Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 33
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/18 33
SKILYRÐI ÁFRÝJUNARLEYFIS
FYRIR HÆSTARÉTTI NOREGS
Þann 16. febrúar sl. hélt Arnfinn Bårdsen, dómari við
Hæstarétt Noregs, fyrirlestur á vegum Lögmannafélags
Íslands sem bar heitið „Deciding what to decide: The
filtering mechanism in the Norwegian Supreme Court“. Í
fyrirlestrinum fór hann yfir mikilvægustu þætti þess kerfis
sem Hæstiréttur Noregs notar við mat á því hvort veita skuli
áfrýjunarleyfi. Með fyrirlestrinum vonaðist hann til að veita
Íslendingum innblástur við innleiðingu svipaðs kerfis hér á
landi en réttarkerfi ríkjanna eru að mörgu leyti sambærileg.
Veiting leyfis til áfrýjunar
Í norskum rétti má finna skilyrði áfrýjunarleyfis í lögum
um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála.
Samkvæmt þeim er óheimilt að áfrýja máli til Hæstaréttar
Noregs án hans leyfis og skal aðeins veita leyfi hafi málið
almenna þýðingu eða ef það er af öðrum ástæðum talið
sérstaklega mikilvægt að taka málið til umfjöllunar. Veiting
leyfisins er í höndum sérstakrar nefndar sem er hluti af
Hæstarétti Noregs en ekki sérstakur lögaðili. Um hlutverk
og heimildir nefndarinnar er fjallað í lögum og nefndin
hefur sett eigin verklagsreglur. Nefndin nýtur aðstoðar
Legal Secretariat sem samanstendur af 23 lögfræðingum en
þegar mál berast dómstólnum eru þau fyrst vandlega skoðuð
af einum lögfræðingi sem skrifar skýrslu til þeirra þriggja
dómara sem síðan taka málið fyrir. Skýrslan á að innihalda
samantekt af viðkomandi máli, þeim lögfræðilegu atriðum
sem á reynir og tillögu um hvort veita skuli áfrýjunarleyfi.
Það má því segja að vinna lögfræðinganna sé afgerandi fyrir
bæði gæði og hraða málsmeðferðarinnar. Lögfræðingarnir
fara hins vegar ekki með ákvörðunarvald heldur hvílir það
hjá þeim þremur dómurum nefndarinnar sem fara með
viðkomandi mál og þær skýrslur sem verða til eru aldrei
gerðar aðgengilegar aðilum máls.
Ákvörðun um að veita ekki áfrýjunarleyfi verður að vera
samhljóða, hins vegar er nóg að einn af þremur dómurum
samþykki að veita áfrýjunarleyfi. Þessi tilhögun er m.a. talin
minnka líkurnar á því að leyfi sé ekki veitt þar sem það hefði
átt veita. Áfrýjunarleyfi getur einnig verið veitt fyrir hluta
máls. Slík tilhögun gerir dómstólnum kleift að taka þann
hluta máls til úrlausnar sem líklegastur er til að hafa virk
fordæmisáhrif. Hafni nefndin að veita áfrýjunarleyfi skal sá
sem óskaði leyfis greiða mótherja sínum þann kostnað sem
hann hefur orðið af. Nefndinni er ekki skylt að rökstyðja
slíka ákvörðun og viðkomandi nýtur engra úrræða til að fá
ákvörðunina endurskoðaða. Meginreglan er einnig sú að
nefndin getur ekki breytt niðurstöðu sinni. Að því marki
sem leyfi er veitt er ekki hægt að draga það til baka né
skilyrða það með öðrum hætti eftir að ákvörðun hefur verið
tekið og það eru engin úrræði sem standa mótherjanum
til boða sé hann ósáttur.
14% mála tekin fyrir
Á tímabilinu 2010-2017 hafa að meðaltali 14% þeirra
mála sem berast dómstólnum fengið áfrýjunarleyfi. Að
undanförnu hefur áfrýjunarleyfum vegna einkamála fjölgað
og má það að einhverju leyti rekja til breyttrar stefnu
dómstólsins en hann hefur reynt að koma til móts við óskir
lögmannsstéttarinnar um að fleiri einkamál séu tekin fyrir.
Þau sakamál sem fá áfrýjunarleyfi varða oft málsmeðferðina,
og þá einkum með vísan til Mannréttindasáttmála Evrópu
eða annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Einkamálin
varða einkum skattalög eða bætur fyrir óréttmætar aðgerðir
eða aðgerðaleysi.
Skilyrði áfrýjunarleyfa
Aðalskilyrði áfrýjunarleyfis er að mál hafi almenna þýðingu,
þ.e. þýðingu umfram það mál sem er til skoðunar. Skilyrði
þetta hefur sterk tengsl við það hlutverk dómstólsins að vera
fordæmisgefandi. Í þessu sambandi skiptir lagalegi þáttur
málsins mestu þar sem mat dómstólsins á sönnunargögnum
hefur ekki almenn áhrif heldur einungis fyrir viðkomandi
mál. Við mat á því hvort þessu skilyrði sé fullnægt verður
nefndin að spyrja sig hvort þörf sé á nýju fordæmi um það
lagalega álitaefni sem á reynir. Nefndin verður einnig að
vera sannfærð um að niðurstaðan hafi verulegt og hagnýtt
gildi fyrir aðra en aðila máls. Það hefur því ekki úrslitaáhrif
hvort niðurstaðan hafi sem slík þýðingu fyrir aðila máls
HÁDEGISVERÐARFUNDUR