Dagblaðið Vísir - DV - 25.09.2020, Blaðsíða 20

Dagblaðið Vísir - DV - 25.09.2020, Blaðsíða 20
20 FÓKUS SPENNUSÖGUR 25. SEPTEMBER 2020 DV MYND/GETTY BESTU SPENNUSÖGURNAR Haustlægðir bjóða upp á fátt skemmtilegra en að sitja inni í hlýjunni og lesa góða bók. Í síð- asta blaði fórum við yfir almennar skáldsögur og barna/ungmennabækur en nú er komið að uppáhalds spennusögum valinkunnra álitsgjafa. ÆSA GUÐRÚN BJARNADÓTTIR, RITSTJÓRI Nýr Arnaldur er jólakonfektið mitt eins og margra en spennusögur Lilju Sigurðardóttur hafa komið mér þægilega á óvart síðustu ár. Þríleikur hennar: Gildran, Netið og Búrið er til dæmis ansi góður – hörkuspennandi og sannfærandi atburðarás og plott en glæpirnir þó ekki eins blóðugir og ljótir og oft er. Á tímabili var eins og flestir glæpasagnahöfundar þyrftu að toppa síðasta viðbjóð, ég fékk leið á því. HEIÐAR INGI SVANSSON, BÓKAÚTGEFANDI Ég hef í mörg ár haldið í þá hefð að að hefja lestur á nýrri bók eftir Arnald Indriðason á aðfangadagskvöldi ár hvert. Sem höfundur er Arnaldur því í miklu uppáhaldi hjá mér og ómissandi hluti af jólahefðum mínum. Af mörgum bóka hans sem eru í uppáhaldi hjá mér þá stendur nú Grafarþögn upp úr sem mér finnst vera hans besta bók. Þar tekst honum einstaklega vel upp í því skandinavíska samfélagsraunsæi og boðskap sem hann svo oft miðlar til lesenda sinna. Einnig er hún mjög vel skrifuð þar sem hann tengir listavel saman þau tvö tímabil sem bókin segir frá og heldur manni auk þess í spennu allt fram á síðustu blaðsíðu. GUNNAR HERSVEINN, RITHÖFUNDUR OG HEIMSPEKINGUR Höfundurinn George Orwell er uppáhalds hjá mér en hann skrifaði 1984 sem er flokkuð sem hrollvekjandi framtíðarsaga. Ég tók hana óvart á bóka- safninu 1978 án þess að vita hvað þetta var þekkt bók. Svo fór ég bara heim að lesa og fannst hún svo spennandi og ógnvekjandi að ég hætti ekki fyrr en henni var lokið. Seinna heillaðist ég af öðrum skrifum þessa snjalla höfundar og vil endilega benda á bækurnar Stjórnmál og bókmenntir, Í reiðuleysi í París og London og Dýrabær sem Hið íslenska bókafélag hefur gefið út í Lærdómsritaröðinni. HILDUR ÝR ÍSBERG, ÍSLENSKU- OG BÓKMENNTAFRÆÐINGUR Ég les ekki mikið af spennusögum, en ég les allar barna- og ungmennabækur sem koma út, þar sem ég er oftast í einhverjum svoleiðis dómnefndum og verð að nefna bækur Hildar Knútsdóttur. Alveg hörkuspenn- andi og hún heldur spennunni fram á síðustu blaðsíðu. SVERRIR NORLAND, RITHÖFUNDUR Hér get ég eiginlega ekki valið neina eina bók en langar að nefna ef tir- lætis-spennusagnahöf- undinn minn: Patriciu Highsmith. Það er munur á því sem á ensku kall- ast annars vegar thriller og hins vegar suspense story og verk Higsmith falla í seinni flokkinn; það svífur ævinlega einhver ógn yfir vötnum, hætta á ofbeldi, án þess að neinn sé endilega myrtur eða limlestur. Sem sagt, þetta eru sálfræðitryllar frekar en hasarsögur. Þekktustu bækur Highsmith eru sjálfsagt fimm bóka bálkurinn um Tom Ripley (The Talented Mr. Ripley nefnist fyrsta bókin) en flestar hinna sagnanna hennar eru líka frábærar. Nýlega las ég aðra framúrskarandi bók eftir hana, Edith’s Diary, sem lýsir á magnaðan hátt hlutskipti titil- persónunnar, og þar með fjölda kvenna, í bandarísku millistéttarsamfélagi upp úr miðri síðustu öld. Stíll- inn hjá henni er beinskeyttur og einfaldur en um leið ótrúlega ávanabindandi og læsilegur. Verst að ekkert hefur, svo ég viti til, verið þýtt eftir hana yfir á íslensku. PÉTUR G. MARKAN, SAMSKIPTASTJÓRI ÞJÓÐKIRKJUNNAR Einfarinn eftir A.J. Quinnell. Magnaður hefndarreyfari um fyrrverandi bandarískan málaliða, Creasy, sem leggur upp í sitt síðasta stríð, hefndaruppgjör þar sem ítalska mafían er stráfelld kúlu fyrir kúlu. Bókin hefst á þessari mögnuðu bæn; Gefðu mér drottinn, það sem enn þú átt en enginn hafa vill. Um heilsu, frægð og hamingju ei ég bið og hvorki um auð né frið: um þetta biðja þeir snauðu og ríku svo þú átt sjálfsagt afgang fátt af slíku. Gefðu mér, Drottinn, það sem enn þú átt en enginn hafa vill. Um eirðarleysi og ofsa ég þig bið og öryggislaust líf. Og ef þú þíns vinar virða skalt þá veit mér þetta fyrir líf mitt allt. Því síðar kann mig kjark að skorta til að kalla á þig um gjafir sem ég vil. HILDIGUNNUR RÚNARSDÓTTIR, TÓNSKÁLD Uppáhalds spennusagan, hér er einnig úr mörgu að velja en ég held ég fari í heim Louise Penny og bókina How the Light Gets In. Þessi bók geymir lausn á lang- tímavandamáli söguhetju bóka hennar í gegn um langa seríu með mjög áhugaverðum persónum. Mæli með seríunni en ekki byrja á þessari bók! ÓLI KR. ÁRMANNSSON, BLAÐAMAÐUR OG RÁÐGJAFI HJÁ KOM RÁÐGJÖF The Wasp Factory er fyrsta bók skoska rit- höfundarins Iains Banks og kom út árið 19 8 4 . H ú n e r kannski ekki hefðbundin sem spennubók, en inniheldur sannarlega spennu, glæpi, hryll- ing og óvænt endalok. Um er að ræða fyrstu persónu frásögn Franks, unglings sem býr afskekkt með föður sínum á skoskri eyju og endurspeglar uppvöxt hans, af- brot, erfiðar aðstæður og uppgjör við sjálfan sig og fjölskylduna. Eftir Banks, sem lést úr krabba- meini árið 2013, liggja fjölmargar frábærar skáldsögur, bæði hefð- bundnar og vísindaskáldskapur og hægt að mæla með hverri einustu þeirra ÁLFRÚN PÁLSDÓTTIR, KYNNINGARSTJÓRI HÖNNUNARMIÐSTÖÐVAR ÍSLANDS Þríleikur Stiegs Larsson, Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loft- kastalinn sem hrundi. Einn besti dúett spennusagnanna að mínu mati eru þau Mikael Blomkvist og Lisbeth Sa- lander. Kannski spilar líka inn í að móðir mín þýddi bækurnar og gerði af sinni alkunnu snilld.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.