Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/18
Kynjasamsetning hefur áhrif
Fannst þér kynjahlutfallið hafa áhrif á menningu og samskipti
starfsmanna?
Já, kynjasamsetningin hafði áhrif á vinnustaðapólitík og
vinnustaðasamskipti.
Á lögmannsstofunni með konur í miklum meirihluta, og á
stofunni með nokkuð jafnt kynjahlutfall, voru samskiptin
almennt talsvert meiri en á þeirri með karla í miklum
meirihluta. Meira var um samtöl og ráðfæringar á milli
lögmannanna og almennt voru samskiptin afslappaðri
og hlýrri, ef svo má segja, virtust endurspegla meiri eða
nánari kynni. Þó á ég alls ekki við að andrúmsloftið hafi
verið slæmt á stofunni með karlana í meirihluta, það var
það alls ekki en það var öðruvísi, minna um samtöl og
ráðfæringar milli lögmanna og samskipti þeirra þurrari. Þar
var líka áberandi að mestu og persónulegustu samskiptin
voru talsvert háð þátttöku eða nærveru móttökuritarans
á stofunni. Það var ung kona sem var hress, ljúf, hlý og
mjög vel liðin. Án hennar (eða annarrar manneskju með
svipaða eiginleika) hefði sú lögmannsstofa eflaust verið
mun þurrari vinnustaður.
Annað viðmót til kvenlögmanna
Hvað kom þér mest á óvart á meðan rannsókninni stóð?
Hvað karllæg gildi og gamaldags, steríótýpískar hugmyndir
um kynin eru enn ráðandi þrátt fyrir að konum í
lögmennsku hafi fjölgað jafn mikið og raun ber vitni. Það
kom mér líka á óvart hvað konur glíma oft við mikið rugl
og vanvirðingu – að þær mæta oft allt öðru viðmóti en
karlar í sömu stöðu og búa því í raun við annan veruleika.
Sem jafnast kynjahlutfall best
Hverjar voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar?
Ég komst að því að það er betra fyrir bæði kvenlögmenn
og karllögmenn að hafa sem jafnast kynjahlutfall á
vinnustaðnum. Ástæðurnar að baki þessu eru hins vegar
gjörólíkar.
Hvað varðar karllögmenn skapaði það betra andrúmsloft
á stofunni að hafa jafnara kynjahlutfall. Karlmennirnir
virtust þá vera afslappaðri að einhverju leyti, geta leyft sér
ákveðna mýkt og viðkvæmni. Líði fólki vel í vinnunni verða
afköst meiri og árangur betri. Rannsóknir hafa líka sýnt
fram á að rekstur fyrirtækja gengur almennt betur þegar
bæði kynin halda um stjórnartaumana.
Kvenlögmenn virtust almennt njóta góðs af nærveru
karllögmanna hvað varðar trúverðugleika og myndun
tengslanets en þessir þættir reynast konum í valda- og
sérfræðistöðum almennt erfiðari en körlum. Í krafti
kyns síns njóta karllögmenn almennt einhvers sjálfkrafa
trúverðugleika sem kvenlögmenn gera ekki. Hér þarf að
athuga að sögulega er örstutt síðan konur fóru að hasla
sér völl á atvinnumarkaði og fóru að láta til sín taka sem
sérfræðingar og valdaaðilar. Karlar eru því nokkurs konar
„frummynd“ sérfræðinga og valdaaðila, þar af leiðandi
„frummynd“ lögmanna. Ímyndi fólk sér lögmann, sjá flestir
fyrir sér karl en ekki konu. Kvenlögmenn eru sögulega
„nýtt afbrigði“ af lögmanni og sem slíkar mæta þær síður
þessum sama sjálfkrafa trúverðugleika og karlar gera. Þær
þurfa því stöðugt að sanna sem sig sem lögmenn á hátt
sem karllögmenn þurfa ekki. Og þetta er enn flóknara.
Kvenlögmenn mæta nefnilega mótsagnakenndum
kröfum. Þær þurfa ekki bara stöðugt að sanna sig sem
sterkar og harðar í horn að taka sem lögmenn, heldur
verða þær um leið að uppfylla almennar hugmyndir fólks
um hvernig kona á að vera, líta út og hegða sér. Þetta
felur í sér ákveðna mótsögn. Konur þurfa sem lögmenn
oft að vera sérstaklega harðar og sterkar til að mark sé
tekið á þeim, en séu þær of harðar og sterkar mæta þær
oft andstöðu, þar sem fólk stimplar þær sem frekjur eða
sköss. Steríótýpískar hugmyndir um kynin og hlutverk
þeirra staðsetja konur nefnilega sem mjúkar og blíðar,
sem mæður og umönnunaraðila, en ekki sem sterka og
sjálfstæða lögmenn. Þótt það sé alvanalegt í dag að konur
séu lögmenn þá blunda enn í fólki gamalgrónar hugmyndir
um kynin, getu þeirra, eiginleika og hlutverk, sem gerir
kvenlögmönnum oft erfitt fyrir.
Þegar kvenlögmenn starfa við hlið karllögmanna virðast
sumar af þessum reglum og skyldum ekki vera jafn strangar.
Það virðist sem kvenlögmenn fari ekki jafn harkalega á
skjön við kvenleikreglur þegar þær starfa við hlið karla,
jafnvel þótt það sé á jafningjagrundvelli. Vegna þessa glíma
þær ekki við sama mótlæti hvað trúverðugleikann varðar
og þurfa því ekki að lúta jafn ströngum reglum um hegðun
og útlit.
Nærvera karllögmanna, og samstarf við þá, virtist líka oft
gera kvenlögmönnum auðveldara með myndun tengslanets
sem framakonur eiga almennt erfiðara með en framakarlar.
Þetta virðist fyrst og fremst vera vegna þess að karlar eru
enn ráðandi í atvinnulífinu og stjórnunarstöðum og þeir
virðast almennt líklegri til að eiga viðskipti og samskipti
við aðra karla en við konur. Það er því kaldhæðnislegt að
karlar virðast síður velja konur í tengslanet sitt vegna þess
að þeir upplifa að þær hafi ekki sama trúverðugleika og