Gríma - 15.09.1931, Side 41
SAGAN AF SVANLAUGU OG HALLÞÓRI
39
allt í fastasvefni, nema maður nokkur, sem stóð yfir
fé í nánd við bæinn, því að það var þá siður þar í
sveit að gæta ásauða nótt og dag á vorin, svo að
þeir rynni ei á afrétt fyrir burð. Hallþór gengur þá
til hans og kennir þar Grana bróður Svanlaugar.
Verður hinn mesti fagnaðarfundur. Segir Grani, að
engum hafi dottið í hug, að þau gæti verið lífs í ó-
byggðum allan þann tíma, sem þá var liðinn, síðan
þau hurfu. Grani fer nú heim með þeim og gengur
fyrstur í bæinn, að láta foreldra sína vita um komu
Svanlaugar og Hallþórs. Verður Hrólfur bóndi og
kona hans fegnari en frá verði sagt afturkomu dótt-
ur sinnar og svo Hallþórs. Var þá og sent eftir for-
eidrum hans og má nærri geta fögnuði þeirra, er
þau höfðu heimt einkason sinn og stoð sína og
styttu úr dauðans greipum. Hrólfur bóndi býður þá
Hallþóri hjá sér að vera, og fastnar honum Svan-
laugu dóttur sína. Var það vilji beggja þeirra, svo
sem vænta mátti. Litlu eftir þetta var safnað mönn-
um, vel út búnum að vopnum og klæðum og öðru, er
með þurfti, til þess að leita útilegumannanna. Var
Hallþór foringi þeirra. Grani Hrólfsson fór og með
honum. Urðu þeir sex saman, röskir menn og full-
hugar. Eftir alllanga leit fundu þeir dalinn. Lögðu
þeir niður í gjána á næturþeli, og komust svo í
leynihellinn með vopnum sínum, og þó við illan leik;
svo voru dyrnar þröngar. Svo náðu þeir hellunni,
sem Hallþór hafði fellt fyrir hellismunnann, sem inn
vissi í afhelli Svanlaugar, og komust þeir þá hljóð-
lega í aðalhellinn. Sváfu útilegumenn í ullarbing
og höfðu gæruskinn ofan á sér. Vöknuðu illvirkjarn-
ir við illan draum; spruttu þeir upp, en byggðamenn
réðust á þá, áður útilegumenn næði til vopna sinna.