Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - okt. 2018, Blaðsíða 32

Læknablaðið - okt. 2018, Blaðsíða 32
460 LÆKNAblaðið 2018/104 viðurkennt nám, hvorki hér á landi né annars staðar. Það er því umhugsunarefni að slíkar ráðningar fari enn fram, hvort sem það er í kjölfar kandídatsárs eða í framhaldi annars framhaldsnáms. Mikilvægt er að þeir almennu læknar sem í slíkum stöðum eru, hafi fullan skilning á mögulegu mikilvægi og afleiðingum. Skipulag framhaldsmenntunar og staða sérgreinna Eina raunhæfa og örugga leiðin til að tryggja að tími almennra lækna á Íslandi nýtist, er því að hann sé innan skipulagðs fram- haldsnáms. Til að nám standist alþjóðlegar nútímakröfur verður það að byggja á viðurkenndri marklýsingu, hafa vel skilgreind og heilsteypt mats- og handleiðslukerfi (mynd 1), ásamt form- föstum leiðum til mats á framgangi, byggðu á ofangreindum kerfum. Slíkt hefur nú þegar verið innleitt innan margra stærstu sérgreina lækninga á Íslandi með góðum árangri. Til þess höfum við greinilega fulla burði (töflur I og II). Almennum læknum er einungis óleikur gerður ef umhverfið hér fylgir ekki þessari al- þjóðlegu þróun. Upplýsingar um framhaldsnám af bestu gæðum sem fylgja læknum héðan til frekara framhaldsnáms bera bæði þeim sjálfum og stofnunum okkar mikilvægan og góðan vitnis- burð. Kröfur um vel skilgreind og skrásett hæfniviðmið verða sí- fellt almennari og samhæfðari, sama hvert í heiminum er haldið. Það væri ábyrgðarleysi gangvart ungum læknum að fylgja ekki þessari þróun. Mikilvægi framhaldsmenntunar Virkt framhaldsnám innan veggja kennslusjúkrahúss ætti að vera vísindastarfsemi frjór jarðvegur. Uppbygging framhalds- menntunar með bættu skipulagi og innviðum, ásamt vaxandi áherslu á menntun og kennslu í daglegum störfum skapar tækifæri til að tvinna þessa grunnþætti læknisstarfsins saman á skipulagðari og skilvirkari hátt en áður. Unnið verður að því áfram að þróa skilgreinda og skipulagða möguleika á rann- sóknartengdu framhaldsnámi á næstu misserum. Þróun og innleiðing framhaldsmenntunar er langtímaverkefni og kemur að nýliðun sérfræðilækna á Íslandi á margvíslegan hátt. Við erum ekki einungis að framleiða sérfræðlækna framtíðarinn- ar, heldur einnig þróa það umhverfi og menningu sem fólk býst við og leggur metnað sinn í á Íslandi til framtíðar. Ég reikna með að sérfræðilæknar framtíðarinnar vilji snúa til baka á stofnanir þar sem þeir vita að fram fer nám og framhaldsnám af bestu alþjóðlegu gæðum, og hlakki til að taka þátt í þeirri vinnu. Við störfum í samhengi alþjóðlegrar samkeppni um hæfasta starfs- fólkið, sem við verðum að standast til framtíðar. Heilbrigðisstofn- anir á Íslandi verða að standast þessa samkeppni áfram. Vissulega er sú reynsla og þekking sem sérfræðilæknar koma með heim frá mismunandi stöðum styrkur fyrir íslenskt heil- brigðiskerfi og læknastéttina. Hins vegar má ekki gleyma því að læknavísindin þróast sífellt hraðar, samsetning samfélagsins breytist og heimurinn minnkar. Þekking eða vinnulag sem við kynnumst í sérnámi er því miður oft orðið úrelt örfáum árum eftir að heim er komið. Virkt framhaldsnám þar sem stór hluti vinnunnar er unninn af læknum í metnaðarfullu námi sam- kvæmt uppfærðum alþjóðlega viðurkenndum marklýsingum og eru jafnvel að læra fyrir krefjandi alþjóðleg próf, gjörbreytir þessu umhverfi. Sérfræðilæknar fá þannig einnig vissa sí- menntun og þurfa að halda í við þekkingarþróunina. Hér þarf að nýta hvort tveggja, reynsluna að utan en einnig tryggja að ný þekking þróist stöðugt hér heima fyrir. Skipulagt metnaðarfullt framhaldsnám á Íslandi kemur alls ekki í veg fyrir að læknar komist í frekara sérnám í útlöndum, þvert á móti styrkir það þá í alþjóðlegri samkeppni. Það hefur varla farið framhjá neinum að álag á heilbrigðiskerf- ið og þau verkefni sem við fáumst við hafa þróast og breyst, sem tengist bæði breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar og þróun læknavísindanna. Þörfin fyrir hæft vinnuafl sem sinnt get- ur almennum en oft á sama tíma fjölþættum vandamálum hefur aukist og mun halda áfram að aukast. Hér er alls ekki um sér- íslenskt vandamál að ræða. Ein leið sem margar þjóðir hafa farið til að bregðast við þessum vanda er að auka áhersluna á breitt almennt grunnsérnám í stærstu heilbrigðisgreinum til að tryggja viðeigandi vinnuafl til framtíðar.9 Rökstyðja mætti að í litlu sam- félagi eins og Íslandi sé þetta jafnvel enn mikilvægara. Ómögulegt er að veita fullnægjandi framhaldsnám ef heil- brigðisþjónustan þar sem námið fer fram er ekki örugg og af nægum gæðum. Þessir þættir eru samtvinnaðir og óaðskiljan- legir og endurspeglast vel í þeim alþjóðlegu stöðlum sem meðal annars hafa nú þegar verið notaðir til úttekta á framhalds- menntunarprógrömmum á Íslandi.10 Uppbygging og framkvæmd staðlaðs framhaldsnáms af bestu gæðum er því ein leið til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu. Ég get með nokkru öryggi stað- hæft að þetta er einmitt reynslan innan þeirra greina þar sem slíkt formfast framhaldsnám hefur verið innleitt á undanförnum árum. Vinnuumhverfi, áherslur, þekking og metnaður samstarfs- fólksins breytist. Mikilvægi þessa má ekki vanmeta. Í mörgum greinum er einnig gerð formleg krafa um þátttöku sérnámslækna í gæða- og umbótastarfi, sem styrkir enn frekar þetta umhverfi. Stefna Stefna okkar er því að þróa og veita breitt grunnsérnám í stærstu sérgreinum sem sniðið er að íslensku umhverfi með það fyrir augum að við getum raunverulega sinnt mikilvægasta hlutverki okkar, að halda þjóðinni sem heilbrigðastri í nútíð og framtíð. Í dag þýðir þetta í flestum greinum tveggja til þriggja ára grunn- nám áður en haldið er annað í undirsérgreinarnám. Nú þegar er möguleiki á fullu sérnámi í geðlækningum og heimilislækningum á Íslandi. Við stefnum ekki að sérnámi í undirgreinum annarra stærri greina. Ég reikna með að allir séu sammála um að sérnám í til dæmis innkirtlalækningum eða brjóstholsskurðlækningum væri óráðlegt á Íslandi í dag. Það er hins vegar mjög mikilvægt að skilja þessa aðgreiningu stærri og smærri greina. Við höfum ágæta burði til að þróa fullt sérnám í almennum þáttum stærri greina, svo sem almennum lyflækning- um og bráðalækningum. Slíkt gæti reyndar orðið nauðsynlegt til að uppfylla ofangreindar þarfir fyrir starfskraft. Gæði og kröfur slíks náms er stærsta áskorunin og verður slíkt best unnið í nánu samstarfi við erlenda aðila.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.