Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1972, Síða 192
Á eitt vildi hann benda og leggja mikla áherzlu á að í okkar
þjóðfélagi réði alltaf meirihlutinn í öllum meiriháttar mál-
um. Hér væri flokkapólitík og væri hverjum flokki frjálst
að hafa málgagn, sem hér væri í formi dagblaða. Að lokum
undirstrikaði hann að sér fyndist við lifa í réttlátu þjóð-
félagi og bað menn að koma upp og láta álit sitt í ljósi.
Gísli Bjarnason vildi undirstrika það í byrjun að þó hann
gagnrýndi ýmsa þætti þjóðfélagsins, þá væri það ekki gert
í þeim tilgangi að rífa niður, heldur til að vekja okkur til
umhugsunar, svo við gætum í framtíðinni tekið þátt í því
umbótastarfi, sem framundan væri hér, en brestir þjóð-
félags okkar væru vissulega margir og krefðust endurbóta.
Tók hann fyrst sem dæmi menntamál þjóðarinnar. Því
vildi hann svara eindregið neitandi, að þar væri réttlæti
ríkjandi. Kennsla í sveitum væri á mörgum stöðum mjög
ófullnægjandi og börn í dreifbýlinu fengju tæplega helming
þeirrar kennslu sem börn í þéttbýlinu fengju. íslenzka þjóð-
félagið sagði hann alls ekki vera stéttlaust þjóðfélag. Tók
hann sem dæmi þvottakonuna og bankastjórann og bað
fundarmenn að dæma um hvort á þessar tvær stéttir væri
litið sömu augum. Hér á landi sagði hann, að ætti að vera
trúfrelsi samkvæmt stjórnarskránni, en því færi þó fjarri
að svo væri. Kristin trú nyti hér sérréttinda í skyldunámi í
barnaskólum og ein grein hennar nyti forréttinda í ríkis-
kassann, og þessi sama kirkjugrein tæki mikilvægt pláss í
Háskólanum fyrir sína kennimenn, á meðan þjóðina vantaði
lækna, verkfræðinga og vísindamenn. Að lokum kom hann
með nokkur umhugsunarefni fyrir fundarmenn um skatt-
svik, á hvaða hátt menn kæmust í trúnaðarstöður landsins
og óréttlæti varðandi lánveitingar af almannafé.
Að þessu mæltu sagði fundarstjóri orðið vera laust og
tók fyrstur til máls Eyjólfur Torfí. Sagði hann það einkenni
sumra að vilja rífa allt niður, en láta ekkert í staðinn, þar
tók hann sem dæmi Gísla Bjarnason. Fólkið sjálft kysi
stjórnina og ríkið borgaði skólana. Hér væri stefnt að því
að hafa einn lækni á hverja 500 íbúa, en Svíar telja sig ekki
geta náð því takmarki fyrr en 1980.
Gísli Bjarnason sagði Eyjólf Torfa hafa misskilið sig.
188