Gríma - 15.09.1931, Síða 40
38
SAGAN AF SVANLAUGU OG HALLÞÓRI
Næstu nótt, er Svanlaug vissi að þeir feðgar
mundu sofa í hellinum, tekur hún á Hallþóri, og
biður hann að búast nú við flótta þeirra. Leggja þau
svo af stað og hafa með sér nesti til nokkurra daga.
Þegar þau koma út úr hellisgöngunum, sem bæði
voru löng og dimm og svo mjó, að þau urðu víða að
skríða flötum beinum, komu þau í gjána, og komust
við illan leik upp úr henni og í skóginn. Stefna þau
þá beint á fjallið, þótt bratt væri, og leiðir Hallþór
Svanlaugu og styður, því að víða var illt og ógreitt
í skriðum og klungri. En er þau koma á brúnina,
stefna þau þann veg, er Hallþór hugði skemmstan
til byggða, og ganga hvíldarlaust næsta dag til
kvölds. Þá er Svanlaug svo þreytt, að hún getur ekki
gengið lengra, og ræður Hallþór það af, að láta þar
fyrir berast um nóttina, sem hann var kominn, því
að hann fann, að hann fengi eigi lengi borið Svan-
laugu, svo þreyttur sem hann var. Þau búast nú um
í jarðfalli einu, svo vel sem kostur er á, og eta af
nesti sínu. Lækur lítill rann í jarðfallinu, og gátu
þau þar svalað þorsta sínum. Veður var hið bezta,
og sofa þau vel og hvílast um nóttina. Að morgni
stendur Hallþór snemma upp, og litast um. Var sól í
upprás og útsýn hin bezta. Þykist hann þá þekkja
fjöll í fjarlægð. Þá var komið nokkurt kul. Hann
vekur síðan Svanlaugu og var hún allhress.
Ganga þau þann dag allan, og ná um síðir skýli
byggðamanna á afréttinum. Þau dvelja þar um nótt-
ina, en næsta morgun leggja þau enn af stað, því að
þeim var mál orðið að komast til byggða, þótt ekki
þyrftu þau framar að óttast útilegumennina. Var
nesti þeirra nær á þrotum. Hallþór fer þá styztu
leið, og koma þau að Leiti um miðja nótt. Er þá fólk