Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 28
28 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/18
endurskoðunar sönnunarmats á málskotsstigi í einkamálum
og nefndi til sögunnar dóm Súsönnu Rósar Westlund gegn
Íslandi frá árinu 2007.
Hvað varðar sjálfstæða gagnaöflun æðri dóms og jafnræði
málsaðila þá sé dómstólum almennt heimilt að ráðast í
sérfræðilega gagnaöflun. Í þeim tilvikum þar sem áhrif
sérfræðilegs mats sé verulega þýðingarmikið við endanlega
úrlausn máls, verði æðri dómur hins vegar að gæta að
jafnræði aðila með því að tryggja hæfi sérfræðinga gagnvart
aðilum mála. Rakti Róbert sérstaklega mál Söru Lindar
Eggertsdóttur gegn Íslandi frá árinu 2007.
Rökstuðningur dóma og svigrúm æðri dóms
MDE gerir kröfu til þess að í dómi þurfi að gera grein fyrir
þeim röksemdum sem höfðu þýðingu fyrir niðurstöðu máls.
Jafnframt þyrfti að gera grein fyrir dómafordæmum ef að
undantekningar væru frá þeirri meginreglu að æðri dómur
geti látið duga að vísa til forsendna undirréttar. Einnig
bæri millidómsstigi, sem hefur vald til að endurskoða
bæði sönnun atvika og lagaatriði, að rökstyðja synjun á
málskotsleyfi.
Meginreglan í sakamálum er sú að sakaður maður á rétt á
því að mál hans sé dæmt á fyrsta dómsstigi í samræmi við
6. gr. MSE og að af því leiði að annmarkar á meðferð máls
þar verði ekki lagfærðir á æðra stigi. Róbert tók þó fram að
á þessu kunni að verða gerðar undantekningar þegar þær
afleiðingar sem annmarkinn hefur haft á rétt sakaðs manns
eru í eðli sínu með þeim hætti að æðra dómsstig getur
tryggt réttláta málsmeðferð. Í sakamálum þurfi hugsanlega
að taka tillit til réttarins til að áfrýja sakamáli samkvæmt 2.
gr. 7. viðauka við túlkun 6. gr. MSE við mat á hvort fallist
verði á að æðra dómstig geti lagfært annmarka. Hins vegar
sé rýmra svigrúm í einkamálum.
Hæfi dómara og hlutverk
Í lok fundarins fór Róbert yfir hvaða áhrif vanhæfi eins
dómara hefði á hæfi annarra dómenda skv. 6. gr. MSE.
Hann áréttaði að landsdómstólar væru skuldbundnir
til þess að túlka og beita innlendum réttarfarsreglum á
grundvelli 6. gr. MSE eins og það ákvæði hefur verið túlkað
af MDE og það væri innlendi dómarinn sem tryggði réttláta
málsmeðferð. Það væri landsdómarans að vega og meta í
hverju tilviki þau sjónarmið sem vegast á þegar reynir á
regluna um réttláta málsmeðferð og rökstyðja afstöðu sína.
Að lokinni framsögu Róberts urðu líflegar umræður um
fundarefnið en vegna biðraðar við inngang hófst fundurinn
töluvert á eftir áætlun og gafst því skemmri tími til
umræðna en ella. Reimar Pétursson, formaður LMFÍ, sleit
fundinum með umfjöllun um að með nýrri dómstólaskipan
væri stigið stórt skref í að auka réttaröryggi og efla vernd
mannréttinda hér á landi. Tók hann sérstaklega fram að
með því hefði annað af stærstu réttindamálum sem LMFÍ
hefði barist fyrir náð fram að ganga. Einnig hefði tekist að
ná fram árangri varðandi hleranir símtala milli lögmanna
og skjólstæðinga með breytingum á löggjöf og hefðu dómar
MDE verið lykillinn að því að ná þeim lagabreytingum í
gegn. Vísaði hann til þess að lögmenn hefðu líka þá ábyrgð
að nota MSE og benda á dóma MDE í sínum málflutningi
og að brýna yrði dómstóla til þess að gleyma því ekki að
hlutverk mannréttindareglna væri að vernda borgara en
ekki stjórnvöld en vísbendingar væru í dómaframkvæmd
um fremur þröngan skilning á mannréttindum hér á landi.
Heiða Björg Pálmadóttir
Róbert Ragnar Spanó dómari við MDE.