Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 6

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 6
Eftir því sem faraldurinn dregst á langinn í Brasilíu heldur hiv-smit áfram að breiðast út og baráttufólk segir að aðgerðirnar séu að koðna niður. Veriano Terto starfar hjá ABIA, sem er helsta baráttufélagið gegn hiv og alnæmi. Hann segir að fyrir allmörgum árum hafi verið unnið mjög vel að þeim málum. Á tíunda áratugnum hafi ríkisvaldið starfað náið með áhugafélögum og það hafi tekist að afstýra þjóðarvoða. Brasilíumenn viðurkenndu hiv- vandann opinskátt og fóru í miklar upplýsingarherferðir. Í mörgum öðrum löndum voru yfirvöld rög við að fjalla um kynlíf og alnæmi en í Brasilíu voru reknar herferðir sem sumum þótti allt að því klámfengnar. Terto segir að víða um lönd hafi menn efast um að Brasilíumönnum tækist að halda aðgerðunum úti til langs tíma en það hafi tekist. Um 1990 var tíðni hiv-smits ámóta mikil í Brasilíu og Suður-Afríku, og margir spáðu því að í Brasilíu yrði alger sprenging í útbreiðslu hiv vegna þess hve kynlíf er frjálslegt og fátækt útbreidd. En það gerðist ekki. Tveimur áratugum síðar eru 18% fullorðinna smitaðir í Suður-Afríku en 1% í Brasilíu. Dregur úr forvörnum í Brasilíu Þegar hiv kom fyrst fram á níunda áratugnum brugðust Brasilíumenn fljótt við faraldrinum. Það voru settar í gang víðtækar aðgerðir til að efla öruggt kynlíf og milljónum smokka var dreift ókeypis. Öllum sem smituðust var boðin meðferð sér að kostnaðarlausu. Ríkisstjórnin var hörð í samningum við alþjóðleg lyfjafyrirtæki og skirrtist ekki við að brjóta gegn einkaleyfum til þess að draga úr kostnaði. En nú segir Terto að krafturinn sé farinn úr forvarnarstarfinu. Að það sé ekki lengur nægur áhugi til að hafa áfram frumkvæði að slíku starfi. Í Brasilíu er hiv-smit enn að mestu bundið við samkynhneigða karlmenn, sprautunotendur og vændiskonur. Í borgarhlutanum Vila Mimosa í Rio de Janeiro, sem er vændishverfi, segja konurnar sem starfa þar að nú sé ekkert skipulagt starf gegn hiv-smiti í gangi. Alineia er mjúkvaxin 32 ára gömul amma sem hefur unnið í Vila Mimosa í níu ár. Hún er klædd í þröng föt en smekkleg miðað við það sem tíðkast þarna. Hún segir að hverfissamtökin, sem gæta hagsmuna vændiskvennanna, hafi annast baráttu fyrir öruggu kynlífi í Vila Mimiosa. Þau dreifðu ókeypis smokkum og upplýsingum um hiv, lifrarbólgu, sárasótt og aðra sjúkdóma sem geta smitast við kynlíf. Alineia var vön að hjálpa til við þetta starf í húsasundum og þröngum götunum. Peningarnir til þessa starfs kláruðust fyrir nokkrum árum, en sífelldur þrýstingur viðskiptavinanna á að veita óvarið kynlíf heldur áfram. „Ég lenti í miklum vandræðum með viðskiptavin nýlega,“ segir hún. „Ég var búin að hitta hann í fimm ár og þá vildi hann fara að hafa óvarin mök. Ég missti góðan viðskiptavin þar.“ Vændi er löglegt í Brasilíu en það er ekkert eftirlit með því. Þeir sem starfa við kynlífsþjónustu geta farið í hiv-próf ef þeir vilja. Það er ekkert reglulegt heilbrigðiseftirlit. Samkvæmt opinberum upplýsingum voru 5% vændiskvenna í borgum hiv-jákvæðar árið 2009. Alineia segir að flestar konurnar noti oftast smokk en hún er viss um að sumar þeirra geri það ekki. Og hún segir að viðskiptavinirnir bjóði oft aukagreiðslu fyrir að fá að sleppa litlu skyrtunni, eins og smokkar eru kallaðir. Í upphafi faraldursins skipti stuðningur erlendra aðila afgerandi máli við að ná tökum á útbreiðslu hiv í Brasilíu, þar á meðal í Vila Mimosa. Nú hefur tekið fyrir þann stuðning, aðstoð verið hætt eða fjármunum beint til Afríku. Beinum fjárveitingum bandarískra stjórnvalda var hætt fyrir um áratug vegna þess að brasilísk stjórnvöld vildu ekki amast við vændi. Þó að margir Brasilíumenn séu óánægðir með hvernig staðið er að hiv-vörnum nú eru þeir stoltir yfir þeim árangri sem hefur náðst. Útbreiðsla eykst hjá rosknum Kínverjum Í héraðinu Guangxi Zhuang í Suður-Kína hafa karlar fimmtugir og eldri verið næstum 40% af þeim sem greinast með hiv-smit síðustu ár. Í landinu í heild er hlutfallið um 20%. Frá þessu segir í netblaðinu China Daily.com.cn. Yfirmaður alnæmis- og kynsjúkdómavarna í Kína segir að þessi þróun í Kína sé einstæð í heiminum og að flestir hafi smitast vegna vændis. Árið 2005 greindust 483 karlar 60 ára og eldri hiv-smitaðir í Kína, 2,2% af heildinni. Árið 2010 hafði talan vaxið í 3.031 eða tæp 9% af heildinni. Hann segir að margar skýringar séu á þróuninni, svo sem lengri kynlífsævi kínverskra karla og betri efnahagur en að það þurfi meiri félagsfræðilegar rannsóknir til þess að hægt sé að snúa þróuninni við. Forstöðumaður alnæmisvarna í Guangxi segir að þeir séu í mestri smithættu sem hafa litla menntun og lágar tekjur. Á fyrri hluta ársins 2012 voru 93% nýgreinds hiv-smits vegna óvarinna kynmaka og 30% af þeim fjölda voru rosknir karlar. Vaxandi fjöldi kvenna, sem verða eftir heima þegar eiginmennirnir fara að vinna í borgunum, fara út í kynlífsstörf og snúa sér fyrst og fremst að eldri mönnum. „Það er aðalástæðan fyrir aukningu á smiti meðal roskinna karla þar,“ segir hann. Hann bætir því við ástæðan fyrir auknu smiti roskinna karla í borgunum sé sú að meðal götuvændiskvennanna sem þeir leita til sé tíunda hver smituð af hiv. Flest roskið fólk greinist með hiv-smit þegar það leggst á sjúkrahús vegna sjúkdóma.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.