Morgunblaðið - 15.06.2020, Síða 28

Morgunblaðið - 15.06.2020, Síða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 15. JÚNÍ 2020 Erla Hulda Halldórsdóttir beinir sjónum að tvíburasystkinunum Elínu og Páli með hliðsjón af menntun kvenna. Útgangspunktur umfjöll- unarinnar er fyrirlestur sem Páll flutti um frelsi og menntun kvenna árið 1885, en einkum er fjallað um leið Elínar til mennta og framlag hennar til kvenfrelsismála. Elín Briem var kennslukona við Kvennaskóla Skagfirðinga í tvo vet- ur, 1878-1880. Ráðning hennar snér- ist í og með um það að fá innansveit- arstúlku til að kenna, eins og Kristín systir hennar skrifar í bréfi til Hall- dórs bróður þeirra: Svo nú viljum við heldur fá kenslukonu innsveitis, ef hægt væri og er nú helzt í ráði að Ella kenni næsta vetur, eg hef predikað fyrir henni í vetur með reglu- semi og þrifnað og það vona eg hún láti sér verða hugfast, til handanna er hún fær um að kenna, og eg hef skrif- að Eiríki bróðir og beðið hann að leið- beina henni í því nauðsynlegasta til munnsins, hún verður nefnil. í Stein- nesi um tíma til að sauma skautbúning fyrir mágkonu okkar. Elín var ekki menntuð til kennslu- starfa frekar en aðrar konur og stúlkur sem tóku að sér kennslu þessi fyrstu ár kvennaskólanna en hún hafði góðan grunn að heiman. Og systkini hennar hjálpuðu til eins og sjá má í bréfinu, Kristín sjálf og séra Eiríkur bróðir þeirra, sem kenndi henni réttritun og reikning. Það að tefla Elínu fram sem kennslukonu virðist þaulhugsuð að- gerð Briem-fjölskyldunnar, þau sjá tækifæri í gáfum hennar og áhuga og hjálpast svo að við að móta hana og búa undir kennslustörfin. Ekki er annað hægt en spyrja hvort kennslu- konan Elín hafi átt að tryggja fjöl- skyldunni hlutdeild í þessu mik- ilvæga framfara- og jafnréttismáli kvenna. Þau voru nefnilega í harðri samkeppni við frændgarð sinn í Eyjafirði sem hafði komið Kvenna- skólanum á Laugalandi á fót sama ár og skagfirski skólinn tók til starfa. Á skólunum tveimur var þó talsverður munur hvað varðar aðstöðu og um- fang. Skólinn á Laugalandi var stærri þegar í upphafi og rekinn í sérstöku skólahúsi, auk þess sem fyrirkomulag og kennsla var með skipulegri hætti en í Skagafirði. Það voru börn og stjúpbörn Jóhönnu Gunnlaugsdóttur Briem í Laufási, systur Eggerts Briem sýslumanns, sem unnu að stofnun skólans. Fremstir í flokki voru synir hennar Eggert og Tryggvi Gunnarssynir en systir þeirra Kristjana Havstein amtmannsekkja lagði til húsið. Skólastýra var Valgerður Þorsteins- dóttir frá Hálsi í Fnjóskadal, ekkja eftir séra Gunnar Gunnarsson, son Jóhönnu. Valgerður hafði ekki aðra menntun en þá sem hún hafði fengið í foreldarahúsum, sem þótti raunar góð á íslenskan mælikvarða. Sjálf ef- aðist hún nokkuð um hæfni sína og úr varð að hún fór til Kaupmanna- hafnar að fyrsta skólaárinu loknu og var við nám við hinn þekkta Zahle- skóla einn vetur. Páll Briem skrifar Kristínu systur sinni einmitt frá Kaupmannahöfn í mars 1879 að Val- gerður lesi ensku og sitji í „Zahles- skóla og hlýðir þar á“. Óformleg menntun og þekkingaröflun var ekki síður mikilvæg og þar naut Val- gerður góðs af samveru við frænku sína Benedicte Arnesen-Kall, sem bauð henni m.a. til tedrykkju og að hlusta á fyrirlestur um kvenréttindi. Þegar Valgerður kom heim vorið 1879 hafði hún, og þar með Lauga- landsskólinn, aukið verulega forskot sitt á skóla Skagfirðinga. Briem- fjölskyldan hafði nokkrar áhyggjur af skólanum vegna smæðar og fjár- skorts og uppi voru hugmyndir um sameiningu við Laugalandsskólann 1878 og 1879 en úr því varð ekki. Eftir að hafa kennt tvo vetur í Skagafirði var Elín Briem í Reykja- vík sumarið 1879 til að læra söng og spila á harmóníum. Og hún sótti enskutíma hjá séra Matthíasi Joch- umssyni, sem þá var ritstjóri Þjóð- ólfs og hafði dvalið um tíma á Bret- landseyjum. Matthíasi leist vel á Elínu og skrifar vini sínum Halldóri E. Briem: „Elín litla þín fallega, blíða og „dóralega“ systir var hér í sumar og jeg hafði þá æru að segja henni til í ensku. Hún er brilíant höfuð; svo urðum við samferða austur í Kreppu og að Geisi og Gullfoss!“ Matthías kunni að meta gáfaðar konur og var kvenfrelsismaður sem studdi kröfur kvenna opinberlega, kom þeim jafn- vel til varnar þegar að þeim var veg- ið. Þriðja kennsluvetur sinn er Elín við kvennaskóla Húnvetninga og fær „hið bezta orð fyrir fjölhæfa mennt- un, kurteisi og alúð við kennsluna“. Sjálf sér hún enn betur og finnur tak- mörk þessarar stuttu menntunar sem skólarnir buðu upp á. Hún skrif- ar Halldóri bróður sínum í nóvember 1880: Það er eitt sem mjer þykir leitt við skagfirzka og húnvetnska skólann að það eru höfð níu vikna tímabil á þeim, svo allan veturinn eru stúlkurnar að fara og koma. Núna til jólanna eru vinnukonur hjer af bæjunum á skól- anum sem varla hafa dregið til stafs og sumar ekkert; þegar níu vikurnar eru úti er haldið próf, og má geta nærri að þetta verður ekki mikið sem þær læra. En þetta á nú að takast af með tím- anum. Námstíminn er of stuttur og of lít- ið sem lærist. Og sjálf þráir hún meira en fátt var í boði á Íslandi. Páll bróðir hennar er farinn til Kaup- mannahafnar eins og aðrir efnilegir strákar. Hann sigldi 1877, „fullur af undrun yfir borgunum“ sem hann sá á leið sinni. Það er einmitt til borgarinnar sem Elín vill fara, Kaupmannahafnar. Hún vinnur í málinu veturinn 1877– 1878 með aðstoð Halldórs en kostn- aðurinn stendur í fólki. Skilja má að Eggert sýslumaður eigi „bágt“ með að kosta dóttur sína til náms, jafnvel þótt frændfólkið ytra vildi gefa henni að borða. Hún gefur samt ekki upp vonina því kannski allt verði auðveld- ara þegar „Palli er búinn að vera eitt ár utanlands og þekkir allt þá svo vel“. En hvað ætlaði hún að læra? Best var auðvitað að læra til kenn- ara því þar var konum smám saman að opnast nýr starfsvettvangur á Ís- landi, bæði við kvennaskólana, barnaskóla og heimiliskennslu. Fátt annað var í boði nema vinnukonu- störf. Elín virðist þó ekki alveg viss og skrifar Páli að henni leiðist að kenna. Hann verður hissa og telur upp kosti kennslustarfsins í svarbréfi sínu. Sá sem fæst við kennslu „er að mörgu leyti óháðari við það starf en önnur“, segir hann, svo gefst tími til að hugsa og „starfa að ýmsu andlegu er maður vill fá framgengt“. Og hann spyr systur sína: „hvar er t.d. betra að koma inn hjá alþýðustúlkum sjálfsmeðvitund.“ Þetta eru athygl- isverð orð og í takt við hugmyndir um frelsi og jafnrétti nýrra tíma. Þarna getur systir hans haft mikil áhrif. Kannski hefur hún verið á sama máli því þegar upp var staðið hafði hún metnað til þess að kenna og sagði árið 1881 að kennslan væri orðin „lífsstarf hennar og hefði hún því mikinn hug á að mennta sig“. Leiðinn sem hún lýsti áður hefur ef til vill stafað af því að í starfi sínu fann hún vel hve mörgu var ábóta- vant, bæði við skólana og einnig hjá henni sjálfri sem kennslukonu. Og svo hefur hana ef til vill langað að læra eitthvað allt annað, sem ekki var praktískt uppi á Íslandi. Kenn- aramenntunin var í því samhengi mikilvæg, bæði svo hún gæti haft „of- an af fyrir sér sjálf“, eins og Páll seg- ir í bréfi til Kristínar, og að traust yrði borið til hennar sem kennslu- konu. Þetta snýst því að stórum hluta um að finna sér stað í samfélag- inu þar sem er hægt að koma að gagni en einnig njóta virðingar og sjálfstæðis. Í Kaupmannahöfn var í miklum metum áðurnefndur skóli fröken Natalie Zahle, en hún er einn merk- asti menntafrömuður Dana á 19. öld. Hún vildi breyta og bæta menntun kvenna, stokka upp gömlu kvenna- og stúlknaskólana sem höfðu verið starfandi í Danmörku frá því undir lok átjándu aldar. Fröken Zahle stofnaði sinn eigin stúlknaskóla árið 1851 og byggði smám saman upp stórveldi í menntun kvenna. Hún var ekki kvenfrelsiskona í okkar skiln- ingi þess orðs en hún vildi að konur hefðu val og tækifæri, að þeim gæfist færi á að þroska sitt persónulega sjálf og nýta hæfileika sína. Zahle kom á kennslukvennadeild við skól- ann árið 1860, enda konur að fikra sig meira inn í þau störf og fá rétt til þess að kenna við barnaskóla. Við skólann var einnig rekin einhvers konar lýðháskólabraut og þegar danskar konur fengu aðgang að Kaupmannahafnarháskóla (1875) kom hún á stúdentsprófsbraut (1877). Skóli fröken Natalie Zahle var því ekki „húshaldsskóli“ eða hús- mæðraskóli, heldur framhaldsskóli. Zahle-skólinn var vel þekktur á Ís- landi. Þóra Melsteð horfði að ein- hverju leyti til hans þegar hún skipu- lagði Kvennaskólann í Reykjavík. Eins og áður er nefnt var Valgerður Þorsteinsdóttir við skólann veturinn 1878–1879 og um miðjan sjötta ára- tuginn var Þórunn Hafstein, síðar Jónassen (sem löngu síðar, árið 1908, var ein fjögurra kvenna sem náði kjöri í bæjarstjórn Reykjavíkur af sérstökum kvennalista), í námi við skólann, aðeins 14 ára. Hún var stjúpdóttir Kristjönu Havstein. Páll ræðir möguleika Elínar fram og til baka í bréfi til Kristínar systur þeirra vorið 1881. Hann styður tví- burasystur sína til náms enda veit hann að mennti hún sig til kennara gæti hún fengið starf við einhvern barnaskólann sem nú eru settir á fót hver á fætur öðrum og hún fengi betri laun. Kona með brilljant höfuð Bókarkafli | Páll Briem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Íslands á seinni hluta 19. aldar og markaði víða spor í íslensku þjóðlífi þó að hann næði ekki háum aldri. Í bókinni Hugmynda- heimur Páls Briem skrifa sjö sagnfræðingar um Pál Briem í ljósi sinnar sérþekkingar og ferill Páls er greindur út frá ýmsum sjónarhornum. Elín Briem Var kennslukona við Kvennaskóla Skagfirðinga í tvo vetur. Hólshraun 3 · 220Hafnarfjörður · Símar: 555-1810, 565-1810 · Netfang: veislulist@veislulist.is · www.veislulist.is Skútan Sjá verð og verðdæmi á heimasíðu okkar www.veislulist.is Fagnaðir Næst þegar þið þurfið pinnamat, smurt brauð eða tertur fyrir útskriftina eða annan mannfagnað, hafðu þá samband og fáðu tilboð í sal okkar og veitingarnar þínar. PINNAMATUR Veislur eru okkar list! Bjóðum uppá fjölda tegundapinnamats og tapasrétta Pinna- og tapasréttir eru afgreiddir á einnota fötum, klárt fyrir veisluborðið.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.