Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.08.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.08.2020, Blaðsíða 15
tvinni, hvað þá meira. „Ég lét gera saumastofu í íbúðinni á efstu hæðinni í Gamla bíói, þar sem nú er Pedersen-svítan, og var svo á þönum upp og niður þrönga stigana allan daginn; niður á svið og niður í búningsherbergin í kjallaranum, þar sem varla var hægt að standa uppréttur. Ætli þetta hafi ekki verið á bilinu þrjátíu til fimmtíu ferðir á dag, þegar atgangurinn var mestur.“ Að vonum þurfti mikið að útrétta og Dóra fór allra sinna ferða á reiðhjóli sem var sjald- gæf sjón á Íslandi á þeim árum. „Ég varð fljótt þekkt í bæjarlífinu enda að jafnaði með tutt- ugu poka og töskur á hjólinu. Þess utan var ég með símboða sem pípti stanslaust á mig.“ Hún hlær. Hún veit ekki hvernig það atvikaðist en tveimur tímum fyrir fyrstu frumsýningu stóðu þær Ólöf Kolbrún Harðardóttir söngkona í anddyrinu hvor með sinn Ajax-brúsann að pússa glerskápa. „Það gengu allir í öll verk til að draumurinn um óperu yrði að veruleika.“ Dóra hefur mikið unnið við auglýsingagerð gegnum tíðina og tekið þátt í herferðum út um allan heim. Hún er hugsi yfir þeirri ákvörðun ís- lenskra stjórnvalda að ráða breska auglýs- ingastofu til að ráðast í herferð til að vekja at- hygli á Íslandi á tímum kórónuveirunnar. Öskurherferðina svokölluðu. „Ef ég á að vera al- veg heiðarleg þá fékk ég hreinlega hland fyrir hjartað; þessi herferð er svo ömurleg. Breska stofan segir að þeir hafi náð til eins og hálfs milljarðs manna og svo sem engin ástæða til að rengja það. Ég er hins vegar með aðra hugmynd sem ég gef Íslandsstofu hér með og íslensku þjóðinni. Við Íslendingar eigum alveg ofboðslega marga flotta tónlistarmenn sem margir hverjir eru þekktir á heimsvísu. Nægir þar að nefna Björk, Sigur Rós, GusGus, Bríet og Kaleo. Í næstu herferð á Íslandsstofa að ráða þetta fólk og fleiri íslenska tónlistarmenn til að kynna Ís- land. Það er líka áríðandi að Bubbi Morthens verði með. Hann er kannski ekki eins þekktur erlendis og þetta fólk en mikill óslípaður dem- antur í íslenskri tónlist og þjóðfélaginu öllu og fyrir vikið ómissandi í verkefni sem þessu. Eins yrði gaman að ungi söngvarinn Auður tæki þátt í þessu og fleiri mætti nefna. Þetta fólk tæki svo upp tónlist við allar okkar helstu náttúruperlur. Betri landkynningu gætum við ekki fengið; bara Björk nær til tveggja milljarða manna á einum eftirmiðdegi. Þetta yrði að sjálfsögðu gert með íslenskum kvikmyndagerðamönnum.“ Sjálf hefur Dóra verið dugleg að kynna land og þjóð á ferðum sínum erlendis. Hún kveðst gjarnan taka með sér kassa af íslenskum ljós- myndabókum sem hún gefur svo vinum. „Það er svo mikið karma í þessu. Einu sinni var Ronnie Wood með eina af þessum bókum – ég man ekki hverja – á sófaborðinu hjá sér þegar afkasta- mikill framleiðandi kom í heimsókn. Það varð til þess að ég fékk símhringingu til Amsterdam þar sem ég bjó, sem snerist um að gera mynd- band á Íslandi með vinsælustu poppstjörnu Jap- ans á þeim tíma. Hingað kom fjörutíu manna tö- kulið og myndbandið var tekið upp í Jökulsár- lóni. Poppstjarnan stóð á einum jakanum í lóninu í Gefjunarúlpu og stígvélum sem ég var búin að klæða hann í og þar sem ekki var hægt að leigja þar til gerðan kvikmyndabúnað fyrir þyrluna hér á landi hékk tökumaðurinn í gúmmislöngu innan úr dekki niður úr þyrlunni. Þetta var stórhættulegt en við létum okkur hafa það. Og efnið sem kom út úr þessu var frábært.“ Í annað skipti bauð tískuhúsið Christian Dior hingað tvö hundruð blaðamönnum alls staðar að úr heiminum í tengslum við markaðssetningu á herrailminum Fahrenheit þegar hann kom á markaðinn. Dóra tók þátt í að skipuleggja það verkefni þegar hún bjó í London og var farið með hópinn um allt land. Hátíðarkvöldverður var á Hótel Íslandi, en matreiðslumönnum, mat og kampavíni var flogið frá Frakklandi með einkaþotu, þar sem þeir trúðu ekki að góða kokka væri að finna hérlendis. Dóra skipulagði dagskrá með hljómsveit og dönsurum en til að hressa upp á salinn skreytti hún hann með hraungrjóti og allir blaðamennirnir voru leystir út með gjafapokum þar sem m.a. var að finna lopapeysur og ljósmyndabækur um Ísland. Sendi Dolph Lundgren heim Þá var tónlistarkonan og fyrirsætan Grace Jon- es einu sinni mynduð á Íslandi. „Við Grace kynntumst í New York og erum góðar vinkonur. Hún hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og heimsótt mig til bæði London og Amster- dam. Grace er bæði skemmtileg og orkumikil og enn í fullu fjöri. Þannig gekk hún tískupallinn í París í fyrra, þá 71 árs gömul. Geri aðrir betur! Grace var með Dolph Lundgren leikara á þess- um tíma en ég hef aldrei þolað hann og bað hana um að losa sig við hann. Og Grace gerði það, sendi Dolph bara heim. Við vorum rosalegar.“ Hún hlær. „Grace ætlaði að vísu ekki að nenna í myndatökuna hjá Antoni vini mínum Corbijn. Hann er frábær listamaður og flottur náungi sem aldrei hefur drukkið né reykt. Ég lagði hins vegar hart að henni og hún lét á endanum undan. „Gefðu mér þrjá tíma í förðun,“ sagði hún og síðan brunuðum við úr bænum. Þá tók Anton þessa heimsfrægu mynd í Almannagjá sem birtist á forsíðu New Musical Express.“ – Er mikið sukk í þessum bransa? „Mörg okkar lifðu dálítið hröðu lífi. Ég ætla ekki að draga úr því.“ Hún glottir. – En þú sjálf? „Ég hef hvorki drukkið né tekið lyf í mjög mörg ár.“ – Var erfitt að venja sig af því? „Ég leitaði mér aðstoðar.“ Ekkert eins gefandi Í dag vinnur Dóra mest sem innanhússhönnuður, hefur að mestu lagt búningana frá sér. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og arkitektúr og alltaf gert smávegis af þessu gegnum tíðina. Ég vinn minna en ég gerði áður; tek að mér eitt og eitt verkefni en fæ heilmikla næringu úr því.“ Hún fær ekki síður næringu úr sjálfboða- vinnunni sem hún sinnir á meðferðarstöðinni Dennicketorp í Svíþjóð en hún býr þar í landi hluta ársins. Vinkona hennar, Lísa, Elísabet Bjarnadóttir, hefur rekið stöðina í 25 ár en hún er fyrir þá sem þurfa á langtímameðferð að halda. Um er að ræða hefðbundna tólf spora meðferð en einnig er mikið lagt upp úr hreyf- ingu, útivist, jóga og starfsþjálfun. „Ég ver frítíma mínum talsvert þarna við að hjálpa fólki, Íslendingum og Svíum, sem koma í meðferð og styð við bakið á því meðan það er að snúa við blaðinu og vinna í sínum málum. Það er ekkert eins gefandi og að sjá þetta fólk koma aftur undir sig fótunum. Um daginn fékk ég símtal frá ungum sjómanni sem sagði mér að hann væri kominn inn í Stýrimannaskólann. Það er fallegasta gjöf sem ég hef fengið lengi.“ Öruggari í Svíþjóð en á Íslandi Dóra var í Svíþjóð þegar kórónuveirufarald- urinn braust út í Evrópu fyrr á árinu og segir það hafa ýft upp sárar minningar frá því hún bjó í New York í byrjun níunda áratugarins og alnæmisfaraldurinn stakk sér þar niður. „Munurinn er auðvitað sá að alnæmi lagðist til að byrja með fyrst og fremst á samkynhneigða karlmenn og ég missti marga góða vini, hár- greiðslumenn, förðunarfræðinga, danshöfunda og aðra. Ég er hrædd um að kórónuveiran eigi eftir leika okkur grátt næstu tvö árin eða svo og veit til þess að húsnæði á Manhattan hefur lækkað um 20-30%. Það eru margir að selja og flýja til Evrópu, hafi þeir efni á því, eða þá til Utah, Colorado og Flórída.“ Svíar hafa sætt gagnrýni vegna þess hvernig þeir hafa tekið á veirunni en Dóru finnst hún eigi að síður vera öruggari þar en á Íslandi. „Ástæðan er sú að við Íslendingar kunnum ekki að fara eftir reglum og standa í röð. Það er líka landlægur andskoti – afsakaðu orðbragðið – að fólk þvær sér ekki einu sinni um hendurnar eftir að hafa farið á klósettið. Svíar kunna allt þetta og þegar ég fór seinast í klippingu úti þá leið mér eins og ég væri á leið í skurðaðgerð, svo vel var gætt að sóttvörnum. Svíar hafa aukið til muna á hreinlæti sitt og fyrir vikið hafa engar umgangspestir verið í gangi. Sjálf er ég alltaf með sprittflösku, einnota hanska og grímu í veskinu mínu. Hvert sem ég fer. Þegar allt kem- ur til alls er þetta undir okkur sjálfum komið. Við verðum að temja okkur nýjan lífsstíl og leggjast á eitt í baráttunni við þennan vágest.“ Aldrei einmana Við komum að lokum að persónulegum högum Dóru en hún er ógift og barnlaus. „Ég hef ekki eignast börn sjálf en er eigi að síður rosalega rík þegar kemur að börnum. Ég á minn hlut í börn- um og barnabörnum systkina minna og nánustu vina. Svo hefur starf mitt með fíklunum gert mig enn þá ríkari. Ég hef eignast mörg börn þar og fallegu skilaboðin sem ég fæ reglulega eru ómetanleg. „Góðan dag, Dóra mín. Mér þykir vænt um þig.“ Þetta er mitt ríkidæmi.“ – Hvað með ástina? „Ég á nokkur sambönd að baki, þar af eru fjórir menn sem ég hef elskað. Ég er í sam- bandi við þá alla í dag og elska þá alla á minn hátt. Í þrígang hef ég fengið bónorð; það sérstakasta nokkuð óvænt í hinni frægu Emp- ire State-byggingu. Botnaði ekkert í því hvað maðurinn, sem ég var að slá mér upp með, vel ættaður Bandaríkjamaður og mjög þekktur listamaður í dag, var fínn í tauinu þegar hann bauð mér út að borða á The Russian Tea Room þetta kvöld. Eftir matinn fór hann með mig í einkaíbúð efst í Empire State og þaðan út um svalahurð og upp á þak. Þar dró hann úr pússi sínu öskju og bað mín. En ég var ekki tilbúin í hnapphelduna. Ég hef verið ein býsna lengi en er samt aldrei einmana. Ég hef tónlistina.“ „Ég er svo mikil pjattrófa að ég þarf að fara í hárgreiðslu og förðun fyrir myndatökuna,“ sagði Dóra Ein- arsdóttir hlæjandi. Hárgreiðslu- meistari hennar er Svavar Örn hjá Senter og förðunarmeistarinn Elín Reynisdóttir með Sensai. Morgunblaðið/Árni Sæberg 30.8. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Fyrir nokkrum árum tók Dóra ákvörðun um að rifa seglin. „Eftir að hafa starfað sem búningahönnuður út um allan heim í um fjörutíu ár ákvað ég að segja þetta gott,“ segir hún. „Þótt starfið sé gefandi og skemmtilegt þá er vinnutíminn langur, eins og ég hef komið inn á, og mér fannst ég vera að missa af svo miklu. Þess vegna hætti ég störfum og ætlaði bara að slaka á og njóta lífsins. Það gekk ágætlega í nokkra mánuði en síðan hrundi ég einfaldlega. Það er engin ástæða til að sykurhúða það; ég lenti bara á vegg. Af einhverjum ástæðum var öll orka úr mér, þessari lífsglöðu og orkumiklu manneskju og ég bara skugginn af sjálfri mér.“ Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem slík vanlíðan knúði dyra og Dóra ákvað að leita til geðlæknis með eftirfarandi spurningu á vörum: „Hvað er eiginlega að gerast? Ég þekki bara ekki sjálfa mig. Ég er ekki leng- ur Dóra. Niðurstaðan var sú að ég var sett á frægt geðlyf en varð ekkert betri. Þvert á móti bara verri. Ég kom aftur til læknisins eftir þrjá mánuði og þá var ég komin með svefntruflanir líka. Þá voru mér gefin kvíðalyf og svefnlyf ofan í geðlyfið. Ekki batnaði ástandið við það og ég var orðin óþekkjanleg. Mér varð ekkert úr verki; ég gat varla tekið til heima hjá mér.“ Vinir og ættingjar Dóru voru farnir að hafa áhyggjur og besti vinur hennar, Frið- björn Sigurðsson læknir tók hana á teppið. „Hann sá að eitthvað mikið var að; ég væri al- veg hætt að hlæja og hafa gaman af lífinu. Hann skipaði mér strax að fara að hreyfa mig meira, hjóla, ganga, synda, og það sem meira var, aftur að vinna. Ég þoldi greinilega ekki að hætta að vinna. Ég hafði svo sem ekki áttað mig á þessu en Friðbjörn hafði lög að mæla; ég fór að ráðum hans og smám saman hætti ég að taka lyfin. Ég þoldi þau greini- lega ekki, þau unnu beinlínis á móti mér; ég var komin á blóðþynningu og hvaðeina. Þetta ástand varði í tvö ár en ég náði fullum bata. Í dag tek ég engin lyf, bara vítamín.“ Mikið hefur verið rætt um kulnun í starfi undanfarin misseri en ef til vill minna um kulnun á eftir starfi, eins og Dóra virðist hafa upplifað. Sem er allt annar hlutur. Tapaði gleðinni Dóra kveðst kunna enn þá betur að meta líf- ið eftir þetta óvænta áfall og gera sér grein fyrir því að þunglyndi og kvíði fari ekki í manngreinarálit; stingi sér alveg eins niður hjá atorkusömu og glaðlyndu fólki og öðr- um. „Það átti greinilega ekki við mig að setjast í helgan stein. Ég tapaði gleðinni og hætti að syngja og dansa og við lá að ég hætti að hlusta á tónlist líka – sem er hjart- að í mér. Þá hefði allt verið farið. Ég áfellist ekki geðlækninn minn; hann var bara að vinna vinnuna sína og mat stöðuna svona. Ég held samt að læknar ávísi almennt alltof miklum lyfjum. Auðvitað geta lyf komið að gagni en hvernig væri að skrifa meira upp á hreyfingu og önnur úrræði? Það hjálpaði mér alla vega mun meira en nokkurn tíma lyfin.“ Ég er ekki lengur Dóra

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.