Morgunblaðið - 05.09.2019, Page 34
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Við komu Mike Pence, varaforseta
Bandaríkjanna, til Íslands, er við
hæfi að rifja upp heimsókn eins af
fyrirrennurum hans, Lyndons B.
Johnson, hingað um miðjan septem-
ber 1963, fyrir nærri sextíu árum.
Svo háttsettur maður frá Bandaríkj-
unum hafði þá ekki áður sótt Ísland
heim. Ekki er fast að orði kveðið þeg-
ar sagt er að sú heimsókn hafi verið
með nokkuð öðrum brag en sú sem
nú er boðið upp á. Öryggisráðstafanir
voru t.d. hverfandi miðað við það sem
nú tíðkast. Hikaði varaforsetinn þá-
verandi ekki við að blanda geði við al-
menning á götum úti og ávarpa
mannfjölda þétt umhverfis sig. Og
ýmis uppátæki hans í heimsókninni
þættu nú óviðeigandi þegar svo
virðuleg persóna sem varaforseti
mesta stórveldis heims er á í hlut.
Sendur til Norðurlanda
Sagan segir að þáverandi forseti
Bandaríkjanna, John F. Kennedy,
hafi haft frekar lítið álit á varaforseta
sínum og helst kosið að hafa hann
sem lengst í burtu frá sér. Til að taka
sér frí frá Johnson um skeið hafi
Kennedy ákveðið að senda hann í
kurteisisferðalag um Norðurlönd
haustið 1963. Var Ísland lokaáfanga-
staður ferðarinnar. Kom Johnson
hingað að morgni mánudags 16. sept-
ember og var floginn úr landi að
kvöldi sama dags.
Í föruneyti varaforsetans voru auk
embættismanna kona hans Lady
Bird Johnson og nítján ára gömul
dóttir þeirra, Lynda Bird Johnson.
Skipulögðu íslensk stjórnvöld sér-
staka dagskrá fyrir mæðgurnar á
meðan Johnson hitti fyrirmenn
þjóðarinnar og ávarpaði almennning.
Fimm dagblöð komu út hér á landi
á þessum tíma og fluttu þau öll ítar-
legar fréttir af heimsókninni.
Morgunblaðið var þeirra stærst og
ákaflega velviljað Bandaríkjunum og
stjórnvöldum þeirra. Má heita að allt
blaðið hafi verið lagt undir heimsókn-
ina þriðjudaginn 17. september. Auk
þess að fylgjast með varaforsetanum
ferðuðust blaðamenn með frú hans
og dóttur og röktu samviskusamlega
öll þau orð sem þær létu falla. Reynd-
ust þær ákaflega hrifnar af landi og
þjóð. Var m.a. farið með Lady Bird á
Árbæjarsafn. Sérstaklega hrifningu
frúarinnar vakti eldhúsið í gamla
bænum. „Þetta er alveg eins kolavél
og ég ólst upp við í æsku,“ hrópaði
hún upp yfir sig. Lyndu Bird var boð-
ið að hitta stúdenta í Háskólanum og
efnt var til hádegisverðarboðs fyrir
hana í Þjóðleikhúskjallaranum og
henni var boðið í Ásmundarsafn þar
sem hún hitti listamanninn sjálfan.
Með herþyrlu til Reykjavíkur
Einkaþota varaforsetans lenti í
Keflavík rétt fyrir kl. 11 heimsóknar-
daginn í úrhellisrigningu. Voru sex-
tán lögregluþjónar við landgöngu-
brúna og gekk Guðmundur Í. Guð-
mundsson utanríkisráðherra um
borð og heilsaði gestunum. Fimm
mínútum síðar, þegar stytt hafði upp,
steig Johnson úr vélinni með ráð-
herranum og föruneyti hans fylgdi í
kjölfarið. Fögnuðu bandarískar
varnarliðsfjölskyldur varaforset-
anum, sem rétti börnunum í hópnum
eiginhandaráritanir sínar og tók í
hendur svo margra sem hann komst
yfir.
Á þessum tíma var Keflavíkur-
vegur ekki malbikaður og þótti ekki
við hæfi að svo tignir gestir þyrftu að
aka eftir honum. Flogið var í tveimur
herþyrlum til Bessastaða, þar sem
Ásgeir Ásgeirsson forseti tók á móti
gestunum. Í stuttri móttöku innan-
dyra á forsetasetrinu afhenti Ásgeir
varaforsetanum silfurhorn að gjöf
sem dæmi um nútíma íslenska silf-
ursmíði. Johnon gaf forsetanum
kortaskáp mikinn og veglegan. Síðan
var haldið í mikilli bílalest til Reykja-
víkur og var klukkan orðin rúmlega
tólf þegar komið var að Stjórnarráðs-
húsinu við Lækjartorg þar sem Ólaf-
ur Thors forsætisráðherra og aðrir
ráðherrar ríkisstjórnarinnar biðu
varaforsetans. Höfðu á annað þúsund
manns safnast saman við húsið til
þess að berja fyrirmennin augum.
Johnson ávarpaði fólkið nokkrum
orðum og kvaðst þakklátur fyrir hlýj-
ar móttökur. Hann kvaðst myndu
hafa meira að segja eftir að hafa
fundað með ríkisstjórninni. Ekki
varð sá fundur langur. Að 10 til 15
mínútum liðnum var hann kominn
fram í móttökustofu Stjórnarráðsins
þar sem blaðamenn biðu og fylgdu
ráðherrarnir honum eftir. Tók hann
nú upp úr vasa sínum öskju með
sígarettukveikjara og afhenti hann
Ólafi Thors. „Þið hljótið að geta not-
að eld á Íslandi,“ sagði hann. Leit svo
í kringum sig og byrjaði að útdeila
kveikjurum til allra ráðherranna.
Byrjaði hann á Bjarna Benediktssyni
með orðunum: „And here is one for
you.“ Löngu seinna rifjaði einn við-
staddra, Elín Pálmadóttir blaðamað-
ur, upp athöfnina í móttökunni. Einn
bandarísku ljósmyndaranna hafði
kallað til varaforsetans að hann hefði
ekki náð mynd af því þegar kveikj-
arinn var afhentur forsætisráðherra,
en hann hafði stungið honum í jakka-
vasa sinn. Hafi Johnson þá vaðið um-
svifalaust í vasa Ólafs Thors, án þess
að afsaka sig, dregið upp kveikjarann
og kveikt á honum með breiðu brosi
fyrir ljósmyndarann. „Svipurinn á
Ólafi Thors var dálítið skondinn,“
sagði Elín, sem kvaðst aldrei hafa
getað liðið Johnson eftir þetta atvik.
Klifrað upp á girðingu
„Lyndon B. Johnson hugði nú að
hatti sínum, en fann hann ekki þegar
í stað,“ segir í frásögn Morgunblaðs-
ins. „Fleiri komu honum til aðstoðar
en fundu ekki hattinn og þá heyrðist
varaforsetinn muldra í barm sér:
„Öryggislögreglan ætti að geta fund-
ið hattinn minn’. En ekki þurfti þó að
grípa til svo alvarlegra ráðstafana
eins og þeirra að senda öryggis-
lögregluna út af örkinni, þv nú kom
hatturinn í leitirnar og varaforsetinn
gekk út og niður stéttina og til mann-
fjöldans, sem þar beið.“
Þeir sem beðið höfðu varaforset-
ans utandyra fengu nú þolinmæðina
ríkulega endurgoldna. Þegar John-
son var kominn út fyrir hliðið klifraði
hann óvænt upp á járngirðinguna
með aðstoð Ragnars Stefánssonar,
starfsmanns bandaríska sendiráðs-
ins, og hóf að ávarpa mannfjöldann.
Þýddi Ragnar orð hans jafnóðum.
„Komið nær,“ sagði Johnson við fólk-
ið og hafði greinilega engar áhyggjur
af öryggi sínu á Ísland. Lét hann síð-
an fögur orð falla um gildi vestræns
lýðræðis og varnarsamstarfs. „Við
viljum ekki nýlendur, heldur sam-
verkamenn, við viljum ekki leppríki
heldur vini,“ sagði hann m.a. áður en
hann klifraði niður aftur og hóf að
dreifa eiginhandaráritunum meðal
fólks.
Besti maturinn á Íslandi
Nú var klukkan að verða eitt og
varaforsetinn þurfti að rjúka í há-
degisverðarboð forseta Íslands á
Hótel Sögu. Upp úr þeirri veislu
fékkst sú mikilvæga yfirlýsing vara-
forsetans, sem slegið var upp í
Morgunblaðinu, að íslenska dilka-
kjötið væri besti maturinn sem hann
hefði snætt á öllu ferðalaginu til
Norðurlanda. Glæddi þessi yfirlýsing
áreiðanlega þjóðernisstolt lands-
manna.
Eftir málsverðinn gerði varafor-
setinn smáhlé á ferðalagi sínu en rétt
fyrir klukkan fimm var hann mættur
í aðalbyggingu Háskólans með bóka-
gjöf sem Ármann Snævarr rektor
veitti móttöku.
Fékk Johnson ljósritaða útgáfu
Guðbrandsbiblíu sem endurgjald.
Síðan var haldið með hraði í Há-
skólabíó, þar sem skipulögð hafði
verið hátíðardagskrá með ávarpi for-
setans. Voru um 1.500 manns í hús-
inu og talsverður mannfjöldi hlýddi á
ávarpið utandyra.
Rabbaði við mótmælendur
Að dagskránni lokinni gengu
Johnson og föruneyti hans að Hótel
Sögu, þar sem hans beið kvöldverður
forseta Íslands og ríkisstjórnarinnar.
Stóðu skátastúlkur heiðursvörð á
leiðinni ásamt lögregluþjónum. Var
varaforsetanum vel fagnað á göng-
unni en utandyra reyndust þó einnig
vera nokkrir sem mættir voru til að
mótmæla heimsókninni og héldu þeir
á spjöldum sem á var letrað: „Hlut-
leysi Íslands – Herinn burt“ og fleira
í þeim dúr. Morgunblaðið var mjög
hneykslað á þessum veisluspjöllum,
sem það kvað um 200 manna hóp
kommúnista standa fyrir, og sá
ástæðu til að nafngreina fjölda
manns sem þarna hefðu orðið sér til
skammar.
Varaforsetinn virtist ekki hafa
minnstu áhyggjur af mótmælendum
og tók brosandi á móti skjali sem þeir
afhentu honum í mannþrönginni og
lét vinsamleg orð falla. Við dyr Hótel
Sögu ávarpaði hann mannfjöldann á
ný og hélt síðan í matarboðið og með
því lauk þessari stuttu en litríku
heimsókn hans til Íslands. Fáeinum
vikum síðar var Johnson orðinn for-
seti Bandaríkjanna í kjölfar þess að
John F. Kennedy var myrtur í Dallas
í Texas.
Seildist í vasa Ólafs Thors
Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Ísland haustið 1963 Óvenjuleg uppá-
tæki hans vöktu athygli Klifraði upp á girðingu Stjórnarráðsins og ávarpaði mannfjöldann
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Ljósmynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Sv. Þorm. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Sv. Þorm.
Ávarp Varaforsetinn
ávarpaði mannfjöldann
ofan af girðingunni og
uppskar mikið lófatak.
Litríkur Johnson fær aðstoð til að
klifra upp á járngirðinguna við
Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu.
Heimsókn Lyndon B. Johnson
heilsar fólki á leið í hádegisverð-
arboð á Hótel Sögu.
34 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. SEPTEMBER 2019