Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 21
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/18 21
Vald á vinnustað
Af hverju valdirðu að rannsaka vinnustaðasamskipti á
lögmannsstofum?
Mannfræðin er í eðli sínu frekar opin en áhugasvið mitt
varð fljótt skýrt í náminu og ég þrengdi fókusinn eftir því.
Ég fór að skoða vald og áhrif þess í samfélaginu – hvar
það liggur, hvernig það hreyfist og hvaða áhrif það hefur.
Jafnréttismál kynjanna urðu mér hugleikin og ég hóf að
skoða þau út frá valdahugtakinu, en vald er mótandi afl í
flestum ef ekki öllum aðstæðum og samskiptum.
Endanlega rannsóknarhugmyndin var í töluvert langan
tíma að mótast, gerjast og breytast en ég vissi samt allan
tímann að valdahugtakið og kynjabreytan yrðu í forgrunni.
Á endanum ákvað ég að skoða vinnustaðasamskipti,
vinnustaðapólitík og vald einstaklinga á vinnustað, út frá
kyni. Þetta snerist því ekki um lögmennskuna sem slíka,
heldur var það frekar tilviljun sem réði því að ég rannsakaði
samskipti á lögmannsstofum.
Eftir nokkra byrjunarörðugleika kom upp sú hugmynd að
skoða þrjá vinnustaði þar sem starfsfólk væri háskólamenntað
og væru sambærilegir að öllu leyti nema hvað kynjahlutfall
varðaði. Bróðir minn, sem þá var nýútskrifaður lögfræðingur
í leit að vinnu, benti mér á að lögmannsstofur gætu uppfyllt
þessi skilyrði fullkomlega. Þegar ég fór að skoða málið sá
ég strax að þetta var rétt hjá honum og að lögmannsstofur
væru frábær rannsóknarvettvangur.
Erfiðara að fá að rannsaka karlavinnustað
Var erfitt að finna lögmannsstofur sem vildu taka þátt?
Mér var strax vel tekið þegar ég hafði samband við
lögmanns stofuna með kvenlögmenn í miklum meirihluta.
Ég var beðin um að senda stutta greinargerð um rann-
sóknina með nánari lýsingu og fékk þá strax jákvætt svar.
Strax mánudaginn eftir þetta, minna en viku eftir að ég
hafði upphaflega samband, mætti ég á stofuna og hóf
rannsóknina. Ég er þeim mjög þakklát fyrir að hafa tekið
mér svona vel. Daginn sem rannsóknin hófst hafði ég
ekki haft samband við neinar fleiri lögmannsstofur og
vissi því ekkert hvort það gengi jafn vel að fá leyfi fyrir
rannsókninni á fleiri stöðum. Ég treysti því bara að hálfnað
væri hafið verk og lofaði sjálfri mér að láta þetta virka, hvað
svo sem yrði. Þegar rannsóknin var komin af stað á fyrstu
lögmannsstofunni lagði ég til atlögu við lögmannsstofur
með karla í miklum meirihluta. Á fyrstu fjórum var svarið
þvert nei. Í fimmtu tilraun var mér boðið á fund, ég sendi
svo nánari greinargerð og útskýringu og fékk þá jákvætt
svar. Á lögmannsstofum með nokkuð jafnt kynjahlutfall
gekk þetta talsvert betur en á annarri lögmannsstofunni
sem ég hafði samband við fékk ég fund. Eftir þann fund
og nánari greinargerð kom svo jákvæða svarið. Þegar horft
er á þetta ferli í heild tel ég ljóst að kyn mitt hafi haft áhrif
og ég er viss um að útkoma karls hefði verið önnur.
Ljósmynd: M. Flóvent