Morgunblaðið - 25.09.2020, Blaðsíða 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. SEPTEMBER 2020
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Bókin greip mig strax við fyrsta
lestur og það var ást við fyrstu sýn,“
segir Silja Hauksdóttir leikstjóri
Kópavogskróniku sem frumsýnd
verður í Kass-
anum í Þjóðleik-
húsinu í kvöld.
Leiksýningin
byggist á sam-
nefndri skáldsögu
Kamillu Einars-
dóttur, sem vakti
mikla athygli þeg-
ar hún kom út
2018. Silja vann
leikgerð verksins í
samvinnu við Ilmi
Kristjánsdóttur sem fer með aðal-
hlutverk sýningarinnar. Auk hennar
leika Arnmundur Ernst Backman og
Þórey Birgisdóttir. „Rödd aðal-
persónunnar er bæði sterk og fersk.
Hún er brjálæðislega fyndin en á
sama tíma afar sár. Það er langt síðan
ég hef orðið fyrir svona miklum áhrif-
um af lestri bókar. Hún settist ein-
hvern veginn í líkamann á mér,“ segir
Ilmur. „Þessi rödd rennur fram eins
og óstöðvandi foss. Hún er hvatvís og
skemmtilega ófáguð sem mér finnst
sjarmerandi og virkar þess vegna
algjörlega tilgerðarlaus,“ segir Silja.
Hrædd við að vera leiðinleg
„Stundum eru smá stælar í því sem
hún er að segja en á sama tíma er hún
alltaf sympatísk,“ segir Ilmur og
bendir á að aðalpersónan sé oft að
segja frá sárum hlutum á fyndinn
hátt og án þess að samkenndin tapist.
„Hún nær þannig einhverri einlægni
inn í kaldhæðnina,“ segir Ilmur.
„Kjarni uppfærslunnar er í raun ein-
leikur með uppbrotum,“ segir Silja.
„Við mátuðum okkur inn í margar
ólíkar nálganir og gerðum tilraunir,
en fannst þetta réttasta leiðin. Í bók-
inni er nærvera dótturinnar býsna
hverful og því fannst okkur ekki rétt
að hafa dótturina á sviðinu,“ segir
Ilmur og tekur fram að þær Silju hafi
langað til að hafa allar hinar fyndnu
aukapersónur verksins með í sýning-
unni. „Hún er algjör „master of cere-
mony“, eins konar veislustjóri,“ segir
Ilmur. „Já, við vinnum mjög skýrt
með það í uppfærslunni,“ segir Silja.
„Allt sem hún kveikir er hennar
hugarfóstur. Hún er að útskýra sjálfa
sig fyrir dóttur sinni og mögulega
gera henni greiða með því að skýra út
að það sé ekki af einhverri meinfýsni
að hún hafi ekki sinnt henni nógu
vel,“ segir Ilmur. „Hún er líka að
réttlæta það, en ekki endilega af-
saka,“ segir Silja. „Í ferlinu höfum við
komist að því að það sem þessi kona
er hræddust við í lífinu er að vera
leiðinleg, en hún vill alltaf vera
heiðarleg,“ segir Ilmur.
Líkt og titillinn gefur til kynna ger-
ist verkið í Kópavogi. „Okkur langaði
að skapa opinn og abstrakt heim á
sviðinu, sem myndi kallast á við frá-
sagnarstílinn,“ segir Silja og bendir á
að steinsteypuumgjörðin sem er
áberandi í sjónrænni umgjörð sýn-
ingarinnar sé ákveðin vísun í legið.
„Sem umlykur þig, verndar og heldur
í þér lífi. Er bæði brjálæðislega sterkt
og teygjanlegt og mikið kraftaverka-
stöff,“ segir Silja.
Leikhúsið meira instant
Kópavogskrónika er fyrsta sviðs-
verkið sem Silja leikstýrir en hún hef-
ur góða reynslu af kvikmyndamiðl-
inum, leikstýrði Agnesi Joy sem
frumsýnd var í fyrra og hefur nýlokið
við tökur á sjónvarpsþáttaseríunni
Systraböndum. „Ég var mjög spennt
að spreyta mig í leikhúsinu og hef
unnið markvisst að því í þessu ferli að
fullnýta það form eins og ég get til að
kynnast því sem best,“ segir Silja og
bendir á að það sé mjög hressandi að
taka þátt í vinnuferli sem sé jafn
áþreifanlegt og leikhúsvinnan er.
„Endurskriftir geta átt sér stað á æf-
ingaferlinu án teljandi margfeldis-
áhrifa og leikarar hafa beint aðgengi í
sköpunarferlinu. Í kvikmyndavinnu
getur leikstjórnarvinnan stundum
orðið dálítið einmanaleg. Æfinga-
ferlið í leikhúsinu finnst mér
skemmtilega organískt og hrátt.
Leikhúsið er instant miðað við kvik-
myndavinnuna. Leikhúsvinnan er
eins og blanda af skrifferli og klippi-
ferli; hægt er að prófa hlutina strax
og sjá hvort þeir virka,“ segir Silja.
Aðspurð segir Ilmur spennandi að
takast á við aðalhlutverkið og upp-
lýsir að persónan komi sér stundum á
óvart á æfingum. „Á bak við grímuna
leynist djúpur harmur. Grínvörnin
speglar sársaukann vel án þess að við
séum að sökkva okkur ofan í harm-
inn, nema kannski kringum fæðingu
dóttur hennar. Það er eini staðurinn
þar sem hún verður stjórnlaus í frá-
sögninni,“ segir Ilmur og bendir á að
rödd aðalpersónunnar sé fersk í
íslensku samhengi.
Kaldhæðinn heiðarleiki
„Ég var að reyna að útskýra hana
fyrir kunningja mínum í heita pott-
inum um daginn og hann svaraði því
til að hún væri sem sagt ekki að verja
heiður hússins. Öll erum við sem
manneskjur breysk. Við göngum í
gegnum ýmislegt og enginn er algóð-
ur eða alvondur. Við erum bara
manneskjur sem gera mistök og hún
er að reyna að útskýra fyrir dóttur
sinni hvers vegna hún hefur kannski
verið vanrækt og sé mögulega með
sár á sálinni fyrir vikið. Aðalpersóna
verksins er þannig að reyna að bjarga
barninu sínu frá því að þurfa að sitja
uppi með spurningar og leyndarmál
og bera sárin áfram, sem kallast
sterklega á við umræðu samtímans,“
segir Ilmur og bendir á að aðal-
persónan máli sjálfa sig aldrei upp
sem fórnarlamb.
„Tónninn einkennist af dálítið kald-
hæðnum heiðarleika og hún notar
hann til þess að miðla markalausum
en mikilvægum sannleika til dóttur
sinnar, um erfiða atburði og mikinn
breyskleika, sem mæður gefa sér
kannski sjaldan leyfi til að opinbera
af ótta við að vera dæmdar sem vond-
ar mæður. Á sama tíma felst engin
skömm í þessu – sem mér finnst svo
spennandi. Í raun má segja að í verk-
inu felist smá mótefni við skömm,“
segir Silja.
„Það er annar áhugaverður punkt-
ur í bókinni, því hún er ekki aðeins að
ávarpa dóttur sína heldur einnig að
tala til allra þeirra karlmanna í lífi
hennar sem sjá hana ekki. Það sér
hana enginn, sem hefur auðvitað
áhrif á sjálfsmynd hennar því það er
ekki mikil sjálfsvirðing í þessari
konu,“ segir Ilmur og bendir á að
þannig megi líta á verkið sem bréf til
samfélagsins og karlmanna. „Í raun
vekur sýningin miklu fleiri spurn-
ingar en hún svarar,“ segir Ilmur.
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Gríma „Á bak við grímuna leynist djúpur harmur,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir um persónu sína í Kópavogskróníku.
Er ekki að verja heiður hússins
Kópavogskrónika frumsýnd í Kassanum í kvöld í leikstjórn Silju Hauksdóttur Ilmur Kristjáns-
dóttir leikur einstæða móður sem gerir upp fortíðina Í verkinu felst „smá mótefni við skömm“
Silja
Hauksdóttir
Litrík frönsk tónlist frá fyrri hluta
síðustu aldar mun hljóma á fyrstu
tónleikum Kammermúsíkklúbbsins
á þessum starfsvetri, í Norðurljósa-
sal Hörpu á sunnudaginn kemur kl.
16. Flytjendur á tónleikunum eru
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzó-
sópran, píanóleikarinn Edda
Erlendsdóttir, Emilía Rós Sigfús-
dóttir flautuleikari, Auður Haf-
steinsdóttir á fiðlu og Bryndís Halla
Gylfadóttir sellóleikari.
Á efnisskránni eru verk eftir fimm
frönsk tónskáld sem létu mikið að
sér kveða í tónlistarheiminum á
fyrstu áratugum 20. aldar. Fluttar
verða þekktar sónötur eftir risana
tvo í franska impressjónismanum,
sónata fyrir selló og píanó eftir
Claude Debussy (1862-1918) og són-
ata fyrir fiðlu og selló eftir Maurice
Ravel (1875-1937). Syrinx, sögu-
frægt flautueinleiksverk Debussys
frá 1913, mun einnig hljóma, sem og
tvö söngverk eftir Ravel, Deux Mél-
odies Hèbraïques (Tveir hebreskir
söngvar) og Chansons madécasses
(Söngvar frá Madagaskar); hið síð-
arnefnda samið við erótísk ljóð frá
1787 sem voru meðal fyrstu prósa-
ljóða á franskri tungu. Á tónleikun-
um verður einnig flutt tónlist eftir
Reynaldo Hahn (1874-1947) og
Jacques Ibert (1890-1962), auk
tveggja verka eftir Lili Boulanger,
sem lést 24 ára að aldri árið 1918.
Flytjendurnir Bryndís Halla Gylfadóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir,
Auður Hafsteinsdóttir, Edda Erlendsdóttir og Emilía Rós Sigfúsdóttir.
Litrík frönsk tón-
list mun hljóma
Tónleikar Kammermúsíkklúbbsins