Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Síða 26

Dagblaðið Vísir - DV - 07.02.2020, Síða 26
26 7. febrúar 2020 Tímavélin Þegar nektardans blómstraði á Íslandi H ún er menntuð sem barnahjúkrunarkona og er að lesa sálfræði. Vinnur á heildsölu og baðar sig fyrir Íslendinga. Þannig hljómaði inngangur viðtals sem birtist í tölublaði Vikunnar í ágúst 1978. Þar var rætt við dönsku nektardansmeyna og skemmtikraftinn Susan Haslund en Susan kom reglulega til Íslands á árunum 1974–1981. Þetta var tæplega þremur áratugum áður en nektardans var bannaður hér á landi. Susan ferðaðist um land allt og sýndi nektardans á hinum ýmsu klúbbum, veitingastöðum og samkomuhúsum við góðar undirtektir Íslendinga sem voru óvanir skemmtun af þessu tagi. Susan kom meðal annars fram í hinum ýmsu búningum, en það sem vakti hvað mesta lukku í sýningunni var þegar hún baðaði sig í pínulitlu baðkari. „Susan baðar sig“ stóð í auglýsingum fyrir sýninguna sem birtust í blöðum og tímaritum. „Nektardansmærin Susan baðar sinn undurfagra og eggjandi líkama allsnakin á gólfinu í Festi, í minnsta baðkari í heimi,“ stóð í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í júní 1977 en þá kom Susan fram á skemmtistaðnum Festi í Grindavík. Sagði Íslendingja vera „vingjarnlega“ „Hún baðar sig í bláum plastbala, dillar sér með eggjandi hreyfingum og lætur áhorfendur þvo sér og þurrka,“ ritar blaðamaður Vikunnar sem fylgdist með sýningu Susan á Klúbbnum eitt ágústkvöld árið 1978. Susan sýndi fyrir troðfullum sal það kvöld. Susan tjáði blaðamanni að hún hefði byrjað ferilinn sem „gogo“-dansmær en fært sig síðan yfir í nektardansinn sem henni fannst mun skemmtilegri. Þá sagðist hún alltaf skemmta ein, aldrei með öðrum. Hún sagðist eiga nokkur áhugamál fyrir utan dansinn, svo sem siglingar, saumaskap og lestur góðra bóka. Þá sagðist hún hafa haft mjög gaman af því að kynnast landi og þjóð, en á ferðum sínum um landið hafði hún meðal annars fengið að líta inn í ullarverksmiðjur, bóndabýli og frystihús. „Íslendingar hafa reynst mér vel og verið vingjarnlegir og mér finnst gott að vera hér,“ sagði Susan en hún sagðist aldrei hafa orðið fyrir aðkasti á sviðinu, þvert á móti. „Það hefur allt gengið vel hérna.“ Blaðamaður lýsti þannig upplifun sinni af kvöldinu: Nú voru spurningar þrotnar og Súsan farin að ókyrrast, því nú leið að sýningaratriði hennar. Hún þaut með miklum látum inn í búningsherbergið, en ég labbaði fram. Þegar fram kom hafði mikill mannfjöldi safnast saman við dansgólfið, það var stappað og klappað og æpt á Susan. Og svo birtist hún í svartri skikkju. Eftir að hafa dillað sér um stund fór hún að tína af sér spjarirnar, en dansaði fram og til baka allan tímann. Loksins þegar hver einasta pjatla var horfin utan af henni sté hún ofan í balann sinn og lék þar listir sínar við mikinn fögnuð áhorfenda. Ætlaði fagnaðarlátum aldrei að linna og Susan, sem stundar þessa þrifalegu atvinnu, virtist eiga hvert bein í fólkinu. Nektardans í félagsheimili Susan var ekki eina nektardansmærin sem kom fram hér á landi á þessum árum. Á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum þekktist það að íslenskar hljómsveitir fengu erlendar dansmeyjar til að koma fram á böllum á meðan hljómsveitarmeðlimir tóku sér pásu. Þá kom nektardansmærin Sabina fram á skemmtistaðnum Sigtúni seint á sjöunda áratugnum. „Íslenskir áhorfendur eru mjög kurteisir, ólíkir mörgum Evrópubúum, en mér finnst dálítið kalt að dansa hérna,“ sagði hún í samtali við Vísi í júní 1969. Nokkrum árum síðar, árið 1977, hélt hljómsveit Ólafs Gauks ball í félagsheimilinu í Grímsey og fékk nektardansmey að nafni Lisa til að koma fram á ballinu. „Dansmeyjan Lisa var óhrædd við hátta sig norðan við Heimskautsbaug. Grímseyingar störðu á „undrið“, opinmynntir og stóreygir, rétt eins og menn gera annars staðar,“ sagði meðal annars í grein Vikunnar á sínum tíma en eins og sjá mátti á myndunum var aðbúnaðurinn á félagsheimilinu ekki beinlínis hentugur fyrir nektardans. n Auður Ösp Guðmundsdóttir audur@dv.is Myndir: timarit.is Gamla auglýsingin 29.09.1928

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.