Hugur og hönd - 01.06.1976, Síða 6
seinni tíma. Þetta eru eigulegir hlutir og alltaf er eitt-
hvað notalegt fyrir uppgraftarmanninn að finna snældu-
snúð.
Þegar augum er rennt yfir þetta fátæklega safn gripa
úr íslenskum steini og þess jafnframt minnst að íslend-
ingar voru eina þjóðin á Norðurlöndum sem aldrei kom
því í verk á miðöldum að reisa dómkirkju úr steini, vakn-
ar sú spurning hvort hin mikla steinlist norðurlanda-
búa á miðöldum hafi gjörsamlega farið fram hjá garði
hérlandsmanna. Eða er hér einhver misskilningur á
kreiki? Svarið er augljóslega að í þessu mikla grjótlandi
dafnaði ekki steinlist að neinu ráði. Ekki er til einn
einasti skírnarfontur úr íslenskum steini og reyndar ekki
útlendum heldur, fyrr en fonturinn í Hóladómkirkju,
einstæður listgripur sem Guðmundur smiður og mynd-
skeri í Bjarnastaðahlíð gerði 1674 úr norsku klébergi.
Skírnarfontar eru nefndir hér af því þeir voru öllum
öðrum gripum fremur sá leikvangur þar sem steinsmiðir
í nágrannalöndum okkar fóru á kostum í list sinni. Al-
gjör vöntun þeirra hér á landi er því hrópandi.
Þó skal þess jafnframt minnst að til eru tvö eða þrjú
dæmi um frjálsa steinlist íslenska frá miðöldum. Eitt
er Maríumynd frá Síðumúla í Borgarfirði, mater dolorosa,
einföld í sniðum og líklega ekki fagmannsverk, en áhrifa-
mikil og gerð af listrænu öryggi. Annað er upphleypt
mynd frá Görðum á Akranesi, einnig af Maríu í sorgar-
stellingum, fagmannlegar gerð, en því miður í brotum nú.
Þarna eru þá dæmi, þó fá séu, um íslenska steinlist á mið-
öldum, en óvissara er um aldur nokkurra steinmynda frá
Hítardal, sem nú eru í Þjóðminjasafninu eins og hinar
tvær. Stundum er talað um undantekningar sem sanna
regluna. Hér mætti ef til vill sletta þessari gömlu glósu.
Dæmin þrjú um allforna steinlist úr Borgarfjarðar-
héraði minna rækilega á að steinsmíði er yfirleitt hverf-
andi lítill þáttur í íslenskri menningu og arfleifð. Þó má
ekki gleyma enn einu sviði þar sem slík iðja hefur, þrátt
fyrir allt, náð nokkurri blómgan. Það svið er legsteina-
smíði. Bautasteinar fornir eru engir til á Islandi. En á 14.
öld fóru menn að klappa rúnaletur á stuðlabergsdranga
og leggja á leiði manna, og þessu héldu þeir áfram fram yf-
ir siðaskipti, þegar flatir legsteinar fóru smátt og smátt að
komast í tísku. Þeir voru fluttir inn margir, en þó eru
cinnig til ófáir íslenskir legsteinar heimagerðir á seinni
öldum og sýnilega hafa verið allmargir liðtækir legsteina-
smiðir hér og hvar í sveitum. Þeirra mestur var að lík-
indum Guðmundur í Bjarnastaðahlíð, ef sumir legstein-
arnir í Hóladómkirkju eru eftir hann, en fleiri voru þeir
bæði nefndir og ónefndir, og er þar rannsóknarefni, eitt
af mörgum. Hver veit nema efni þessarar smágreinar
verði einhvern tíma handfjatlað í vísindalegri ritgerð
eða bók með sama nafni.
K. E.
Kolur úr grunni Steindórsprents Tjarnagötu 4, Reykjavík.
6
HUGUR OG HÖND