Skessuhorn


Skessuhorn - 06.06.2018, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 06.06.2018, Blaðsíða 20
MIÐVIKUDAGUR 6. JÚNÍ 201820 Sylvía Ósk Rodriguez frá Borgar- nesi gengur ákveðin en brosandi í átt að blaðamanni Skessuhorns með stútfulla íþróttatösku á ann- arri öxlinni og hristir sér drykk í brúsa á leiðinni. Þarna er hraust kona á ferð að fara í ræktina á laugardagsmorgni en gefur sér tíma í smá spjall áður en gengið er til æfinga. Sylvía hefur hægt og rólega verið að tileinka sér heilsu- samlegan lífsstíl en þetta ferðalag er langt í frá búið að sigla lygnan sjó. „Ég þarf að fara svolítið aftur í tíma, þetta er búið að vera algjört jójó ferli hjá mér,” segir Sylvía á meðan hún tyllir sér við borð and- spænis blaðamanni og kemur sér vel fyrir. Leið illa í eigin skinni „Ég var alltaf feitur krakki. Þegar ég var í 7. bekk þá var ég um 75 kg og ég er heldur lávaxin, ekki nema 165 cm á hæð. Ég er svo 16 ára þegar ég fyrst byrja að taka mig á.” Fyrir Sylvíu var það árið 2004 þegar hún fyrst byrjaði að hitta núverandi eig- inmann sinn, Þröst Reynisson, að hún fann fyrir því að líða illa í eig- in skinni. „Þetta var rosalega meðvit- að þegar ég byrja með Þresti, hann var vel grannur á þessum tíma og ég frekar stór og mér leið illa með það hvernig við litum út útávið. Það sem ýtti mér enn fremur af stað var þeg- ar ég mætti á eina körfuboltaæfingu hjá Skallagrími þarna um haustið. Ég man ennþá hvað mig sveið í lungun við að hlaupa. Þá var eitthvað innra með mér sem sagði; nei nú gerist eitthvað, þetta gengur ekki lengur.” Fyrsta skrefið tekið Sylvía sneri sér í átt að heilsusamlegri lífsstíl. Hvort það var á réttum for- sendum átti síðar eftir að koma í ljós. „Ég náði af mér 15 kg á einhverj- um tveimur mánuðum. Ég mætti í alla tíma sem voru í boði í íþrótta- miðstöðinni, eróbik, spinning, bara nefndu það ég fór í allt saman.” Þetta mynstur hélst í einhvern tíma og Sylvía var farin að koma hreyfingu inn í daglega rútínu. Einnig dreif hún sig í einkaþjálfaranámið hjá ÍAK í Keili og útskrifaðist þaðan í janúar 2010. Í kjölfarið á því skráði hún sig í fjarþjálfun. „Þó svo að út á við hafi allt litið út eins og gengi í sögu hjá mér, þá var þetta samt einhvern veg- inn erfitt. Ég var látin vigta allan mat ofan í mig og ég fékk bara nammi- daga eftir klukkan 18:00 á sunnudög- um. Ég var farin að æfa 14 sinnum í viku á einum tímapunkti sem er nátt- úrlega bara sturlun. Það var lítið ann- að sem komst að hjá mér. Á endanum sprakk þetta allt í loft upp, það var ekkert sem var heilbrigt við þetta. Ég fitnaði aftur og varð svo ólétt fljót- lega eftir það af stráknum mínum.” Sylvía var 110 kg þegar hún gekk með frumburðinn sinn og segir þó spaugilega að hún hafi verið næstum jafn sver og hún var há þegar með- gangan var á hæsta stigi. „Eftir að Reynir fæðist, árið 2011, þá fór ekk- ert af mér aftur, enda var ég búin að borða og borða alla meðgönguna. Ég var enn 100 kg tveimur mánuðum eftir að hann kom í heiminn og ég var í rauninni búin að missa allt sem tengdist meðgöngunni. Þarna var ég þyngst,” segir hún. Breyttist eitthvað eftir seinni meðgöngu Sylvía lofaði sér að gera þetta ekki aftur ef hún yrði ólétt. Hún fór í fyrri rútínur þar sem hún stundaði reglu- lega hreyfingu og borðaði heilsusam- lega en þó ekki eins ýkt og áður. Hún náði að losa sig við allt sem hún hafði bætt á sig yfir meðgöngutímann. Aft- ur á móti varð hún ólétt aftur og hún fór sem fyrr í sama horf en þó breytt- ist eitthvað innra með henni eftir seinni meðgönguna. „Þegar dóttir mín fæðist árið 2013 þá fór ég meira að horfa á þetta allt saman öðru- vísi. Ég ætlaði ekki að fara að hreyfa mig til að passa í einhverjar ákveðn- ar buxur heldur vildi ég hreyfa mig vegna þess að það var orðið erfitt að beygja sig niður og sinna krökk- unum. Það var vont að ganga upp stiga, allt verður líka einhvern veg- inn erfiðara þegar maður er svona þungur, ekki bara líkamlega heldur andlega líka. Ég var svekkt við sjálfa mig að hafa orðið svona feit á með- göngunni. Það er svakalega ruglað að hugsa svona og þessi hugsunarhátt- ur hálfpartinn skemmdi upplifunina hjá mér.” Hausinn var ekki í lagi Eftir að dóttir Sylvíu kom í heiminn þá tók hún meðvitaða ákvörðun að gera allt mun skynsamlegra og rækta andlegu hliðina samsíða. Hún setti enga pressu á sig og ákvað að gera þetta bara fyrir sig, engan annan. „Ég átti fullt af buxum sem ég ætlaði mér svo sannarlega að komast í en ég henti þeim öllum og vissi það vel að þetta væri ekki að fara að gerast svona. Ég hafði verið 100 kg og ekki liðið vel og ég hafði verið 67 kg og ekki liðið vel af því hausinn var ekki í lagi. Kannski með aldri og þroska þá verður manni meira og meira sama um hvað fólki finnst. Um leið og ég tók ákvörðunina að gera þetta á minn hátt og á mínum forsendum þá varð allt miklu auðveldara.” Áherslur á styrk ekki útlit Eftir að þessi ákvörðun var tekin skráði Sylvía sig í nýtt prógram þar sem áherslurnar voru allt aðrar en hún var vön. Þarna var horft meira til styrks heldur en útlits og ekki var verið að vigta hvern einasta bita heldur meira skoða matinn og hafa augun opin fyrir því hvernig áhrif maturinn hafði hverju sinni. „Þetta hentaði mér einstaklega vel. Ég var meira að einblína á hvað ég gat gert með líkamanum heldur en hvernig ég leit út og það er svo mikið frelsi í því.“ Vissulega segist Sylvía eiga það til að detta í súkkulaðiátið. „Jú, jú, ég fæ mér alveg súkkulaði. Aftur á móti er ég ekki að fara að borða einungis kál vikuna á eftir til að jafna eitthvað út, þetta snýst bara um jafnvægi og að missa sig ekki alveg. Ég hef kom- ist að því um sjálfa mig – kalla þetta ruslakistu heilkennið – að þegar ég er með nammiskál fyrir framan mig og fæ mér einn til tvo mola, þá áður en ég veit af er ég búin með skálina. Þannig að þegar ég er í slíkum að- stæðum þá er stundum betra fyrir mig að fá mér ekki neitt. Það er auð- veldara fyrir mig að sleppa því að fá mér heldur en að fá mér smá og ég ætla ekkert að afsaka það heldur vera samkvæm sjálfri mér.“ „Ég hef ekki tíma“ er ekki til Í amstri dagsins getur oft verið erfitt að finna tíma til hreyfingar en það á vissulega ekki við Sylvíu sem er gift tveggja barna móðir og býr á Mýr- unum rétt fyrir vestan Borgarnes þar sem hún þarf að keyra gott kort- er til að komast í næstu heilsurækt. „Ég fæ rosalega oft athugasemdir frá fólki sem segist vilja óska þess að þeir gætu þetta. Að hafa ekki tíma er bara viðhorf, þú býrð þér til tíma ef þú vilt hafa tíma. Ég er búin að vera síðustu tvö árin í 100% vinnu, 100% meistaranámi, ég á tvö börn og ég á mann, ég er samt að mæta í rækt- ina. Þú finnur stað þar sem þú getur komið þessu inn og fyrir mér er það snemma á morgnanna áður en dag- urinn byrjar. Hreyfingin þarf held- ur ekkert endilega að vera í þreksal eða íþróttahúsum. Það er hægt að taka æfingu heima hjá sér, ég gerði það fyrst. Eftir að ég átti börnin var ég mest að æfa heima. Ég leitaði mér að upplýsingum um allskonar æfing- ar, það er haf af þessu á Internetinu og því engin afsökun að sleppa hreyf- ingu. Ef ég get þetta þá geta þetta all- ir,“ segir Sylvía að lokum. glh „Það hentar mér vel að vera sterk“ - Sylvía Ósk segir frá lífstílsbreytingum síðustu árin Sylvía stuttu eftir að hún átti son sinn árið 2011 þar sem hún var þyngst eða um 100 kg. Mynd tekin á þessu ári. Sylvía hefur aldrei verið jafn ánægð í eigin skinni og telur að ræktun á andlegu hliðinni spili stóran þátt í því. Axlirnar styrktar. Sylvía er óhrædd við að lyfta þungu og finnur mikið frelsi í því að vera sterk. Hitað vel upp fyrir átök. Sylvía með fjölskyldu sinni. Fyrir Í dag Sylvía hefur tekið miklum lífstílsbreyt- ingum síðustu árin og hefur aldrei verið hamingjusamari.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.