Dagblaðið Vísir - DV - 25.09.2020, Blaðsíða 8

Dagblaðið Vísir - DV - 25.09.2020, Blaðsíða 8
Heimir Hannesson heimir@dv.is FERÐAÞORSTI OG FLUG- FÉLÖGIN Á COVID-TÍMUM Leitun er að ferðaglaðari þjóð en Íslendingum. Þjóð sem eitt sinn fór oftar utan en flestar aðrar situr nú heima hjá sér og bíður eftir að heimurinn opnist. Á meðan undirbúa flugfélögin sumarið 2021. Ferðaþorsta er víða farið að gæta í samfélaginu. Ísland er þjóð sem fer að meðaltali um þrisvar á ári til útlanda. Árið 2018 ferðuðust 80 prósent landsmanna út fyrir landsteinana og 70 pró- sent fóru oftar en einu sinni. Athygli vakti að samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu árið 2018, sem var mikið vel- megunarár í íslenskri hag- sögu, skiptu tekjur, aldur, búseta og menntun litlu. Allir virðast hafa átt efni á, getu og vilja til þess að sjá heiminn. Að vísu fóru æðstu stjórn- endur aðeins oftar utan, en gera má ráð fyrir að það sé að minnsta kosti að hluta vegna vinnuferðalaga. Segja má að ferðaþorsti Ís- lendinga hafi að miklu leyti bæði verið skapaður og svalað með áhuga erlendra ferða- manna á Íslandi sem áfanga- stað. Sá áhugi bjó til grundvöll fyrir WOW air. Flugfélagið kom inn á flugrekstrar- markaðinn með miklum lát- um. Jómfrúarflugið var til Parísar í maí 2012. Í október það sama ár tók félagið yfir Ice land Express. Þegar yfir lauk árið 2019 hafði fjólublátt einkennismerki WOW air prýtt flugbrautir í 37 borgum og opnað beint flug til áður óþekktra staða. Icelandair naut auðvitað góðs af uppsveiflunni líka, og gjaldþroti WOW. En það voru ef til vill erlendu flugfélögin sem mest fór fyrir. Íslending- um hafði fram að þessu að- eins staðið til boða að fara til útlanda með íslenskum flug- félögum ef frá eru talin Osló- flug SAS og örfá árstíðabundin önnur tækifæri. Sumarið 2019 var beint flug til 69 erlendra borga með 19 flugfélögum. Keflavíkurflugvöllur var svo gott sem sprunginn. Af sem áður var Í dag er Keflavíkurflugvöll- ur draugabær. Þótt ekki sé ástæða til að ætla annað en að áhugi erlendra ferðamanna á Íslandi sé enn til staðar, og út- þrá Íslendinga er svo sannar- lega til staðar, þá er ekkert flug. COVID-19 hefur lamað milliríkjasamgöngur um allan heim og eyríki eins og Ísland sem byggði samgöngunet sitt við útlönd á hreinræktuðum afþreyingartúrisma eru sér- staklega viðkvæm. Það er þó ekki öll von úti. Rekstraraðilar innlendra ferðaþjónustufyrirtækja halda í þá von að þegar eitthvað ger- ist verði innlendir rekstrarað- ilar tilbúnir í slaginn þá þegar. Aðgerðir hins opinbera hafa tryggt að færri hafa farið á hausinn en ella. Einn viðmæl- andi DV orðaði það svo að fyr- ir tilstilli opinberra aðgerða og lagabreytinga hefði rekstr- araðilum í ferðaþjónustu verið gert að leggja rekstur sinn „í formalín“, og þannig haldið nauðsynlegum búnaði og lág- marksmönnun sem þau þurfa til þess að hefja rekstur með litlum fyrirvara. Jóhann Már Valdimarsson, rekstrarstjóri ævintýraferðaþjónustufyrir- tækisins Tröllaferða, segir að þeir séu klárir í slaginn. „Við erum tilbúnir til þess að taka á móti ferðamönnum daginn sem þeir koma,“ segir Jóhann en bendir á að þá þurfi flug- félögin líka að vera klár. Flugfélögin lykilleikendur í endurreisninni Flugfélögin eru þannig lykil- atriði þegar kemur að því að endurreisa dómínókeðjuna sem féll í byrjun árs. Þar stendur auðvitað Icelandair eitt upp úr. „Kerfislega mikil- vægt,“ sagði Bjarni Bene- diktsson í frumvarpi sínu um ríkisábyrgð á lánum til félags- ins. Ríkisábyrgðin var einn liður af mörgum í gríðarlegri ríkisaðstoð sem félaginu var veitt í aðdraganda hlutafjárút- boðs Icelandair fyrr í þessum mánuði. Hlutafjárútboðið var vel lukkað. Mikil umfram- eftirspurn eftir hlutum í félag- inu, og þá sérstaklega meðal almennings vopnuðum sparifé sínu, mældist vel fyrir í sam- félaginu og virðist, ásamt þátttöku lífeyrissjóða, hafa bjargað félaginu. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir að Icelandair sé klárt í slaginn eftir atburði síðustu vikna og mánaða. „Fyrst og fremst erum við ánægð, þakklát og spennt fyrir fram- haldinu,“ segir hún aðspurð um niðurstöðu hlutafjárút- boðs Icelandair í síðustu viku. „Við erum spennt fyrir því að standa undir þessu mikla trausti sem okkur var sýnt.“ Birna tekur undir það sjónar- mið að flugfélögin verði lykil- atriði í að koma hjólum at- vinnulífsins af stað aftur að ástandinu loknu og bendir á að í kjölfar „fyrstu bylgjunnar“ hafi Icelandair nánast strax verið komið af stað með metn- aðarfulla sumaráætlun og flogið var oft á dag til Kaup- mannahafnar. „Það sýndi að eftirspurnin er til staðar, það hins vegar skrúfaðist fyrir hana um leið og reglunum var breytt,“ segir Birna og heldur áfram: „Við verðum að fá hér skýrari reglur sem eru til frambúðar.“ Birna er ekki ein um þessa skoðun en Samtök aðila í ferðaþjónustu hafa margoft bent á að sveiflu- kenndar reglur um smitvarnir á landamærum Íslands séu óheppilegar. „Við verðum að skýra línurnar, því aðeins þá getum við farið að einbeita okkur að sölunni aftur,“ sagði Birna við blaðamann DV. Á miðvikudag í þessari viku blés Icelandair af allt flug nema til Boston, en flug- leiðin Keflavík-Boston er niðurgreidd af hinu opinbera. „Þetta er ekki ákjósanlegt fyr- ir okkur, að hafa þetta svona,“ sagði Birna en stýrði samtal- inu aftur að framtíðinni. „Nú nýtum við tímann í að skipu- leggja 2021.“ Ferðalög takmörkuð en ekki útilokuð Ferðalög í núverandi aðstæð- um eru þó ekki útilokuð, þótt reglur um sóttvarnir á landa- mærum víða um heim hafi gert þær illmöguleg. Þannig er það hverjum sem hyggur á ferðalag frá Íslandi ljóst að hann mun þurfa að sæta tvöfaldri sýnatöku og sóttkví þeirra á milli þegar hann kemur heim. Á milli sýnataka þurfa að líða að minnsta kosti fjórir til fimm dagar, og því getur sóttkvíin varað í allt að sex daga, eftir því hvenær viðkomandi fær niðurstöðu úr seinni sýnatöku sinni. Tveggja nótta helgarferð getur þann- ig krafist þess að ferðalangur taki sér átta dag frí frá vinnu. Erfitt getur reynst að fljúga út fyrir EES-svæðið í nú- verandi aðstæðum, en til eru dæmi um lönd innan þess með engar kröfur um sóttkví. Sví- þjóð til dæmis gerir engar kröfur, svo þangað væri hægt að fara í stutta ferð ef útþráin ber mann ofurliði. Vissulega geta breytingar orðið á þess- ari stöðu með litlum fyrirvara í núverandi ástandi, en þegar þetta er skrifað er hægt að heimsækja Austurríki, Belgíu, Króatíu, Kýpur, Frakkland og fleiri lönd. Ferðalangar verða þó alltaf háðir því að fara í, eins og fyrr segir, sýnatöku við lendingu í Keflavík, heim- komusóttkví og seinni sýna- töku nokkrum dögum seinna. Þeir sem hafa fengið veir- una og eru með mótefni sam- kvæmt mælingum geta fengið vottorð um það en það er þó ekki talið veita undanþágu frá ferðareglum sem stendur. n Heldur draugalegt er um að lítast á Keflavíkurflugvelli núorðið. MYND/VALLI 8 FRÉTTIR 25. SEPTEMBER 2020 DV

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.