær Áslaug, Guðlaug og Sigur-
laug voru allar í landsliðinu samtíða
Birnu, rétt eins og Svana Samúels-
dóttir, sem tók núna þátt í skákmóti
eftir langt hlé.
Í karlaflokki urðu Jón L. og Jóhann
Hjartarson efstir og jafnir, en Jón var
hærri á stigum. Í þriðja sæti varð
Hannes Hlífar Stefánsson, sem mun
leiða sveit Íslands á Ólympíumótinu
í Bakú sem hefst núna í byrjun sept-
ember. Hrund og Veronika fengu
verðlaun fyrir bestan árangur 20 ára
og yngri, og heimamaðurinn Guðjón
D. Gunnarsson (betur þekktur sem
Dalli) varð efstur skákmanna með
2000 skákstig eða minna.
Vegleg peningaverðlaun voru veitt
á mótinu. Verðlaun í kvennaflokki
voru ívið hærri en hjá körlunum, og
er það algjör nýbreytni á skákmótum.
Það var að frumkvæði Finns Árnason-
ar forstjóra Þörungaverksmiðjunnar
á Reykhólum, sem styrkti mótið með
verulegu fjárframlagi. Auk þess tefldi
Finnur á mótinu, þó að árangur hans
þar hafi kannski ekki verið alveg í takti
við peningaframlagið! Fjölmenni var
við setningu mótsins á Reykhólum í
dag og ríkti afar góður andi á mótinu.
Samhliða fór fram sýning á munum
sem tengjast Birnu, bæði listaverk
eftir hana og verðlaunagripir henn-
ar af skákmótum, sem og myndir sem
tengjast sögu íslenskra skákkvenna.
Við setningu mótsins flutti Hlyn-
ur Þór Magnússon sagnfræðingur á
Reykhólum ávarp, en hann var frum-
kvöðull að mótinu og skipuleggjandi
ásamt Skákfélaginu Hróknum. Setn-
ingarávarpið flutti Ingibjörg Birna
Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhóla-
hrepps, og svo lék Birna E. Norð-
dahl, barnabarn skákdrottningarinn-
ar, fyrsta leikinn fyrir Hrund Hauks-
dóttur gegn Hannesi Hlífari.
Mótið var afar skemmtilegt og
spennandi frá upphafi og leikgleðin í
fyrirrúmi. Heimamenn á Reykhólum
og fjölskylda Birnu tóku virkan þátt
í hátíðinni og voru tvær dætur Birnu
meðal keppenda, þær Indiana Svala
Ólafsdóttir og Anna María Ólafsdótt-
ir. Í mótslok þakkaði Hrafn Jökulsson
forseti Hróksins fjölskyldu Birnu,
fólkinu á Reykhólum og í Reykhóla-
hreppi, keppendum og bakhjörlum,
en þó sérstaklega Hlyni Þór Magn-
ússyni, fyrir frumkvæðið og frábært
samstarf við skipulagningu hátíðar-
innar.
Skólanum færð góð gjöf
Í tilefni af hátíðinni færðu Hrókurinn
og Þörungaverksmiðjan grunnskól-
anum á Reykhólum tíu taflsett að gjöf
og munu Hróksmenn efna til skák-
daga í skólanum í haust. Mikill skák-
áhugi er meðal barna og ungmenna á
Reykhólum og tóku þau virkan þátt í
hátíðinni. mm/hj
Glæsilegt minningarmót í skák var haldið á Reykhólum
Brynjar Pálmi Björnsson og Hrafn Jökulsson. Brynjar fékk sérstök
verðlaun fyrir aðstoð við framkvæmd skákhátíðarinnar.
Að sögn Hróksmanna eru góðar aðstæður til skákmótahalds á Reykhólum.
Svana Samúelsdóttir og Sigurlaug Friðþjófsdóttir voru samferðamenn Birnu
Nordahl í skákinn á fyrstu árum kvennaskákar hér á landi.
Krakkarnir á Reykhólum tóku virkan þátt í mótinu.
Hlynur Þór Magnússon átti frumkvæði að mótið var haldið. Dalli náði bestum árangri keppenda með undir 2000 skák-
stig. Hér bítur hann í eðalmálminn.
Stórmeistarar í efstu sætum ásamt Birnu Norðdahl yngri.
Birna Norðdahl yngri lék fyrsta leikinn fyrir þau Hrund Hauksdóttur og Hannes
Hlífar Stefánsson.
Lenka Ptáčníková og Jón L. Árnason sigruðu á mótinu.Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Finnur Árnason voru
valin best klæddu keppendurnir.