Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.08.2020, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.08.2020, Blaðsíða 10
Í nýjum húsakynnum CCP-tölvuleikja- fyrirtækisins í Vatnsmýrinni á blaða- maður stefnumót við Ásu M. Ólafs- dóttur, sem starfar í mannauðs- deildinni. Nú, þegar hálft ár er liðið frá því að fyrstu Íslendingarnir greindust með veiruna, eru langtímaafleiðingar hennar smátt og smátt að koma í ljós. Morgunblaðið mun skoða á næstu vikum þessi mál frá ýmsum hliðum, en við gefum Ásu hér fyrst orðið. Hún er enn að glíma við afleiðingar kórónu- veirunnar og er óhætt er að fullyrða að veiran olli meiri usla í líkama hennar en í mörgum öðrum sem hana hafa fengið. Hún segir að á þessum sex mánuðum hafi sér aðeins liðið full- komlega eðlilega einn dag. Hinir dagarnir hafa verið skárri, verri og sumir hreinasta skelfing. Yfirlið í tíma og ótíma „Ég kom frá París 18. febrúar og nokkrum dögum síðar, þann 24. febrúar, byrjar að líða yfir mig í tíma og ótíma. Þann daginn byrjaði ég hjá sjúkraþjálfara og það leið yfir mig á bekknum. Seinna var ég að taka viðtal við nýj- an starfsmann og það leið yfir mig,“ segir Ása, sem leist ekki á blikuna og lét keyra sig á heilsugæsluna þar sem tekið var hjartalínurit sem reyndist eðlilegt. „Það leið yfir mig nokkrum sinnum í viðbót en sem betur fer var ég alltaf sitjandi eða liggjandi,“ segir hún og lýsir þessu sem stutt- um yfirliðum. „Um kvöldið var ég í fjölskyldumatarboði og hrundi utan í dóttur mína. Þá fór ég upp á bráðadeild og var tengd við hjartarita og þá komu tvö yfirlið í viðbót. Dóttir mín varð dauð- hrædd, því hún sá að hjartslátturinn fór undir þrjátíu slög á mínútu. Ég var þá lögð inn á hjartadeild og lá þar í tvo daga, og var svo send heim með holter, sem er tæki sem fylgist með hjartslætti í tvo sólarhringa,“ útskýrir Ása. Henni var tjáð að það gæti tekið 10-12 daga að fá niðurstöður. „Ég sagði hjúkrunarfræð- ingunum að mér liði svo illa að það væri erfið tilhugsun að bíða svo lengi. Tveimur tímum síðar var hringt og ég fékk tíma á mánudeg- inum en þá átti að setja í mig gangráð,“ segir Ása og segist afar þakklát fyrir skjót viðbrögð. Ása fór í aðgerð og fékk gangráð og dagana á eftir fékk hún háan hita, en þegar þarna er komið sögu er kominn 3. mars. Neikvætt úr prófum „Alveg frá því nokkrum dögum eftir heim- komuna frá París hafði ég fundið fyrir mikilli vanlíðan í skrokknum, sem er erfiðasta ein- kennið sem ég hef verið að kljást við. Þegar ég fékk þennan háa hita fór ég bráðadeildina því ég var svo hrædd um að það væri komin sýking í skurðinn vegna aðgerðarinnar. Á þessum tíma var farið að bera á kórónuveir- unni hérlendis og var ég spurð ýmissa spurn- inga. Ég var svo sett í sérherbergi og þar kom enginn inn nema vel varinn. Ég áttaði mig fljótt á því að læknirinn hélt kannski að ég væri með Covid. Ég fór bara að hlæja og spurði hann hvort hann héldi það virkilega. En eftir á skildi ég það að einkennin mín pöss- uðu við einkenni Covid. Ég var með mikinn þurran hósta. Það voru gerð einhver próf á mér og hann taldi upp inflúensu og fleira, og kórónuveirupróf. Þannig að ég fór þaðan viss um að ég væri ekki með Covid af því það kom neikvætt út úr öllum prófum. Ég fór þá heim og losnaði fljótt við hitann en við tók mjög skrítinn tími. Vanlíðanin var alveg svakaleg. Mér leið ömurlega! Ég sagði skurðlækninum að mér liði mjög illa og mér fannst að hann héldi að ég væri bara hysterísk kerling,“ segir hún. „Svo fer að líða á mars og mér líður áfram illa en á þeim tíma unnum við öll heima. Ég sat heima og reyndi að vinna en var alveg svaka- lega slöpp. Ég er með langan lista af einkenn- um. Ég sat þarna kannski í tveimur peysum og með sæng en var samt með hroll. Í hádeginu fór ég inn í rúm og skalf þar og oft komst ég ekkert aftur fram að vinna og tilkynnti mig veika.“ Sterkt mótefni við Covid „Eftir nokkrar vikur hafði ég samband við heimilislækninn og ég lærði fljótt að fara að skrá allt hjá mér, því minnið er í klessu. Það er eitt af mörgum einkennum hjá mér. Ég man ekkert stundinni lengur. Ég lýsti þessari líðan fyrir heimilislækninum sem kom alveg af fjöll- um. Hún sendi mig í Covid-próf, sem ég hélt þá að væri númer tvö, en það kom út nei- kvætt,“ segir hún og útskýrir að of langt hafi verið liðið frá heimkomunni frá París til þess að veiran mældist. „En vegna þess að mér leið svo ömurlega og ekki var hægt að finna skýringar, var ég send til læknis á Landspítalanum sem ég kalla bara Dr. House,“ segir hún og útskýrir að þarna hafi verið komið fram í maí. „Þá var farið í gegnum allt og allt rannsakað. Hann setti mig í mótefnamælingu og fleiri próf. Læknirinn hringdi í mig og sagði öll próf hefðu komið vel út, en að ég væri með sterkt mótefni við Covid. Sem þýðir það að ég hafi verið með Covid. Þetta var rosalegur léttir; þarna fékk ég staðfestingu á að ég væri ekki að missa vitið,“ segir Ása og segir það hafa skipt öllu máli að fá þessa greiningu. Ekki bara fékk hún staðfest- ingu á að einkennin ættu sér skýringu, heldur einnig að hún væri ekki með einhvern sjaldgæf- an ólæknandi sjúkóm. Það kom svo síðar í ljós að ekki hafði verið tekið Covid-19-próf í þessari fyrstu ferð upp á bráðadeild, heldur einungis verið prófað fyrir inflúensu og öðrum kórónuveirum. „Ég skil ekki af hverju ég var ekki prófuð þarna í byrjun mars; þá hefði ég fengið stað- festinguna þá en ekki þurft að bíða fram í maí.“ Versta sem ég hef upplifað Áður en þessi niðurstaða kom loks, hafði Ásu liðið illa í um tvo mánuði, án skýringa, og var að vonum orðin úrkula vonar að fá að vita hvað væri að sér. „Ég var búin að gúggla allt milli himins og jarðar, en ég fann aldrei neitt sem passaði. Ég er 52 ára gömul og hef gengið í gegnum ýmis veikindi og ég hef fætt barn. En ég get sagt þér, mér hefur aldrei liðið jafn illa eins á þess- um tíma. Ég man eftir þremur skiptum sem mér leið svo illa að ég hugsaði; „jæja, er komið að því, er ég virkilega að deyja?““ Hvernig myndir þú lýsa þessu, varstu með verki? „Nei, það er nefnilega það skrítna. Þetta voru ekki beint verkir sem ég fékk,“ segir hún en segist þó hafa fengið verki í fingur og tær. „Verstu verkirnir voru í fingrum og tám. Ég gat ekki beygt fingurna og var farin að troða þeim undir kodda á nóttinni til að halda þeim beinum. Þetta hélt fyrir mér vöku margar nætur. Því ef ég beygði þá, kom svo mikill verkur. Þetta var svona í tvo til þrjá mánuði. En það sem var verst var þessi vanlíðan, sem er svo erfitt að lýsa. Þetta er ekki verkur. Al- veg eins og flökurleiki er ekki verkur, heldur afleiðing af einhverju sem er að gerast í melt- ingarkerfinu, þá var þetta svakaleg vanlíðan í líkamanum. Stundum kom þetta í eins konar hviðum eða flogum,“ segir Ása. „Sem betur fer hafa þessi köst minnkað mikið. Þetta var það versta sem ég hef upplifað á ævinni.“ Loft eins og besta sælgæti Ása hefur lesið sér mikið til um kórónuveiruna og áhrif hennar. Hún segist hafa fundið fólk á netinu sem lýsi nákvæmlega sömu einkennum og eftirköstum og hún hefur upplifað. „Ég er í þremur Facebook-hópum, tveimur erlendum og íslenska hópnum Við fengum Covid-19. Það er er langbest að vera í þessum íslenska, en þar eru auðvitað ekki svo margir miðað við hina hópana. Þar er fólk að lýsa ein- kennum og aðrir eru nýgreindir og leita eftir stuðningi. Það er alveg fullt af einkennum og fæstir fá þau öll. Ég hef sloppið við langvar- andi háa hita og hitatoppa, en sumir eru að fá hita löngu eftir greiningu. Ég fékk ekki magaeinkenni og hef ekki verið með hárlos eða dofa í útlimum. Ég missti ekki bragðskyn en var hins vegar með skrítið málmbragð í munninum og það kannast margir við það,“ segir hún. „Algengt er að fólk tali um hjartsláttinn; að hann sé ýmist of hægur eða of hraður. Gang- ráðurinn minn heldur mér gangandi en ég sé það á úri hvenær það er sem gangráðurinn er að vinna. Það var verst þegar hjartslátturinn varð ör og ég vaknaði með þungan og harðan hjartslátt um miðjar nætur, en það kom fyrir í marga mánuði eftir að ég veiktist.“ Ása segir fólk í hópnum einnig tala um hversu erfitt það eigi með öndun og sumir lýsa einnig skerandi verkjum og stingjum. „Ég upplifi það þannig að ég fái ekki nóg súrefni. Í langan tíma dró ég alltaf andann djúpt þegar ég kom út undir bert loft. Loftið var eins og besta sælgæti. Fólk er að berjast við lungnaeinkenni á meðan það er með vírus- inn og oft lengi á eftir,“ segir hún. „Annað sem fólk ræðir um er heilaþoka. Bæði sljóleiki og líka það að missa getuna til að finna orð og setja saman setningar. Ég hef þurft að afsaka mig á fundum þegar ég kem ekki frá mér því sem ég vil segja. Ég bý stund- um til ný orð af því ég finn ekki orðin. Mögu- lega er þetta afleiðing af svefnleysi; það er erf- itt að segja.“ Get stundum ekki haldið á síma Þann 24. ágúst var nákvæmlega hálft ár síðan Ása upplifði fyrstu einkennin. Hún segir framfarirnar hægar og þarf hún að horfa mánuð aftur í tímann til að greina þær. „Ef ég horfi til baka sé ég að ofsaþreytu- köstin eru færri núna og þau eru ekki jafn svakalega erfið. En til að byrja með, þegar það gerðist, gat ég ekki staðið í fæturna og þegar ég var upp á mitt versta lagðist ég bara í fósturstellinguna. Það gerðist síðast í gær- kvöldi í miðju matarboði,“ segir Ása og segist í raun aldrei gera nein plön lengur því hún viti aldrei hvernig heilsan verði. „Í gær fór ég af því boðið var með nánum vinum. En svo þurfti ég að leggjast í sófann í mína fósturstellingu og biðja dóttur mína um að sækja mig. Systir mín hringdi í mig en ég treysti mér ekki til að halda á símanum. Ég get stundum ekki haldið á síma.“ Ása segist hafa getað mætt nokkuð vel til vinnu, aðallega sökum þess að hún getur setið við vinnuna. „Það væri ekki séns að ég væri í vinnu ef ég þyrfti að standa.“ Hún segist hafa mætt mikilli velvild hjá yfir- manni og starfsfólki og fær hún að fara heim þegar henni líður sem verst. „Þú vilt ekki fá þetta!“ Í hálft ár hefur Ása M. Ólafsdóttir glímt við kórónuveiruna, einkenni hennar og eftirköst og sér ekki fyrir endann á því. Vanlíðanin sem fylgt hefur veikindunum hefur verið svo slæm að Ásu leið nokkrum sinnum eins og hún væri hreinlega að deyja. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’En ég get sagt þér, mér hefuraldrei liðið jafn illa eins áþessum tíma. Ég man eftir þrem-ur skiptum sem mér leið svo illa að ég hugsaði; „jæja, er komið að því, er ég virkilega að deyja? KÓRÓNUVEIRAN 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30.8. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.