Morgunblaðið - 03.09.2020, Blaðsíða 34
34 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. SEPTEMBER 2020
Aðalstræti 2 | s. 558 0000
• Humarsúpa
• Nauta piparsteik
• Súkkulaði Lion Bar
Kynningarverð 5.990 kr.
Fullt verð: 8.990 kr.
Fordrykkur fylgir hverri 5.000 kr. ferðagjöf
STEIKARVEISLA
BAKSVIÐ
Gunnar Valgeirsson
gval@mbl.is
Leikmenn í NBA-körfuknattleiks-
deildinni hér í Bandaríkjunum mót-
mæltu kynþáttamisrétti og lögreglu-
ofbeldi í síðustu viku með því að neita
að mæta í leiki í þrjá daga. Þetta
gerðist með samþykki forseta deild-
arinnar, Adam Silver, sem hefur mót-
að nýja leið í að reka eina stærstu at-
vinnuíþróttadeild í heiminum.
Eftir að leikmenn Milwaukee
Bucks ákváðu á miðvikudag, án sam-
vinnu við önnur lið, að neita að fara til
leikvallarins frá búningsherberginu í
viðureignina við Orlando Magic í úr-
slitakeppni deildarinnar (í „kúlunni“
svokölluðu í Disney World), tók Sil-
ver sig til og frestaði restinnni af
leikjunum þann dag. Eins og undir-
ritaður greindi frá á íþróttasíðu
Morgunblaðsins á laugardag leiddi
þessi ákvörðun leikmanna Bucks til
tilfinningaþrunginnar umræðu meðal
allra leikmanna liðanna það kvöld,
sem að lokum leiddi til frestunar
leikja fimmtudagsins þannig að öll
liðin í úrslitakeppninni frestuðu leik
til að styðja mótmælin.
Þessi mótmæli breiddust út til
annarra íþróttadeilda samdægurs og
var þónokkur samstaða við NBA-
leikmennina meðal íþróttafólks í öðr-
um íþróttum, s.s. MSL-knattspyrnu-
deildinni, NHL-íshokkídeildinni,
MLB-hafnaboltadeildinni og jafnvel
meðal NFL-ruðningsliðanna, sem nú
eru að æfa stíft fyrir byrjun keppnis-
tímabilsins. Slík samstaða meðal at-
vinnuíþróttafólks þegar kemur að
kynþáttajafnrétti og lögregluofbeldi
er einsdæmi í sögu íþrótta hér í
Bandaríkjunum.
Það hafa vissulega verið mótmæli
meðal atvinnuíþróttafólks í gegnum
söguna (s.s. Muhamed Ali, Billie Jean
King, og Arthur Ashe) þegar kemur
að mannréttindum, en aldrei áður
jafn víðtæk og í síðustu viku.
Lögregluofbeldi ekki
óhjákvæmilegt
Þessi mótmæli gerast á sama tíma
og kosningabaráttan fyrir forseta-
kosningarnar í nóvember er nú kom-
in á fullt eftir flokksráðstefnur demó-
krata og repúblikana, og sýnist sitt
hverjum. Yfirhöfuð er töluverður
stuðningur hér í landi við þessi mót-
mæli leikmanna, þótt stuðningsfólk
Trumps forseta sé á bandi hans í að
gagnrýna þau.
Mótmælin hafa beint athyglinni að
mikilvægu og langvarandi vandamáli
kynþáttahaturs og kynþáttamis-
réttis, sem teygir sig inn í starf lög-
gæslustofnana. Það sem gerst hefur
á undanförnum áratug er að eftir að
snjallsímar urðu útbreiddir var mun
algengara að almenningur færi að
taka upp myndbönd af ofbeldi lög-
regluþjóna á almannafæri, sér-
staklega ofbeldi gegn blökkufólki.
Fólk í minnihlutahópum hefur ávallt
verið meðvitað um þetta ólöglega of-
beldi, en eftir að myndbönd af ofbeld-
inu voru birt á netinu, urðu hvítir
Bandaríkjamenn meira meðvitaðir
um vandamálið. Af þeim sökum hefur
lögregluofbeldi orðið að meiriháttar
þjóðfélags- og stjórnmálalegu deilu-
máli, því myndböndin koma nær
vikulega.
Það sem hefur raskað vitund
margra hvítra í þessu máli er hversu
fljótir sumir lögregluþjónar eru að
beita skotvopnum sínum gegn
blökkufólki í deilum á almannafæri
og jafnvel á heimilum þess. Afbrota-
fræðingar, sem skoðað hafa þúsundir
þessara atvika árlega þar sem lög-
regluþjónar virðast „skjóta fyrst og
spyrja spurninga seinna“ telja vanda-
málið tengjast bæði ráðningarferli og
þjálfun lögregluþjóna í mismunandi
umdæmum. Í mörgum lögreglu-
umdæmum er ráðningarferlið vel
framkvæmt og þjálfun góð. Þar er
mjög óvenjulegt að lögregluþjónar
lendi í þessum skotárásum, en í öðr-
um umdæmum er vandamálið út-
breitt. Vandinn er því ekki óhjá-
kvæmilegur. Þessu virðist hægt að
breyta.
Ríkið bjó til stéttamismunun
eftir kynþætti
Raunveruleikinn fyrir blökkumenn
í Bandaríkjunum er að þjóðfélags-
stofnanir hafa eiginlega ekki virkað
fyrir þá síðan þeir voru teknir í
þrælahald fyrir 400 árum. Þeir hafa
aldrei staðið jafnfætis öðrum þegn-
um. Til að mynda var hvítum gefinn
kostur á að eignast sitt eigið húsnæði
eftir síðari heimsstyrjöld. Alríkisyf-
irvöld í Washington settu milljarða
dala í heimilislánasjóði eftir stríðið,
en það gaf milljónum fjölskyldna og
fyrrverandi hermönnum tækifæri til
að borga 10-20% af kaupverðinu við
kaupin og síðan þrjátíu ára lán fyrir
restinni á lágum vöxtum. Þetta kerfi
var lykillinn að því að byggja upp
hvítar miðstéttir eftir styrjöldina.
Blökkufólki var meinaður aðgang-
ur að þessum lánum í gegnum lög-
gjöfina sem alríkið samþykkti. Þetta
kynþáttamisrétti ýtti undir kynþátta-
mismunun varðandi húsnæðiseign.
Þetta hefur leitt til þess að í dag á
hvít meðalfjölskylda ellefu sinnum
meiri auð en blökkumannafjölskylda.
Þessi mismunun hefur leitt til mikilla
deilna og á margt hvítt fólk erfitt með
að skilja sögulega yfirburði hvítra
þegar kemur að ýmsum lögum og
réttindum.
Afrek og auður ekki vörn fyrir
blökkufólk í Bandaríkjunum
Eitt vandamálið sem margir af
NBA-leikmönnunum nefna er að oft
skiptir litlu hvort blökkufólk er vel
menntað eða hæfileikaríkt þegar
kemur að samskiptum við lögregl-
una. Slíkt er engin vörn gegn lög-
regluofbeldi. Sögurnar af þessu eru
margar meðal vel menntaðra blökku-
manna. Illa þjálfaðir og rasískir lög-
regluþjónar sjá oft ekki „borgara“
þegar þeir eru að stöðva eða tala við
blökkufólk. Aðeins hörundslitinn –
sem þá getur jafnvel endað í dauða.
Svörtum foreldrum – hvar svo sem
þeir búa eða hversu vel menntaðir
þeir eru – finnst þeir neyddir til að
eiga „samræðuna“ (the talk) svoköll-
uðu við börnin sín á ákveðnum aldri.
Samræðan gengur út á það að kenna
börnum sínum hvernig þau eigi að
haga sér ef þau eru í samskiptum við
lögregluþjóna. Þetta á sérstaklega
við þau börn sem eru að fá bílpróf, en
ein mistök í þeim samskiptum geta
kostað þau lífið.
Doc Rivers, blökkumaður og einn
af virtustu þjálfurunum í NBA, hafði
orð á þessu nýlega eftir að leikmenn
fóru í verkfall. „Það erum við sem er-
um drepnir. Það erum við sem erum
skotnir. Það er í raun ótrúlegt að við
höfum ávallt elskað þjóðina okkar, en
hún elskar okkur ekki til baka. Við
viljum einfaldlega að lögreglan fari
eftir stjórnarskránni og komi jafnt
fram við alla þegna.“ Rivers hefur
hér rétt fyrir sér. Sögulega hefur
margt blökkufólk stutt lýðræðisöfl og
lýðræðisleg gildi, en „kerfið“ hefur
ekki ávallt brugðist vel við.
Erfitt að koma breytingum á
löggæslu í framkvæmd
Lausnin á þjóðfélagsvandamálinu
er flókin og margþætt, en ekki er
hægt að deila lengur um það – það
geta allir séð það með því að opna
tölvuna sína. Það eru einfaldlega of
margir illa þjálfaðir og rasískir lög-
regluþjónar í BNA sem setja svartan
blett á starfsstéttina. Því miður hefur
skort kjark meðal annarra lög-
regluþjóna og lögregluyfirvalda til að
takast á við vandann.
Lögregluþjónar eru vel launaðir
hér í landi, sérstaklega þegar tillit er
tekið til þess hversu lítillar mennt-
unar og þjálfunar starfið krefst. Þeir
geta farið á eftirlaun fimmtugir.
Starfið virðist stundum laða að ein-
staklinga með persónuleika sem ger-
ir þá illa hæfa til að sinna starfinu
samkvæmt lögum. Rannsóknir
félagsfræðinga hafa sýnt þetta um
áratuga skeið. Þær sýna að jafnvel
enn í dag er kynþáttahatur mjög al-
mennt meðal lögregluþjóna. Rasism-
inn er orðinn hluti af menningu lög-
reglunnar, og í dag er ekki lengur
verjandi að taka ekki á þessum
vanda. Það er því hlutverk lögreglu-
yfirvalda að sjá slíka hluti í ráðning-
arferlinu. Lögregluþjónarnir fá skot-
vopn í starfinu.
Í dag eru yfir 1.000 starfandi lög-
regluþjónar í Flórída sem hafa ann-
aðhvort verið reknir annars staðar
eða ekki verið taldir hæfir í starfið í
öðrum fylkjum. Af hverju er ekki
hægt að búast við því sama hjá lög-
regluþjónum – hvað varðar hegðun
og að fara eftir settum lögum – rétt
eins og aðrar atvinnustéttir sem
þjóna almenningi í starfi sínu eins og
kennarar, heilsugæslustarfsfólk og
lögfræðingar þurfa að gera?
Enn á ný er það löggjafar- og
framkvæmdavaldið hjá alríkinu og
fylkjunum sem bregst. Í gegnum ára-
tugina hafa lögregluþjónar komið á
stofn öflugum stéttarfélögum sem
hafa mikil áhrif á stjórnvöld bæði í
borgum og fylkjum. Í hvert skipti
sem tillögur koma fram til breytingar
á löggæslu til að koma í veg fyrir
ósæmandi hegðun lögreglunnar, fara
hagsmunasamtökin af stað og tillög-
urnar drukkna í einhverjum bakher-
bergjum stjórnarbygginga. Þetta er
enn að gerast, jafnvel í hinni frjáls-
lyndu Kaliforníu.
Stjórnmálakerfið í BNA hefur ein-
faldlega ekki kjark til að takast á við
stéttarfélög lögregluþjóna.
Stór hluti vill breytingar
Ástæðan fyrir því að þessi vandi er
svo mikið í sviðsljósinu, er að það eru
alltaf að koma upp ný mál. Í hvert
skipti sem vandamálið hverfur af for-
síðum blaða, kemur upp annað dráp
lögregluþjóns á óvopnuðum blökku-
manni. Aðrir þjóðfélagsþegnar eru
því farnir að sjá ofbeldið sem alvar-
legt þjóðfélagsvandamál sem stjórn-
völd verði að bregðast við.
Stór hluti almennings telur, rétt
eins og atvinnuíþróttamenn, að ekki
sé verjandi að gera ekkert í málinu.
Margir eru svartsýnir að hægt sé
að gera nægilega róttækar breyt-
ingar á löggæslu sem muni leiða til
bata á þessu þjóðfélagsvandamáli.
Þrátt fyrir að almenningur viti að
lögreglustarfið er mikilvægt og geti
verið mjög erfitt, sé einfaldlega ekki
lengur hægt að líta framhjá því að of
margir lögregluþjónar eru allt of
fljótir að grípa til skotvopna gegn
borgurunum án nægilegrar ástæðu.
NBA-leikmenn hafa tekið að sér
það hlutverk að ýta á ráðandi öfl og
skapa þannig þrýsting á löggjafar-
valdið á öllum sviðum stjórnsýslu.
Mótmæla morðum og misrétti
Lögregluofbeldi í Bandaríkjunum komið í sviðsljósið eftir mótmæli NBA-leikmanna Kynþátta-
misrétti á sér djúpar rætur Um 1.000 lögreglumenn í Flórída verið reknir í öðrum fylkjum
AFP
Samstaða NBA-leikmenn Los Angeles sendu skýr skilaboð fyrir leik sinn gegn LA Clippers á dögunum.