Sveitarstjórnarmál - jun 2019, Síða 41
Öflugt menningarlíf er gulls ígildi
SÍÐASTA ORÐIÐ
Hildur Þórisdóttir, bæjarfulltrúi á Seyðisfirði.
„Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga
á samfélagsmálum. Það er dýrmætt
að fá tækifæri til að móta samfélagið
í gegnum sveitarstjórnarmálin og
vinna að framfaramálum. Þá er
samtalið sem maður á við íbúana
ekki síður skemmtilegt, segir Hildur
Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar
Seyðisfjarðarkaupstaðar og oddviti
L-lista, um ástæðu þess að hún ákvað að
gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálin.
Eins og svo oft vill verða, var sá tími
sem Hildur fékk til að ákveða sig ekki
langur. „Það var leitað til mín þegar
verið var að setja listann upp og mér
boðið oddvitasætið. Ég er þakklát því
trausti sem mér hefur verið sýnt,“ segir
hún og brosir. Þá sé starfið í eðli sínu
uppbyggjandi og segist Hildur finna að
það hafi gefið sér mikið. „Ég hvet þá
sem hafa áhuga á því að hafa áhrif á
samfélagið til hins betra, að gefa kost
á sér til sveitarstjórnarmála. Þetta er
gríðarlega góð og fjölbreytt reynsla.“
Síðustu sveitarstjórnarkosningar voru
frumraun Hildar í fyrsta sæti á lista,
en hún var varamaður í bæjarstjórn
á síðasta kjörtímabili. Hún segir að
kosningabaráttan hafi lagst vel í hana.
„Við áttum von á góðri kosningu og
við vorum bjartsýn. Við áttum þó ekki
von á svona afgerandi sigri. Það kom
skemmtilega á óvart og voru skilaboðin
frá íbúunum þeim mun skýrari.“ Hildur
hefur jafnframt skýra sýn á hlutverk sitt.
Sem oddviti vill hún standa fyrir réttsýni,
heiðarleika og opið samtal við íbúana.
Það er síðastnefnda er reyndar algjört
lykilatriði í hennar huga. Mikilvægast sé
að vera í stöðugu sambandi við íbúana
og að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra
innan sveitarstjórnarinnar.”
En, hvernig kann Hildur við sig
á þessum pólitíska vettvangi?
„Þetta hefur verið ofsalega gefandi,
lærdómsríkt og krefjandi en á sama
tíma mun fjölbreyttara en ég átti von
á. Sveitarstjórnir vinna með marga
málaflokka og skemmtilegast finnst mér
hve fjölbreytt verkefnin eru,“ segir Hildur
og bætir við að hún njóti einnig góðs
af því að starfa með samhentum og
góðum hópi sem vinni vel saman. „Ég
fór með jákvæðu hugarfari inn í þetta
verkefni og hef notið þess að vinna að
framfaramálum fyrir íbúa. Þetta hefur
verið mikil vinna, ekki síst í tengslum við
breytingar sem við höfum verið að vinna
að, en að sama skapi gríðarlega mikil og
góð reynsla. Hún viðurkennir jafnframt að
óheiðarleiki í stjórnmálum hafi komið flatt
upp á hana. „Það hefur komið leiðinlega
á óvart hvað óheiðarleiki getur verið mikill
í stjórnmálum. Að halda völdum getur
skipt meira máli en samfélagið.“
Helstu málin á kjörtímabilinu hafa svo
verið þau, að koma byggingu húsnæðis
aftur af stað eftir langt hlé, uppbygging
innviða og að auka eftir fremsta
megni fjölbreytni í atvinnumálum. Þá
er framtíðarsýn Hildar ekki síður skýr
„Fjölbreyttari atvinnumöguleikar og aukið
framboð af húsnæði sem leiðir af sér
íbúafjölgun. Sterkur og framsækinn skóli.
Gróskumikið og spennandi samfélag sem
fólk nýtur að búa í. Við erum svo lánsöm
að búa á stað þar sem menningarlíf hefur
verið öflugt í langan tíma og við höfum
veitingastaði sem hafa vakið athygli
á landsvísu. Slíkt er gulls ígildi í litlum
samfélögum.“
Seyðisfjörður í sumarbúningi. (Ljósm.: www.sfk.is).