Morgunblaðið - 30.09.2020, Blaðsíða 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. SEPTEMBER 2020
PON Pétur O. Nikulásson ehf. | Melabraut 21, 220 Hafnarfjörður | Sími: 580 0110 | pon.is
Við bjóðum alla Jungheinrich eigendur velkomna!
GÆÐI OG ÞJÓNUSTA
PON er umboðsaðili
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Einhver var að reyna að vekja mig.
Mig hafði verið að dreyma flugslys
alla nóttina og ég hélt að þetta væri
draumur. Það var ekki fyrr en ég
komst út úr flakinu og fann fyrir
rigningu og meiðslum þar sem ég sá
ekkert með öðru auganu og að það
blæddi úr annarri hendinni að ég
áttaði mig á veruleikanum. Þá fór
maður að gera það sem þurfti að
gera,“ segir Valgerður Katrín Jóns-
dóttir þjóðfélagsfræðingur sem var
flugfreyja í Fokker-flugvél Flug-
félags Íslands sem fórst í Mykinesi í
Færeyjum fyrir 50 árum.
Vélin var í svokölluðu Færeyja-
flugi á milli Kaupmannahafnar og
Færeyja. Ófært var til Færeyja í
eina þrjá sólarhringa. Föstudaginn
25. september 1970 fór vélin frá
Reykjavík áleiðis til Færeyja en
varð frá að hverfa vegna veðurs í
Færeyjum og var þá farið til Bergen
í Noregi og gist um nóttina.
Snemma morguninn eftir átti að
reyna aftur að lenda í Færeyjum.
Flugvélin var þó komin í aðflug að
Vogaflugvelli þegar hún brotlenti á
fjallinu Knúk á eyjunni Mykinesi.
Um borð voru 30 farþegar og
fjögurra manna áhöfn. Íslendingar
skipuðu áhöfnina og auk þess voru
tveir Íslendingar meðal farþeganna.
Hinir voru Færeyingar og Danir.
Sjö farþegar og Bjarni Jensson
flugstjóri létust við brotlendinguna.
Þeir sem komust lífs af voru mis-
jafnlega mikið slasaðir, margir með
bakmeiðsli. Ástæðan fyrir slysinu
var talin vera að veðurratsjá flug-
vélarinnar hefði truflað merkin frá
radíóvitanum í Mykinesi og gefið
flugmönnunum fölsk skilaboð.
„Þetta var dramatískur atburður.
Farþegaflugvél full af fólki fórst á
einangraðri klettaeyju. Þangað var
ófært vegna veðurs og innviðir ófull-
komnir. Menn stóðu frammi fyrir
risavöxnu verkefni sem þeir þurftu
að leysa upp á eigin spýtur. Þarna
voru unnar hetjudáðir, bændur og
fiskimenn þurftu að fara upp á fjall í
þoku og roki til bjargar fólkinu og
koma því í skjól,“ segir Magnús Þór
Hafsteinsson, blaðamaður og rithöf-
undur. Hann er annar tveggja höf-
unda bókar um slysið sem kemur út
á næstunni. Hún er í grunninn bók
eftir Grækaris Djurhuus Magn-
ussen sem kom út fyrir 20 árum en
bætt hefur verið við viðtölum og
nýjum upplýsingum. Einnig er fær-
eyska sjónvarpið að gera þátt um
slysið.
Ógurlegir skruðningar
„Ég man að ég leit út um glugg-
ann og sá að það var mjög þykk
þoka. Svo allt í einu urðu ógurlegir
skruðningar og högg og ég held að
ég hafi misst meðvitund andartak.
Þegar ég rankaði við mér aftur,
voru farþegarnir að fara út úr flak-
inu og ég losaði beltið og fór á eftir
þeim,“ sagði annar íslenski farþeg-
inn, Agnar Samúelsson, í viðtali við
Óla Tynes blaðamann sem fór ásamt
Ólafi K. Magnússyni ljósmyndara til
Færeyja fyrir Morgunblaðið.
Valgerður gekk í það að hlúa að
farþegum og félögum sínum úr
áhöfninni. Því verki stjórnaði yfir-
dýralæknir Færeyja sem var meðal
farþega. Hún segir að enginn hafi
vitað hvar þau voru stödd. Tveir eða
þrír menn gengu af stað og mættu
tveimur fullorðnum mönnum við
þorpið í Mykinesi en þeir höfðu ver-
ið sendir til að athuga hvort flug-
vélin hefði brotlent á eyjunni. Þeir
sem gátu gengið sjálfir gengu niður
í þorpið. Valgerður og annar Fær-
eyingurinn úr þorpinu studdu Pál
Stefánsson flugmann sem var mikið
slasaður. Eftir voru nokkrir meira
slasaðir og sótti björgunarlið þá.
Ófært var út í Mykines og var ekki
annað að gera en að gista þar um
nóttina. „Fólkið tók ótrúlega vel á
móti okkur. Það gekk úr rúmum sín-
um og eldaði fyrir okkur mat,“ segir
Valgerður. Daginn eftir kom þyrla
frá danska varðskipinu Hvidbjørnen
og selflutti þá sem mest voru slas-
aðir beint á sjúkrahús í Þórshöfn en
hina um borð í varðskipið sem sigldi
með þá til Þórshafnar. „Mér fannst
Færeyingarnir standa sig frábær-
lega vel,“ segir Valgerður.
Hélt að þetta væri draumur um slys
Valgerður Katrín Jónsdóttir rifjar upp flugslysið í Færeyjum fyrir 50 árum Átta létust en 26
komust lífs af er Fokker-vél Flugfélags Íslands brotlenti í Mykinesi Björgun við erfiðar aðstæður
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Slysstaður Fokker-vélin brotnaði mikið enda brotlenti hún á miklum
hraða. Flakið var urðað á staðnum en enn sjást för eftir vélina.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Flutningar Farangur farþega og póstur var borinn niður í þorpið í Mykinesi
daginn eftir. Notuð voru færeysk og alþjóðleg vinnubrögð við burðinn.