Morgunblaðið - 21.10.2020, Síða 15

Morgunblaðið - 21.10.2020, Síða 15
UMRÆÐAN 15 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. OKTÓBER 2020 Í skýrslu um orku- stefnu má búast við umfjöllun um hvaða þýðingu orka hefur fyr- ir okkur, hvað það er sem við höfum milli handanna í dag og úr hvaða efnivið við byggjum framhaldið. Lítið er um þetta í skýrslu orkustefnu- nefndar. Skýrslan er um sjálfbæra orku- stefnu. Hvað orðið sjálfbær ná- kvæmlega merkir í þessu samhengi verður hver að segja sér sjálfur en þetta er eitt af tískuorðum nútímans. Upplagt tungutak fyrir ybba svo vís- að sé í grein og nýyrði Sigmundar Davíðs. Það er svo sem við því að búast, þegar fulltrúar allra stjórn- málaflokka á þingi eru skipaðir sam- an í stefnunefnd, að niðurstaðan verði eins og tískan býður; hrein orka og umhverfisvænar fram- kvæmdir í bland við fagurgala á ybbatungu. Vinnubrögð nefnd- arinnar voru líka á þann veg að hlusta á álit sem flestra hags- munaaðila og endurspegla í texta. Þar er t.d. bent á að með snjall- mælum megi auðvelda þeim sem vilja tengja eigin raforkuvinnslu með vindmyllum eða sólarþiljum við orkukerfið. Erlendis nýtist þessi tækni til að spara eldsneyti en bara smávegis af vatni hér. Þrátt fyrir þetta má þó finna stefnumörkun út úr skýrslunni, en draga má í efa að lesendur hennar séu sammála um hver hún sé, enda vantar grunninn sem byggt er á. Orkufrekt samfélag Á litlu ísöld fyrir um hálfu árþús- undi, þegar menn höfðu ekki aðra orku en fá mátti úr vöðvum þeirra sjálfra og hesta þeirra, gat þetta land hér norður í höfum framfleytt um 35.000 manns þegar verst lét. Nú erum við 10 sinnum fleiri sem hér lif- um, vonandi innihaldsríkara menn- ingarlífi og byggjum það á orku sem er að stórum hluta unnin hér heima úr orkulindum þessa lands en einnig innflutt. Á grunni þessarar orku höf- um við byggt upp samkeppnishæfa starfsemi hvar af einn mikilvægasti þátturinn er heimilin í landinu, þar sem ung- viðið verður til og elst upp til að taka við þjóð- félaginu. Til þess not- um við meiri raforku á mann en þekkist ann- ars staðar og veitir ekki af. Orkukerfin sem við höfum, orkuvinnsla, innflutningur og flutn- ingur um landið, er það sem við höfum milli handanna nú og byggj- um tilveru okkar á. Uppbygging til framtíðar Hvernig eigum við svo að byggja upp fyrir framtíðina? Nefndin virðist sammála um að byggja framhaldið sem mest á eigin orkulindum. Eins og nefnt er í skýrslunni hefur þetta þann ótvíræða kost að gera Ísland minna háð innflutningi á orku. Hitt er svo ekki nefnt, að við höfum þegar nýtt stærstu virkjanakostina sem gefa af sér samkeppnishæfasta orku- verðið til að byggja upp raforku- kerfið. Þessi leikur verður ekki end- urtekinn, en áframhaldandi samkeppnishæfni er gagnvart út- löndum eitt það mikilvægasta sem við þurfum að glíma við í framtíðinni. Eitt meginstef stefnunnar er um- hverfisvæn eða „hrein“ orka. „Eina óhreina orkan hér á landi er okkar eigin andardráttur,“ sagði vinur minn og var mikið niðri fyrir. Í þeim orðum leynast töluverð sannleiks- korn. Einu gildir hvort menn vilja innlenda orku af loftslagsástæðum eða efnahagsástæðum, þetta er sama orkan. Hins vegar þarf og mun ætíð þurfa að vega sjónarmið umhverfis- verndar gagnvart þeim efnahags- legu. Hér stefnir í vaxandi ágreining sem þegar hefur reynst okkur dýr og birtist m.a. í æðinu að tryggja sér 9,9 MW leyfi til að komast hjá umhverf- ismati. Þörf er á að marka stefnu til skilvirkari lausna slíkra mála. Öryggi Orkuöryggi felst í því að hafa ætíð nægt framboð orku á viðráðanlegu verði og sjálfbær orkustefna hlýtur að taka mið af möguleikum okkar og afkomenda okkar til að tryggja okk- ur það öryggi á þann hátt að sam- keppnishæfni atvinnuvega okkar sé óskert. Í skýrslunni segir: „Orku- stefna Íslands grundvallast á sjálf- bærri þróun þar sem leitast verður við að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kom- andi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum.“ Þá kemur upp í hugann spurningin: Hve lengi getum við haldið slíkri uppbyggingu áfram? Það er takmarkað hve dýr orkan má vera frá nýjum virkjunum af sam- keppnisástæðum. Með lögum og reglum náttúruverndar höfum við þegar útilokað verulegan hluta óvirkjaðs vatnsafls og jarðvarma á landinu. Meira verður friðað og and- staðan gegn vindmyllum er rétt að hefjast. Hversu miklu höfum við raunverulega úr að spila og hver er hagkvæmni þeirrar orku? Þessa um- fjöllun vantar í skýrsluna. Lokaorð Orkustefnan boðar sívaxandi nýt- ingu vistvæns eldsneytis og fram- leiðslu þess hér innanlands, jafnvel útflutning, sem kann að verða val- kostur framtíðar við hlið eða í stað stóriðjunnar. EN! Þar er samkeppni við olíu Sádi-Arabíu, Kínverjar geta lagt þann iðnað á hliðina ekki síður en áliðnaðinn, svigrúmið sem við höf- um er ekki þekkt og engin markaðs- setning hefur farið fram á borð við þá sem fylgdi stóriðjustefnunni und- ir forystu Jóhannesar Nordal. Hér vantar jarðtengingu. Nauðsynlegt er að gera betri grein fyrir svigrúmi okkar til aukinnar orkuvinnslu á við- ráðanlegu verði og gefa hugmynd um mögulegt magn og hraða fjár- festinga í raforkuvinnslu. Það sem stendur upp úr skýrslu orkustefnunefndar eru spurningar og sumum þeirra er hægt að svara. Eftir Elías Elíasson »Nauðsynlegt er að gera betri grein fyrir svigrúmi okkar til aukinnar orkuvinnslu á viðráðanlegu verði og gefa hugmynd um mögulegt magn og hraða fjárfestinga í raforkuvinnslu. Elías Elíasson Höfundur er sérfræðingur í orku- málum. Orkustefna á ybbamáli Fátt hefur reynst mér betur en sú barnatrú sem ég ólst upp við í foreldra- húsum; venjulegu ís- lensku sveitaheimili, þar sem faðirvorið og bænir voru kennd og sú einfalda lífsspeki að vera við aðra eins og maður vill að aðrir séu við sig; elska náungann eins og sjálfan sig – eins og þar stend- ur. Dýpra var nú ekki farið út í guð- fræðina og minnti afi minn oft á að kæmist maður ekki inn í Himnaríki sem barn, þá myndi maður ekki inn í það komast. Á hverjum morgni gekk hann út og fór með sínar bænir og þakkaði fyrir þá litlu sjón sem hann þó hafði; hafði misst annað augað og með illvíga gláku á hinu. Friðsælt var sofna eftir að Dóra gamla – einstæðingur sem hvergi vildi annars staðar vera en í Nýhöfn hjá ömmu minni eða í Miðtúni hjá mömmu minni – hafði komið að rúmi mínu; farið með bænir og blessunar- orðin sem ég hef haft yfir börnum mínum og barnabörnum – og þau sofnað sæl með bangsa sinn og dúkku. Já, það var gott að sofna út frá þessum orðum; draugar og ísbirn- ir víðsfjarri og draumar tóku við. Sannfærður er ég um að hjá flest- um trúarbrögðum sé eitthvað svipað til og fjarri mér að efast um mátt þeirra orða; hver má hafa sína trú í friði fyrir mér, ef ég fæ rækja mína án þess að hún sé niðurlægð á einn eða annan máta, hvað þá þegar skipu- lega er gert lítið úr henni, og auðvitað er það sárast þegar það kemur frá þeim sem hafa til þess aðstöðu í fjöl- miðlum eða opinberum störfum. Kristin trú og kirkjan er ekki það sama. Um kirkjuna sem stofnun má margt segja og vissulega stangast margar ákvarðanir hennar á við mína barnatrú. Hjá mér hefur barnatrúin vinninginn. Mér finnst hins vegar beinlínis ljótt þegar gert er lítið úr boðskap kirkjunnar, að ég tali nú ekki um þegar hinir og þessir ætla sér að ganga í hlutverk hennar með gróða að leiðarljósi. Taki þeir til sín sem eiga. Kristin trú er siðfræði sem hefur mótast gegnum kynslóðirnar og hefur tekið mið af tíðarandanum hverju sinni, en grundvöllurinn er sá sami: kærleikurinn – og hann skortir oft manna og þjóða á milli. Ég er ósköp venjulegur maður og líf mitt gengið án áfalla. Ég þakka það Guði og er í samræmi við mína barnatrú og oft fer ég með bæn eða leita eftir styrk til Frelsarans þegar mér finnst ég óöruggur eða þarf handleiðslu í málum. Hvar svo sem þær bænir lenda hafa þær gefið mér styrk, og víst er um það að eitthvað vantar ef ég fer ekki með faðirvorið áður en ég sofna á kvöldin. Ég trúi á mátt bænarinnar og nú, þegar hver fréttin á fætur annarri berst af hræðilegu ástandi margra unglinga og þeim hættum sem við þeim blasa, tel ég það beinlínis rangt að kenna þeim ekki þá sjálfshjálp sem í bæninni felst og kostar ekki neitt. Hvað vantar þau börn sem lemja og slasa jafnaldra sína til að fá birtar myndir af sér og hetjudáðinni – og hverjir horfa á og segja ekki neitt? Þau vantar ein- hvern til að tala við og létta á þeim byrðum sem þau þjaka. Þessum börn- um líður ekki vel; eitt- hvað er að. Hér mega fullorðnir ekki undan líta. Fyrir nokkru las ég bók, „Móðir mín“, þar sem afkomendur segja frá lífi mæðra sinna á 19. öld. Flestar höfðu lent í miklum raunum; fátækt, barnamissi og horft á eftir fyrirvinn- unni í sjóinn eða á annan hátt. Ekkert var eftir og hvergi aðstoð að fá. Þá var aðeins eitt eftir, trúin. Hana gat enginn tekið frá þeim og þær ásamt þúsundum formæðra okkar leituðu í trúna til styrktar. Önnur sálfræði- aðstoð var ekki á boðstólum. Á Íslandi ríkir almenn velsæld og óþarft að leita til Guðs. Minnir á manninn sem kom að stórfljótinu og bað Guð að hjálpa sér. Þegar hann náði bakkanum leit hann upp og sagði: „Þú þarft þess ekki, ég get þetta sjálfur.“ Hvers vegna er ég að gera þessar játningar mínar opinberar? Mark- miðið er að vekja athygli á barna- trúnni og bæninni í baráttunni við það vonda sem allt of mikið er af. Nákominn ættingi minn hefur farið um allan heim og átt þar fundi með ráðamönnum og stjórnendum stór- fyrirtækja; var með einum slíkum í Austurlöndum og ræddur var tug- milljónasamningur. Mitt í þessum samningaviðræðum stóð viðmæland- inn upp og tók sér hlé til trúariðkana. Hann sagði vini mínum að hann gæti gengið fram á meðan, en eins að hon- um væri velkomið að sitja áfram inni hjá sér meðan hann bæðist fyrir, og það kaus hann. Þessi „mikli“ maður útbjó sig til bæna og framkvæmdi síðan þessa athöfn sem greinilega var sjálfsagður hluti af hans lífi – játaði óhræddur trú sína. Og vinur minn hugsaði: Hvar er mín trú? Af hverju geri ég þetta ekki líka? Af hverju þor- um við ekki að játa okkar kristnu trú og leita þar styrks og betri líðanar? Er það nokkuð að skammast sín fyr- ir? Nei, þvert á móti, og þannig get- um við haldið í þá trú sem hefur reynst svo góð íslenskri þjóð. Sumum finnst hlægilegt að játa sína kristni og stutt í „grínið“. Mörg- um þótti „asnalegt“ þegar forsætis- ráðherra okkar bað Guð að blessa Ís- land, þegar gífurlegir erfiðleikar steðjuðu að og hvert framhaldið var óljóst. Orðin voru af einlægni mælt og mun fleiri dáðust að orðum for- sætisráðherrans en þeir sem að hlógu. Kannski blessaðist þetta allt hjá Íslendingum vegna þessarar bænar. Hver veit? Eftir Níels Árna Lund »Nú, þegar fréttir berast af hræðilegu ástandi margra ung- linga, tel ég það beinlín- is rangt að kenna þeim ekki þá sjálfshjálp sem í bæninni felst. Níels Árni Lund Höfundur er fv. skrifstofustjóri og áhugamaður um kristna trú. lund@simnet.is Aðeins um barnatrú

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.