Morgunblaðið - 28.11.2020, Side 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. NÓVEMBER 2020
Þú finnur fallegar og
vandaðar jólagjafir
hjá Eirvík
Hvort sem þú leitar að fallega hönnuðum smátækjum í
eldhúsið, sterkbyggðri matvinnsluvél sem er afkastamikill
hjálparkokkur við eldamennskuna, endingargóðri ryksugu
gæddri nýjustu tækninýjungum eða glæsilegri kaffivél sem
hellir upp á nýmalað og dásamlegt kaffi, þá erum við með
frábæra valkosti fyrir þig. Vöruúrval Eirvíkur er afar fjölbreytt
og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Eirvík Suðurlandsbraut 20, Reykjavík, sími 588 0200, eirvik.is.
Opnunartími mánudaga - föstudaga 10-18, laugardaga 11-15
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þingmenn meirihlutans í atvinnu-
veganefnd Alþingis sem Morg-
unblaðið hefur rætt við virðast nokk-
uð jákvæðir í garð frumvarps
þingmannsins Páls Magnússonar
sem hann segir til þess gert að
skerpa á gildandi fyrirkomulagi um
takmarkanir á eignarhaldi á afla-
heimildum. Þetta á einnig við um
þingmenn minnihlutans og því
sterkar vísbendingar um að frum-
varpið fái þinglega meðferð. Þing-
mennirnir taka allir vel í hugmynd-
irnar með fyrirvara.
Frumvarpið var birt á vef Alþing-
is síðdegis í gær og er þar lagt til að
aðili sem þegar á aflahlutdeild festir
kaup á hlut í útgerð með afla-
hlutdeild „skal leggja hlutfall kaup-
anda í aflahlutdeild seljanda saman
við þær heimildir sem hann á fyrir.
Telst sú heildaraflahlutdeild tilheyra
kaupanda.“
Þarf að loka fyrir krókaleiðir
Páll, sem er þingmaður Sjálfstæð-
isflokksins, sagði í Morgunblaðinu í
gær að tilgangur frumvarpsins væri
að sjá til þess að þakið fyrir afla-
hlutdeild staks aðila yrði virt, en
þakið er 12% af útgefnum kvóta.
„Mér finnst það bara vera gloppa að
þú getir eignast 49% í félaginu án
þess að nokkuð af aflaheimildum
þess teljist til þinna. Að mínu mati á
þetta bara að vera hlutfallslegt,“
sagði Páll.
„Inntakið virðist hljóma skyn-
samlega en ég hef ekki kynnt mér
þetta, en mér finnst þessi viðleitni
jákvæð að koma fram með ein-
hverjar hugmyndir í þessum mál-
um,“ svarar Lilja Rafney Magn-
úsdóttir, þingmaður Vinstri grænna
og formaður atvinnuveganefndar, er
blaðamaður spyr um afstöðu hennar
til frumvarps Páls.
„Maður hefur verið að glíma við
þetta lengi og kannski mismikill vilji
hjá viðeigandi ráðherrum að taka á
þessu,“ segir Lilja Rafney. Þegar
rætt var við hana hafði hún ekki séð
umrætt frumvarp og þótti því ekki
við hæfi að taka afstöðu til þess.
Almennt séð segir Lilja Rafney að
„löggjafinn verði að leita allra leiða
til þess að koma í veg fyrir frekari
samþjöppun í sjávarútvegi og það
verði að vera eitthvert raunverulegt
þak en ekki bara einhver sýnd-
armennska.“ Þá sé mikilvægt að
ákvæði laga um 12% þak sé skýrt og
að komið verði í veg fyrir að hægt sé
með krókaleiðum að komast hjá
ákvæðinu. „Ég er mjög andsnúin
þessari samþjöppun, bæði í litla
kerfinu og stóra kerfinu, og tel að
stjórnvöld verði að leita allra leiða til
að koma í veg fyrir það,“ ítrekar
Lilja Rafney.
Tekur undir sjónarmið Páls
Ásmundur Friðriksson, þingmað-
ur Sjálfstæðisflokksins sem einnig á
sæti í atvinnuveganefnd, kveðst taka
undir þau sjónarmið sem Páll,
flokksbróðir hans, lýsti í gær og seg-
ir mikilvægt að ræða þá þætti er
snúa að tengdum aðilum og eign-
arhaldi í sjávarútvegi. Hins vegar
segir hann erfitt að gefa upp afstöðu
til frumvarps sem hefur ekki komið
fyrir nefndina og einnig óljóst
hvernig frumvarpið mun verða þeg-
ar það kemur úr nefndinni.
„Ég styð framlagningu frum-
varpsins sem getur orðið til þess að
bæta gagnsæi í sjávarútvegi,“ segir
Ásmundur og bendir á að það eru
fleiri þættir sem þarf að skoða í sam-
bandi við aflahlutdeildir. Þá sé með-
al annars hægt að auka gagnsæi og
skilning almennings á kerfinu með
því að hætta að ræða um þorskígild-
istonn og einfaldlega tala um hlut-
deild í skilgreindum tegundum.
Til höfuðs ráðherra?
„Mín fyrstu viðbrögð er að þetta
er ákveðin atlaga að Kristjáni Þór
Júlíussyni sjávarútvegsráðherra.
Þetta er ákveðin yfirlýsing um skort
á trausti í hans garð varðandi að
tryggja að farið er að lögum í sjávar-
útvegi,“ sagði Þórhildur Sunna Æv-
arsdóttir, þingmaður Pírata, í sam-
tali við 200 mílur á mbl.is í gær.
Spurð hvort það komi til greina að
styðja hugmyndir Páls, kvaðst Þór-
hildur Sunna enn eiga eftir að skoða
frumvarpið. „Ég tek öllu með væn-
um skammti af salti sem kemur frá
Sjálfstæðisflokknum og varðar sjáv-
arútveginn, sér í lagi í aðdraganda
prófkjara. En ég tek þessu með opn-
um hug og styð markmið tillög-
unnar. […] Ég veit hins vegar ekki
hvort frumvarp Páls taki á raun-
verulegum vanda, sem er skilgrein-
ingin á tengdum aðilum.“
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar og
varaformaður atvinnuveganefndar,
fagnaði í gær tillögu Páls en þó með-
þeim fyrirvara að frumvarpið taki á
málinu með þeim hætti sem Páll
lýsti í Morgunblaðinu. „Það er alveg
ljóst að það að fáum aðilum sé gert
kleift að fara með stóran hluta auð-
lindarinnar gengur gegn almanna-
hagsmunum,“ sagði Albertína.
Kvótafrumvarp fær góðar viðtökur
Þingmenn taka vel í hugmyndir um takmarkanir aflahlutdeilda en með fyrirvörum Formaður
atvinnuveganefndar segir mikilvægt að sporna gegn samþjöppun Pírati lýsir miklum efasemdum
Morgunblaðið/Hari
Afli Deilt hefur verið um hvernig skal skilgreina tengda aðila hvað varðar
þak á aflahlutdeildum. Tillaga til að höggva á hnútinn var birt í gær.
Lilja Rafney
Magnúsdóttir
Ásmundur
Friðriksson