Íslenskar landbúnaðarrannsóknir - 01.09.1981, Side 33
SELEN f BLÓÐI SAUÐFJÁR 3 1
nákvæmlega um selen í fóðri hútanna, en
ólíklegt er, að það hafl verið selenauðugra
en fóðrið, sem ærnar fengu, vegna þess að
flestar mælingar á heyi frá Hvanneyri
sýna, að í því er minna en 100 ng/g selens
(3. tafla). í 21 sýni, sem var tekið á
Hvanneyri sumarið 1979, var selen að
meðaltali 52 ±23 ng/g. Hrútarnir fengu
fóðurbæti. Ærnar, sem fengu kjarnfóður
um fengitímann, voru ekki með meiri
virkni á GPx í blóði, það sem eftir var
vetrar, en hinar, sem ekki fengu kjarnfóð-
ur.
Eftir sumarbeit á fjalli er GPx að með-
altali 140 IU/g Hb í blóði ánna, sem er
nægjanlegt. Þetta bendir til þess, að út-
hagagróður á Islandi sé selenríkur.
Nokkrar mælingar á sýnum frá Húsafelli,
Geldingadraga og frá hálendi Austfjarða
hafa staðfest þetta (6 sýni með 83—770
ng/g, meðaltal 207 ng/g). Þetta er sam-
bærilegt við finnskar niðurstöður
(KuRKELAog Káántee, 1979).
Samkvæmt mælingum Bucks et al.
(1980) virðist selen einkum safnast í inn-
kirtla og leg áa og fóstur síðustu vikur
meðgöngutíma. Gæti þetta verið skýring á
mikilli rýrnun á seleni í blóði áa síðari
hluta vetrar, þó að selen minnki lítið í
blóði hrúta. Aukið selen í fóðri í
mars—apríl í þessum tilraunum kemur
ekki fram í blóði, en ekki var það mælt í
öðrum vefjum né í fóstrum.
Selen í blóði ánna er minnst rétt fyrir
burð, um 60 ng/ml. Þetta er aðeins innan
þeirra marka, sem talin eru nauðsynleg til
að koma í veg fyrir hvítvöðvaveiki,
50—100 ng/ml, enda bar ekki á stíuskjögri
á Hvanneyri þetta vor. En nauðsynlegt er
að athuga fleiri en selenið eitt í þessu
sambandi. E-vítamín og fitusamsetning
fóðursins skipta einnig miklu máli við
myndun peroxíða í vefjum (Hoekstra,
1975). E-vítamín kemur í veg fyrir oxun
fituefna, en GPx eyðir peroxíðum, sem
myndast við niðurbrot lífefna, sérstaklega
fituefna. E-vítamínmælingar í blóði ánna í
þessari tilraun bentu til þess, að munur sé
á votheys- og þurrheysfóðrun, þ. e. meira
E-vítamín mældist í blóði ánna, sem fengu
vothey, en þetta þarf að rannsaka nánar.
Selen í þessum ám er í minnsta lagi. Ef
samspil þáttanna þriggja, þ. e. selens,
E-vítamíns og fitusamsetningar fóðursins
er rétt, er ekki hætta á hvítvöðvaveiki. En
vegna þess, hve selenbúskapur stendur
tæpt í ám fyrir burð, þarf ekki nema örlitla
röskun á þessu samspili, til þess að
lambinu dugi það ekki, sem það fær frá
móðurinni, og fái hvítvöðvaveiki. Þetta
má koma í veg fyrir með því að gefa selen-
auðugan fóðurbæti, eins og gert var í
þessari tilraun.
ÞAKKARORÐ
Höfundar vilja þakka Gunnari Erni Guðmundssyni
dýralækni fyrir ómetanlega aðstoð við blóðtökurn-
ar.