Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 24

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 24
Systurnar Jenný og Svava gáfu sér tíma til að setjast niður í spjall í félagsmiðstöðinni á Hverfisgötunni og segja söguna á bak við hnallþórurnar. J: Bróðir okkar Þorsteinn Karl fæddist árið 1957 en hann greindist hiv-jákvæður árið 1990 aðeins 33 ára gamall. Þremur árum síðar höfðum við samband við Alnæmissamtökin og þar var okkur boðið á 6 vikna námskeið fyrir aðstandendur, sem stofnuðu síðan stuðningshóp sem hélt áfram að hittast einu sinni í mánuði. Á þessum tíma var ekki mikið fjallað um hiv og alnæmi og það var mjög gefandi að hitta aðra aðstandendur og heyra þeirra reynslusögur. Á námskeiðinu fengum við auk þess fræðslu um sjúkdóminn en fram að þeim tíma vissum við í rauninni ekki neitt. Þorsteinn var vanur að borða með okkur systrunum á jólunum. Ég man sérstaklega eftir einu jólaboði stuttu eftir að hann greindist, þegar maður var ekki enn með smitleiðirnar á hreinu. Við vorum öll sest til borðs og ég hafði hellt malti og appelsíni í glösin hjá öllum. Þorsteinn fékk sér sopa en sagðist svo alls ekki vilja malt og appelsín. Ég varð mjög vandræðaleg og um hugann flugu ótal hugsanir. Var óhætt að láta einhvern annan hafa glasið hans, eða átti ég að fara með það fram í eldhús og hella úr því í vaskinn? Ég vissi ekki neitt. Það varð úr að ég fór fram með glasið hans. Svona var nú vanþekkingin mikil í kringum 1990! Saga Þorsteins er raunasaga frá bernsku. Móðir þeirra systkina var mikill sjúklingur og gat þess vegna ekki sinnt börnum sínum sem skyldi. Þorsteinn var það sem þá var kallað „ódælt barn“ og 7 ára gamall var hann sendur í vist á Kumbaravogi á Stokkseyri þar sem hann dvaldi í 11 ár. Tíminn átti svo eftir að leiða í ljós ljótar staðreyndir um atlæti barna sem á heimilinu dvöldu. S: Á Kumbaravogi gerðust hlutir sem mótuðu líf hans allar götur eftir það. Hann var misnotaður kynferðislega af manni sem var tíður gestur á heimilinu. Á þessum árum var talið að Kumbaravogur væri gott uppeldisheimili rekið af kristinni hugsjón. Eins og alþjóð veit átti annað svo eftir að koma á daginn. Þorsteinn losnaði af heimilinu 17 ára gamall og leiddist fljótlega út í mikla óreglu sem fór versnandi með árunum. Aldrei minntist hann einu orði á þessa hræðilegu reynslu við okkur, hvorki fyrr né síðar. Við heimsóttum hann á heimilið einu sinni í mánuði og þá virtist allt slétt og fellt á yfirborðinu. Það voru vinir Þorsteins sem sögðu okkur löngu síðar frá því sem hann hafði mátt þola. Mamma dó í desember 1974, stuttu eftir að hann losnaði af Kumbaravogi og það varð honum mikið áfall að fá engan tíma með henni. Annar bróðir okkar dó svo af slysförum í apríl 1975 og pabbi dó 1984. Við huggum okkur við það að pabbi og mamma fengu aldrei að vita um þá skelfilegu hluti sem Þorsteinn þurfti að ganga í gegnum á Kumbaravogi. Eftir hiv-greininguna árið 1990 náði Þorsteinn að halda sér á beinu brautinni í nokkra mánuði. Hann leigði íbúð og gerði heiðarlega tilraun til að halda heimili og lifa án áfengis. Að lokum náði Bakkus honum aftur og var hann meira og minna í óreglu til dauðadags. J: Ástand bróður okkar olli okkur oft áhyggjum og þjáningum og oft urðum við líka öskureiðar við hann. Samskipti við virkan alka geta aldrei verið öðruvísi. Stundum var fólk alveg hvumsa yfir því að við nenntum yfir höfuð að púkka upp á hann. En inni við beinið var Þorsteinn góð manneskja. Hann var dýravinur og átti hund í nokkur ár, hana Snotru. Börn okkar systra löðuðust að honum af því að hann hafði gott hjartalag. Börn finna svoleiðis. Þegar hann dó skrifuðu þau honum öll bréf og settu í kistuna. Þorsteinn átti engar veraldlegar eigur. Það eina sem hann átti, voru myndir af fjölskyldunni og þær fylgdu honum alltaf. Hans nánustu vinir voru utangarðsmenn eins og hann var sjálfur og það ríkti á milli þeirra sterk samkennd og þeir deildu því sem þeir höfðu handa á milli.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.