Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/18
ÁSKORANIR
NÚTÍMANS
Með tilkomu samfélagsmiðla eiga sér nú stað miklar
breytingar í fjölmiðlun. Á árum áður var hugmyndin
sú að blaðamenn væru trúnaðarmenn almennings.
Þeir báru kennsl á þau málefni sem verðskulduðu
nánari skoðun, rannsökuðu þau og birtu, ef vel
tókst til, vandaða umfjöllun um þau. Blaðamönnum
tókst misjafnlega upp í þessu hlutverki og tími
flokksmálgagna hjálpaði ekki til. Það var ljóst að
þeir sem höfðu aðra sýn á mál en hin hefðbundnu
stjórnmál áttu erfitt með að fá blaðamenn til að sýna
áhuga. Enn erfiðara áttu síðan þeir sem höfðu í raun
enga sýn en héldu fram sundurlausum hugmyndum
og innihaldslausum slagorðum. Þeir áttu langt frá því
greiða leið í fjölmiðla.
Fjölmiðlaumhverfið nú er gjörbreytt; sumt til betri
vegar og annað til verri. Eitt sem getur orkað tvímælis
er að hver sem er, sama hversu sérkennilegar eða
sundurlausar skoðanir hans eru, getur nú miðlað
hugmyndum sínum milliliðalaust á samfélagsmiðlum
og fangað athygli fólks með bíræfnum aðferðum.
Þeir sem nota samfélagsmiðla elta fyrirsagnir og
efnisstraumurinn sem berst þeim ræðst svo af þeim
fyrirsögnum sem þeir hafa áður smellt á. Krassandi
fyrirsagnir geta þannig beint óverðskuldaðri athygli að
furðuskoðunum og falsfréttum og fært til þungamiðju
þjóðfélagsumræðunnar.
Hefðbundnu fjölmiðlarnir eiga erfitt uppdráttar í þessu
umhverfi. Blaðamenn hafa nú mun skemmri tíma til
að glöggva sig á málum. Baráttan snýst að einhverju
leyti um að koma út áhugaverðum fyrirsögnum og að
vera ekki á eftir samfélagsmiðlum í að miðla fréttum.
Svigrúm til rannsókna og vandaðra umfjöllunar hefur
að sama skapi minnkað, þótt vissulega reyni sumir
miðlar að halda slíku til streitu.
Félag eins og Lögmannafélag Íslands þarf að taka mið
af þessu umhverfi. Komi upp snöggir blettir í störfum
lögmanna eða félagsins má fastlega búast við að slíkt sé
blásið upp, slitið úr samhengi og gagnrýnt skefjalaust.
Viðbrögð við slíku verða að vera fumlaus, því athygli
sem slík mál fá varir aðeins í stutta stund. Svar degi
síðar fær enga athygli. Þá situr ekkert eftir annað en
hin óverðskuldaða gagnrýni og traust á lögmönnum
minnkar.
Í þessu felst áskorun til Lögmannafélagsins að standa
vaktina. Félagið verður að vanda störf sín og forðast að
gefa höggstað á sér. Við verðum sjálf að vera vakandi
fyrir því sem kann að fara úrskeiðis í störfum okkar og
bregðast við. Við þurfum að gæta þess að lögbundnu
eftirlitshlutverki Lögmannafélagsins sé sinnt og nýta
öll tækifæri til að gera betur við framkvæmd þess.
Þegar fram koma ábendingar eigum við að taka þær til
REIMAR PÉTURSSON LÖGMAÐUR.
FORMAÐUR