Morgunblaðið - 05.09.2019, Side 63
KA
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Andri Snær Stefánsson, fyrirliði
handknattleiksliðs KA, telur að Ak-
ureyringar séu vel í stakk búnir til
þess að komast í úrslitakeppnina í
vetur, þrátt fyrir litlar mannabreyt-
ingar fyrir norðan. KA hefur leik í
úrvalsdeildinni á sunnudaginn þegar
liðið heimsækir Aftureldingu í Mos-
fellsbæ en KA endaði í níunda sæti
deildarinnar á síðustu leiktíð og var
aðeins einu stigi frá sæti í úr-
slitakeppninni. KA var spáð sama
sæti, eða níundi sæti, í spá fyrirliða
og þjálfara deildarinnar.
„Við erum mjög brattir hérna fyr-
ir norðan og staðráðnir í því að bæta
árangurinn okkar frá því í fyrra.
Markmiðið fyrir síðasta tímabil var
fyrst og fremst að halda sæti sínu í
deildinni og það tókst. Við erum
búnir að æfa mjög vel í allt sumar,
við viljum gera ennþá betur núna en
á síðustu leiktíð og við erum meira
en tilbúnir í fyrstu leiki tímabilsins.
Það kemur manni í sjálfu sér ekki á
óvart að okkur séð spáð níunda sæt-
inu enda erum við mjög svipað lið og
frá því á síðustu leiktíð þegar við
enduðum einmitt í níunda sæti. Það
vantaði aðeins upp á stöðugleikann
hjá okkur á síðustu leiktíð og við
vorum mikið upp og niður en við er-
um allir reynslunni ríkari núna og
vonandi getum við náð upp stöð-
ugleikanum sem til þarf í efstu
deild.“
Samheldni fyrir norðan
KA-menn hafa aðeins bætt við sig
tveimur nýjum leikmönnum í vetur
og þá hefur reynsluboltinn Heimir
Örn Árnason lagt skóna á hilluna en
Heimir var mikilvægasti varn-
armaður Akureyringa á síðustu leik-
tíð.
„Við höfum bætt við okkur leik-
mönnum sem smellpassa inn í hóp-
inn og auka þannig breiddina í lið-
inu. Að sama skapi missum við
Heimi sem var mjög drjúgur í varn-
arleiknum hjá okkur á síðustu leik-
tíð. Það verður mikil áskorun fyrir
okkur og yngri leikmenn liðsins að
fylla hans skarð en ég hef fulla trú á
því að það takist. Daníel Griffin sem
kom til okkar frá ÍBV eykur breidd-
ina mikið hægra megin á vellinum.
Hann er frábær varnarmaður og
sterkur í sókninni líka. Það var
sterkt líka að fá Patrek aftur heim
enda getur hann spilað bæði vörn og
sókn og eykur þannig breidina í öllu
liðinu. Þá hefur Jónatan Ingi Magn-
ússon komið frábærlega inn í þjálf-
arateymið, með góðar áherslur, sem
munu sjást á leik KA í vetur. Það er
því mitt mat að við séum með sterk-
ara lið en í fyrra, þótt við höfum ekki
endilega bætt við okkur mörgum
leikmönnum.“
KA var hluti af liði Akureyrar í
ellefu ár en tímabilið 2017-2018
sendi félagið lið til keppni undir
merkjum KA í 1. deildina. Liðið fór
upp um deild í fyrstu tilraun og er
nú á leið inn í sitt annað tímabil í röð
í efstu deild.
„Það er frábært að vera í hand-
boltaliði KA. Við keyrum þetta batt-
erý áfram á jákvæðni og stemningu
og við höfum lagt mikla áherslu á
það að vera með samhent lið. Leik-
menn, stuðningsmenn og stjórn eru
öll að róa í sömu átt og það eru
ákveðin lífsgæði að fá að taka þátt í
þessu verkefni. Það er mikil ánægja
með starf KA, það er fullt af sjálf-
boðaliðum sem taka þátt í starfinu
og heimavöllurinn okkar er gríð-
arlega sterkur. Þessi tvö ár hafa ver-
ið hrikalega skemmtileg og við ætl-
um okkur að sjálfsögðu að halda
áfram að byggja upp gott hand-
boltaveldi í KA-heimilinu.“
Markmið Akureyringa fyrir kom-
andi keppnistímabil eru skýr en liðið
ætlar sér sæti í úrslitakeppninni á
næstu leiktíð.
„Við þurfum að nýta heimavöllinn
okkar betur en við gerðum í fyrra.
Að sama skapi þurfum við að auka
hraðann fram á við og nýta hraða-
upphlaupin okkar betur. Ef við lög-
um þessa þætti og náum svo upp
meiri stöðugleika í okkar leik þá eig-
um við að geta komist í úr-
slitakeppnina sem er okkar mark-
mið fyrir tímabilið,“ sagði Andri
Snær við Morgunblaðið.
Ákveðin for-
réttindi að
spila með KA
Andri Snær telur raunhæft markmið
hjá KA að stefna á úrslitakeppnina
Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
Fyrirliðinn Hornamaðurinn Andri Snær Stefánsson er í lykilhlutverki hjá
KA sem var einu stigi frá því að komast í átta liða úrslitin síðasta vetur.
ÍÞRÓTTIR 63
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. SEPTEMBER 2019
www.gilbert.is
VELDU ÚR MEÐ SÁL
KA-menn verða mun ofar en þeim er spáð ef úti-
leikirnir ganga betur.
Heimavöllurinn og það að erlendu leikmennirnir
spili betur eru mikilvæg atriði fyrir þá.
KA-menn mega ekki við neinum meiðslum lykil-
leikmanna.
Áhugavert: Hvernig smellur nýtt þjálfarateymi,
Jónatan Magnússon og Stefán Árnason?
Sebastian Alexandersson
um KA
MARKVERÐIR:
Bruno Bernat
Jovan Kukobat
Svavar Sigmundsson
HORNAMENN:
Allan Norðberg
Andri Snær Stefánsson
Dagur Gautason
Daníel Örn Griffin
Þorri Starrason
LÍNUMENN:
Daði Jónsson
Daníel Matthíasson
Einar Birgir Stefánsson
ÚTISPILARAR:
Arnór Ísak Haddsson
Áki Egilsnes
Jóhann Einarsson
Jón Heiðar Sigurðsson
Patrekur Stefánsson
Sigþór Gunnar Jónsson
Tarik Kasumovic
Þjálfarar: Jónatan Magnússon og
Stefán Árnason.
Árangur 2018-19: 9. sæti.
Íslandsmeistari: 1997, 2002.
Bikarmeistari: 1995, 1996, 2004.
KA sækir Aftureldingu heim í
fyrsta leik sínum í deildinni á
sunnudaginn klukkan 17.
Lið KA 2019-20
KOMNIR
Daníel Örn Griffin frá ÍBV
Patrekur Stefánsson frá Akureyri
FARNIR
Heimir Örn Árnason, hættur
Breytingar á liði KA-manna
Ég pantaði mér á dögunum
flug til Búdapest. Verður flogið
út aðra helgina í október. Ég
komst að því fljótlega eftir að ég
gekk frá kaupunum að ég missi
af leikjum íslenska karlalands-
liðsins í fótbolta við Frakkland
og Andorra í undankeppni EM á
Laugardalsvelli.
Um smá áfall er að ræða,
þar sem ég hef ekki látið mig
vanta á heimaleik með landslið-
inu í mörg ár. Í staðinn skelli ég
mér á leik Ungverjalands og
Aserbaídsjan í sömu keppni og
fæ því smá sárabót.
Ég hef einu sinni áður mætt
á landsleik í Austur-Evrópu. Ég
„sá“ Króatíu vinna 2:0-sigur á
Íslandi í umspili um sæti á HM í
Brasilíu 2014 þann 19. nóv-
ember 2013, á hinum ein-
staklega ófagra Maksimir-velli.
Króatía fór á HM og Ísland sat
eftir með sárt ennið. Mér tókst
að steinsofna í stúkunni í Króat-
íu einhvern tímann um miðjan
fyrri hálfleik. Þrátt fyrir ótrúleg-
an hávaða á vellinum vaknaði ég
ekki fyrr en eftir leik og hafði
ekki hugmynd um hvernig fór.
Vonbrigðin voru mikil þegar ég
komst að því.
Um mánuði fyrr fór ég til
Noregs og varð vitni að 1:1-
jafntefli á Ullevaal-vellinum, sem
tryggði sætið í umspilinu. Fyrir
leik var ég einstaklega stress-
aður og ákvað að reyna að slá á
stressið með eins og einum bjór,
sem síðan varð að fleirum. Ég
man takmarkað eftir leiknum en
sá sjálfan mig í sjónvarpinu dag-
inn eftir grátandi úr gleði í stúk-
unni. Það var ekki eitt fallegt
tár, heldur var ég háskælandi.
Ég hef lofað sjálfum mér að
haga mér betur í Ungverjalandi.
Ég mun reyna mitt besta við að
ná öllum leiknum í Búdapest og
jafnvel halda aftur af tárunum í
leiðinni.
BAKVÖRÐUR
Jóhann Ingi
Hafþórsson
johanningi@mbl.is