Morgunblaðið - 29.05.2020, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 29.05.2020, Blaðsíða 17
as og fjölskyldur, innilegar sam- úðarkveðjur. Hrafnhildur Jónsdóttir. Árið er 1969. „Mikið afskap- lega er þetta glæsileg ung kona hérna í 77,“ segir tengdamóðir mín þegar henni verður litið út um eldhúsgluggann á Skeiðar- vogi 89. Ég lít líka út og samsinni henni. Unga konan sem gengur öruggum skrefum eftir stéttinni á milli raðhúsanna í eldrauðri peysu er sannarlega glæsileg. Hvoruga okkar grunaði þá að innan mjög fárra ára yrði þessi unga kona, hún Rannveig Tóm- asdóttir, Ranný, hluti af stórfjöl- skyldu tengdamóður minnar sem þá var ekkja með sex syni og tvær dætur. Stórfjölskyldu sem hefur átt mikil og góð samskipti, haldið vel hópinn og notað öll tækifæri sem hafa gefist til sam- veru- og gleðistunda. Ferðalög, veislur og sunnudagskakó. Minningar með Ranný, Tolla og börnum eru margar um ferða- lög innanlands og utan í stærri eða minni hópum. Við höfum ver- ið á skánsku láglendi og hálendi svissnesku Alpanna og ýmsum stöðum þar á milli. Farið í úti- legur á fallegustu staði Íslands, að okkar mati, og þeir staðir eru margir. Með stórfjölskyldunni höfum við í 25 sumur farið í gönguferðir um óbyggðir landsins. Fyrstu ár- in var gengið með allt á bakinu en síðustu árin aðeins léttara. Við Ranný ræddum þessar ómet- anlegu ferðir fyrir stuttu og vor- um sammála um að erfitt væri að velja úr fallegustu gönguleiðirn- ar og að toppnum hefðum við náð með göngu á Hvannadalshnúk árið 1999. Það var stutt á milli húsa okk- ar síðustu 24 árin og oft tilvalið að skjótast og njóta uppáhalds- drykkjarins. Sá smekkur hefur gengið til dætra okkar og oft gat teygst vel úr heimsóknunum vegna spjalls og gleði. Ranný var vel virk í öllum at- burðum, hörkudugleg, drífandi og stórmyndarleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Ég ætla ekki að gera veikind- um hennar eða dauðanum svo hátt undir höfði að fjölyrða um þá tvennd en ætla samt að segja að hvernig hún tókst á við þetta fimm ára verkefni vakti aðdáun okkar allra. Hún var ótrúlega dugleg og æðrulaus og tókst að gera margt skemmtilegt. Fjöl- skylda hennar, börn og tengda- börn, með Tolla mág minn í far- arbroddi, hefur staðið sig eins vel og hægt er, og líklega betur, og litlurnar gerðu sitt til að gleðja alla í kringum sig. Síðasti kaflinn hefur verið skrifaður í lífsbókina hennar Rannýjar. Sú bók er full af skemmtilegum sögum og litrík- um myndum sem sýna stórglæsi- lega brosandi konu, umkringda fjölskyldu og vinum. Á morgni lífsins leggjum við öll af stað, er leitin hefst er ferðahugurinn mestur. En við höfum fengið fyrirskipun um það að fylgja sólinni – vestur. (Davíð Stefánsson) Það er mikil dásemd þegar rauð kvöldsólin skín í vestrinu og málar himininn stórkostlegum litum. Hún hefur verið óspör á þá litadýrð að undanförnu og við trúum því að okkar kona hafi gengið inn í þessa fegurð. Ef Sumarlandið er til hafa þar beðið vinir í varpa og tekið vel á móti henni. Kannski skálað. Ég minnist Rannýjar svilkonu minnar og vinkonu með hlýhug, kærleika og þökkum fyrir gef- andi samferð. Jóna Möller. Að minnast mágkonu minnar, Rannveigar Tómasdóttur, Ran- nýjar, er ljúfsárt. Hún var svo mikil manneskja og ógleymanleg okkur sem lifðum með henni. Það var mikið gæfuspor hjá Þór- halli bróður mínum að biðla til hennar og njóta síðan lífsins með henni. Ranný var glæsileg kona, skemmtileg, traust og naut þess að vera með fjölskyldu og vinum. Hún var félagslynd og ræktaði sinn frændgarð sem við öll sem tengdumst henni nutum góðs af, sannkallaður gleðigjafi. Við Þorleifur og börn ferðuð- umst með þeim um allt Ísland, láglendi og hálendi, í mörg ár ásamt því að vera í gönguhópi með systkinum og vinum í ára- tugi. Eins og ávallt var Ranný ein af þeim sem bjuggu til stemningu með hópnum með ein- lægri gleði og áhuga á ferðinni og ekki síst að skapa stemningu með ferðafélögunum. Ranný var gestgjafi sem skap- aði þessa einstöku stemningu að það væri svo mikil gleði að við værum saman. Það er ekki öllum gefið. Minning um einstaka konu sem gaf svo mikið af sér og naut þess að lifa verður ætíð með okk- ur. Er sárasta sorg okkur mætir og söknuður huga vorn grætir þá líður sem leiftur úr skýjum ljósgeisli af minningum hlýjum. (HJH) Anna Björg og fjölskylda. Með þessum orðum vil ég kveðja Rannveigu Tómasdóttur, sem lést 19. maí síðastliðinn. Við kynntumst fyrst árið 1971 á námskeiði fyrir verðandi flug- freyjur, sem haldið var af Flug- félagi Íslands. Rannveig hafði þó fyrr vakið athygli mína fyrir glæsileik, en við vorum báðar aldar upp í Vogahverfinu. Seinna bar fundum okkar saman aftur í Garðabænum, vorum nágrannar í Brekkubyggð og börn okkar saman í skóla. Þess utan hitti ég Rannveigu oft á starfsvettvangi hennar, en hún gerði flugfreyj- ustarfið að ævistarfi sínu. Fyrir rúmum fjórum árum tókst nán- ara vináttusamband milli okkar vegna sameiginlegrar lífsreynslu og samskipti jukust. Rannveig var mjög glæsileg og falleg kona og hafði einstak- lega fágaða framkomu.Hún var einnig ótrúlega dugleg og já- kvæð. Rannveig var mikill fag- urkeri eins og sést á heimili þeirra Þórhalls. Á undanförnum hartnær fimm árum hefur hún barist við krabbamein eins og hetja. Alltaf hefur hún risið upp eftir hvert áfallið á fætur öðru af slíkri elju, sem fáum er gefin. Skipti þá engu hvort það voru boðaföll vegna eigin veikinda eða bróð- urmissis. Þrátt fyrir veikindi Rannveigar tókst þeim hjónum að ferðast nokkuð, en þau höfðu bæði mikla ánægju af ferðalög- um. Rannveigu varð að langþráðri ósk sinni að eignast tvö barna- börn. Gleði hennar yfir litlu telp- unum fór ekki framhjá neinum enda voru þær svo sannarlega miklir sólargeislar í lífi hennar. Rannveigu vil ég þakka góða vináttu síðustu árin og kveð hana með virðingu og þakklæti. Þór- halli, börnum, tengdabörnum og ömmubörnum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur öll. Guðbjörg Alfreðsdóttir. Glæsileiki, fágun og léttleiki einkenndu elsku Ranný vinkonu okkar. Hún var fagurkeri, sem birtist bæði á heimili hennar og í öllu hannar fasi. Eftirminnilegar eru veislurn- ar í garðinum og afmæli Rannýj- ar þar sem alltaf skein sól og gleðin var við völd. Það var ein- mitt á fæðingardegi hennar sem slegið var hitamet í Reykjavík 17. júlí 1950 (23,5). Fyrir hartnær 50 árum hófum við störf hjá Flugfélagi Íslands sem flugfreyjur. Þar tókst með okkur vinskapur sem hefur hald- ist síðan. Fyrst kölluðum við okkur árshátíðarhópinn þar sem síðkjólaglamúr lét ekki á sér standa. Síðar bættust við göngu- ferðir um náttúruperlur Íslands. Margt var brallað og margar ferðir farnar ásamt mökum. Allt- af sá Ranný um að passa vel upp á að ekki liði langt á milli hitt- ings. Við söknum elsku vinkonu okkar og lífið verður tómlegt án hennar en minningarnar eru margar. Elsku Þórhallur, Halla, Þor- björg, Tómas og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill en minn- ing um yndislega konu mun lifa. Sigrún, Svandís, Erla, Þórey og Hafdís. Hér sit ég með tár í augum og hugsa til elsku vinkonu minnar. Mikið var ég heppin að kynn- ast henni Ranný. Við störfuðum báðar sem flugfreyjur, hún hjá Flugfélagi Íslands en ég hjá Loftleiðum. Árið 1983 þegar flugliðar áhafnanna höfðu nokkru áður sameinast undir merkjum Flugleiða lágu leiðir okkar fyrst saman. Við lentum saman í flugi og urðum vinkonur frá fyrsta degi. Hún var nýflutt í Garðabæinn og sagðist ekki þekkja neinn þar. Það vildi svo til að ég átti heima í næstu götu og strax daginn eftir dreif ég mig með dóttur mína í kerru í heim- sókn til hennar. Upp úr þessu hófst mikill og skemmtilegur samgangur, fjölskyldur okkar kynntust og við urðum vinir. Ranný var vinkona eins og þær gerast bestar; glaðleg, uppörv- andi, úrræðagóð, verkfús og allt- af til staðar. Glöð og kát og flink í að greina hismið frá kjarnanum í hverju máli. Ranný hafði svo góða nærveru að ferðalög með henni og fjöl- skyldunni urðu alltaf yndisferðir. Við fengum okkur tjaldvagna um sama leyti og nutum íslenskrar náttúru saman, gengum á daginn og oft lauk góðum degi fyrir utan tjald í kvöldsólinni. Best leið Ranný í sólskini. Skemmtilegri og þægilegri ferðafélaga en Ranný og Þórhall er vart hægt að hugsa sér. Alltaf ríkti gleði hvort sem ferðirnar voru innanlands eða erlendis. Ranný var fagurkeri og það lék allt í höndunum á henni. Heimili þeirra Þórhalls er eins og lítið listasafn, allt valið af smekkvísi og næmu auga. Ranný var meistarakokkur, elskaði að halda boð og þau Þórhallur voru höfðingjar heim að sækja. Skemmtilegustu veislurnar voru í Brekkubyggðinni. Ranný var falleg og góð mann- eskja. Elskaði börnin sín skilyrð- islaust og var stolt af þeim og var þakklát fyrir barnabörnin. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og er nú sárt saknað af Guðrúnu systur sinni. Hún tókst á við veikindin af miklu æðruleysi. Hún var já- kvæð og bjartsýn og hafði kjark- inn og kraftinn til að takast á við sjúkdóminn. Hún var umvafin ást og hlýju fjölskyldu sinnar allt til hinstu stundar. Í Brekkubyggðinni ríkir djúp sorg. Þórhallur, Halla, Þorbjörg, Tómas og fjölskyldur syrgja yndislega og ástríka eiginkonu og móður. Þessi fallega og skemmtilega vinkona mín hefur nú haldið inn í eilífðarsólskinið. Það er með djúpum söknuði sem við Viðar og börn kveðjum Ranný. Halldóra Sigurðardóttir Það ríkti eftirvænting blandin forvitni og kvíða. Salurinn var troðfullur þegar Helgi Þorláks- son setti skólann þennan fyrsta dag í gaggó enda Vogaskóli þrí- setinn á þessum árum. Í lífi okk- ar 1950-árgangsins var nýtt tímabil að hefjast; við vorum að skríða inn í fullorðinsárin. Þrátt fyrir mikinn fjölda ungmenna skar Ranný sig úr. Hún var óvenju hávaxin, lagleg og iðandi af lífskrafti en samt með báða fætur á jörðinni. Þessi birta sem einkenndi hana leiddi til þess að við drógumst að henni. Það varð ekki komist hjá því í svona fjölmennum skóla að krakkarnir tækju að hópa sig saman en við sem bjuggum í næsta nágrenni við Vogaskóla fórum að hittast utan skóla og von bráðar var lagður grunnur að vinskap sem hefur haldist til þessa dags. Það var gaman að alast upp í Vogahverfinu á sjöunda áratugn- um þar sem allt var að gerast; við áttum skólahljómsveitina Orion, héldum hlöðuböll í skóla- stofum, skreyttum netadræsum og kúlum, þar sem við tvistuðum í takt við tóna Bítlanna og vöng- uðum við lagið The house of the rising sun. Í sportinu var Fram liðið og æft á Hálogalandi. Í des- embermánuði hófust metnaðar- fullar jólaskreytingar og ekki hætt fyrr en glugginn gaf rósa- glugga Notre Dame ekkert eftir og þegar hinn árvissi helgileikur hófst mátti sjá heilagleikann skína af andlitum vitringanna sem gengu hátíðlega niður stig- ann með englaskarann í eftir- dragi á fund þeirra Maríu og Jósefs. Það kom auðvitað í hlut Rannýjar að leika guðsmóðurina. Í Ármannsskála voru sagðar draugasögur en fljótlega hættu skipulagðar skíðaferðirnar í skól- anum að nægja klíkunni og þeg- ar Diddi fiðla fann Himnaríki, lít- inn skála í efstu hlíðum Bláfjalla, fórum við að venja komur okkar þangað. Okkur var dásamlegt frelsi að fá að vera ein heilu helg- arnar í þessum litla skála lengst uppi í fjalli og í minningunni var alltaf nægur snjór. Árin í Vogaskóla voru full af ærslum og hamingju þrátt fyrir sálræna og líkamlega kvilla sem fylgja því að vaxa upp úr barns- skónum og breytast í bólugraf- nar verur með feitt hár og allt of langa útlimi, sem létu illa að stjórn. Í hverri mynd sem minn- ingin kallar fram á Ranný heima því við löðuðumst að henni, og heimili hennar í Skeiðarvogi 77 varð fljótlega helsti samkomu- staðurinn þar sem við vorum allt- af velkomin. Heimilið var menningarheim- ili þar sem allir aldurshópar áttu samleið og virðing var borin fyrir unglingum. Samfélagið í kjallar- anum vakti sérstakan áhuga okk- ar félaganna og þegar Vala og Óli eldri systkini hennar höfðu hleypt heimdraganum var kjall- arinn okkar. Eftir að Vogaskólaárunum lauk voru skrifaðir nýir kaflar í lífsbókina, um sumarvertíð í Vestmannaeyjum, vinnu á Gamla Garði og á spítala heilags Jósefs í Kaupmannahöfn. Ranný þrosk- aðist vel, hún kunni að njóta lífs- ins, sagði einstaklega skemmti- lega frá og var gjarnan miðjan í hverju samkvæmi. Ranný litaði líf okkar sterkari og bjartari lit- um. Við þökkum æskuvinkonu okkar fylgdina og vottum eftirlif- andi eiginmanni hennar, börn- um, barnabörnum, Gunnu og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Katrín Theodórsdóttir, Eyjólfur Bergþórsson, Sigrún Bára Friðfinnsdóttir, Jón Birgir Indriðason, Sigrún Björnsdóttir. Þær eru margar minningarn- ar okkar æskuvinkvenna Höllu í saumaklúbbnum Kjaftó, úr Brekkubyggðinni. Við vorum einstaklega heppnar að kynnast Rannveigu, þessari fallegu konu, brosmildri og bjartri með fagn- andi fasi. Rannveig var mikill fagurkeri og fyrirmynd í að fagna lífinu og njóta augnabliks- ins. Það var alltaf gott að koma í heimsókn á þetta fallega heimili, tekið svo vel á móti öllum og Rannveig alltaf hress og kát og gaf sér tíma til að spjalla við okkur vinkonurnar og vildi gjarnan vera með í partíinu. Á unglingsárunum var ein- staklega heppilegt að Rannveig skyldi vera flugfreyja og bjarg- aði hún Kjaftóhópnum marg- sinnis með ýmsum varningi frá útlöndum, m.a. þegar Levi’s- gallabuxnaæðið gekk yfir. Hún flutti heilu ferðatöskurnar heim af gallabuxum fyrir hópinn í öll- um mögulegum litum og skildi svo vel að við yrðum að vera „smart“ og tolla í tískunni. Rannveig og Tolli hafa verið okkur í vinkonuhópnum mikill innblástur í gegnum tíðina og höfum við tekið okkur margt í fari þeirra okkur til fyrirmynd- ar. Hjólaferðir þeirra um Evr- ópu þóttu okkur svo spennandi að fertugsferð okkar var skipu- lögð í anda Rannveigar og Tolla. Halla er náttúrlega albesti ferðafélagi sem hægt er að hugsa sér og hefur vafalaust lært af meistaranum. Á síðasta ári náði Kjaftó loks- ins að hittast með mæðrum okk- ar eins og hafði lengi staðið til og var haldin glæsileg mæðgna- veisla, hlegið, sagðar sögur og skálað. Þetta er kær minning sem við varðveitum allar vel. Kæra fjölskylda. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúðar- kveðjur. Dýpsta sæla og sorgin þunga, svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra máli ei talar tunga, tárin eru beggja orð. (Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum) Guðbjörg, Harpa, Kristjana, Lovísa, Ósk og Sigrún. Elsku Ranný okkar. Það er óhugsandi að þú hafir kvatt fyrir fullt og allt þennan heim sem aldrei verður í jafn björtum litum. Við trúum því þó að þú dveljir í góðu yfirlæti í sumarlandinu þar sem sólin vermir og allt er jafnan í blóma. Síðustu daga og vikur hefur þú varla vikið úr huga okkar enda minningarnar um þig fjölmarg- ar. Það sem við erum heppin að hafa fengið að verða samferða þér í gegnum lífið. Takk Tolli! Samgangur milli fjölskyldn- anna tveggja, í B26 og B48, hef- ur ætíð verið mikill og þið fjöl- skyldan tókuð svo einstaklega vel á móti okkur er við fluttum, munaði ekki um að bæta fimm manns við áramótaborðið, hjálpa og leiðbeina í garðumhirðu og vera örlát á félagsskap. Eftir því sem árin hafa liðið hefur aldursbilið minnkað og var það óneitanlega mikið gæfuspor þegar Garðabæjarfrænkuklúbb- urinn okkar góði var settur á fót. Hvílík forréttindi að tilheyra hópnum og skapa allar minning- arnar sem honum hafa fylgt. Í hittingana hefur aldrei vantað fjörið né flottheitin á borðið eða ríflegt magn fljótandi veiga. Þar höfum við fengið tækifæri til að gera grín að Arasonbræðrunum, sem eru laumufrekir og veður- hræddir en svo dásamlega ynd- islegir, segja sögur, deila ráðum en umfram allt gráta úr hlátri. Stokkhólmsferðin okkar árið 2016 var algjör draumur og færði hún okkur enn nær hver annarri. Þá stendur upp úr þeg- ar Arna játaði ást sína á okkur öllum og stuttu seinna vorum við allar farnar að segja „ég elska þig“ hver við aðra og höfum ekki stoppað síðan. Frá Stokkhólms- ferðinni hefur hópurinn stækkað um þrjár fullkomnar dömur og gefið okkur annars konar en al- veg jafn yndislegar samveru- stundir. Litlu frænkurnar stálu senunni í síðasta áramótaboði og var svo gaman að bjóða þær vel- komnar í hópinn. Ekki er annað hægt en að rifja upp afmælið þitt fyrir tveimur árum þar sem ein gjöfin til þín var heimsókn hins eina sanna Friðriks Dórs, þótt þú hafir nú ekki alveg komið honum fyrir þig þegar hann gekk inn í garðinn með gítarinn. Kappinn náði þó að heilla þig upp úr skón- um með bröndurum, hrósum og söng sínum til þín um fröken Reykjavík. Við munum aldrei gleyma þeirri stund þar sem konurnar í lífi þínu héldust hönd í hönd í sólinni í garðinum þínum og sungu með Frikka: „Í síðasta skipti, haltu í höndina á mér og ekki sleppa …“ Allar þessar samverustundir með þér, og svo miklu fleiri, hafa gætt líf okkar gleði, hamingju og ást. Stærsta gjöfin sem þú hefur gefið okkur eru svo börnin þín sem við erum svo heppin að eiga dýrmætt og náið samband við og nú barnabörnin sem eru gleði- gjafarnir okkar allra. Elsku Ranný, þú verður áfram fyrirmynd okkar þegar kemur að æðruleysi, hugrekki, hlýju, glæsileika og reisn. Þú settir standardinn og kenndir okkur hvernig á að lifa lífinu lif- andi, kenndir okkur að maður kemst einfaldlega í gegnum allt vel tilhafður með fallega rauðan varalit og ekki verra ef eitthvað kalt er í glasinu. Þegar sólin skín úti minnumst við þín, glæsilegr- ar að vanda með varalitinn ferskan, og skálum fyrir þér. Ranný, við elskum þig! Fjölskyldan í B48, Björg Halldórsdóttir. MINNINGAR 17 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. MAÍ 2020 Elskulegur eiginmaður minn, faðir og tengdafaðir, HANS ÁRNASON Helgalandi 10, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni laugardaginn 16. maí. Útförin hefur farið fram í kyrrþey. Fríður Helga Hannesdóttir Guðmundur Örn Hansson Guðrún Tómasdóttir og fósturbarnabörn Ástkær faðir minn, stjúpfaðir, sonur, bróðir, fósturfaðir, afi, móðurbróðir, frændi og vinur, JÓN VILBERG HARÐARSON Hafnarstræti 37, Akureyri, lést af slysförum miðvikudaginn 20. maí. Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju mánudaginn 8. júní klukkan 13.30. Vilborg Díana Jónsdóttir Anna Anchali Jónsdóttir Sóley Halldórsdóttir Rannveig Harðardóttir og aðrir aðstendendur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.