Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1972, Qupperneq 29
sem bezt, og dylst engum, að þá er hann með íslenzkar aðstæður í
huga.
Síðan lýsir Jónas fyrsta skóla þessarar hreyfíngar, sem stofnað-
ur var í „þvílíku umhverfí“ 1889 nálægt Derby, en stofnandi hans
og meginfrumkvöðull hreyfingarinnar var dr. Cecil Reddie. Þess-
um skóla lýsir Jónas allnáið og síðan námsstarfi og þjálfun í hin-
um nýju ensku skólum, og leynir sér ekki hrifning hans. Hann
lýsir starfsháttum nákvæmlega í einstökum greinum, og má sjá,
að hann er beinlínis að reyna að setja fram og festa fyrirmynd,
sem nýta mætti hér á landi. Héraðsskólahugmyndin er að mótast
í huga hans. Glöggt má sjá, að honum þykir mest vert um hina
samfélagslegu þjálfun, sem leiðsögn og sambúð í nýju, ensku skól-
unum veitir, og hann víkur að því í niðurlagsorðum:
„Siðgæðistilfinningin á að vera réttlátur dómur milli einstakl-
ingsins og mannfélagsins. Báðir málsaðilar sækja á að færa út
veldi sitt, en ef öðrum tekst það um of, leiðir af böl beggja. Hæsta
takmarkið er, að báðir lifi fullu lífi í fullu samræmi. En þetta er
ekki létt verk. Eigingirni í einhverri mynd er öllum mönnum
ásköpuð. Hún kennir þeim að ryðja sér veg áfram yfir hvers kon-
ar hindranir, jafnvel yfir keppinautana. Þá er styrjöld, barátta,
ranglæti, ógæfa“.
Næsta ár, 1913, ritar Jónas þriðju stefnumótunargreinina í skóla-
málum og setur þar fram allvel mótaðar hugmyndir sínar um nýja,
íslenzka skóla, er starfi í sama anda og „nýju skólarnir ensku“ og
dönsku lýðháskólarnir, en séu sniðnir að íslenzkum þörfum, að-
stæðum og þjóðmenningu. Greinin nefnist „Þjóðskólar“ og birtist
í Skinfaxa. Á þessar þrjár greinar verður að líta sem samstæður,
þegar reynt er að leiða fram skólamanninn Jónas Jónsson, þrjá
áfanga að því marki að leiða þjóðina á nýjan skólaveg. í fyrstu
greininni er skilgreining hans á menntun og menningu, en sá
skilningur er vitaskuld forsenda þess að þjóðin meti rétt hinar
nýju skólahugmyndir. í annarri greininni er bent á erlendar fyrir-
myndir. í þriðju greininni eru íslenzku hugmyndirnar settar fram,
byggðar á þessum grunni. ..
Fyrsta málsgrein þessarar þriðju greinar er heimildamikil um
Jónas Jónsson: „Alloft hefur verið sveigt að því, að uppeldi þjóð-
arinnar væri miklu áhrifameira stórmál, heldur en deilur um
stjórnarformið í landinu". Þetta minnir aftur á þau orð, sem Hall-
grímur Jónasson, kennari, hefur eftir Jónasi í afmælisgrein, sem
hann reit eitt sinn um hann: „Jónas Jónsson hefur sagt þeim, sem
25