Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 21

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 21
21 Aðgerðir sem komnar eru í gang Ýmislegt hefur áunnist frá því að hópurinn var skipaður og verður hér greint frá nokkrum aðgerðum hans. Meðferð Þar sem talið er mikilvægt að fagleg áfengis- og vímuefnameðferð sé veitt og ástunduð hefur samstarfið á milli smitsjúkdómadeildar LSH og Vogs verið eflt og eiga nú hiv-jákvæðir sprautufíklar greiðan aðgang að plássi þar. Hiv-lyf Farið er að gefa sprautufíklum í neyslu hiv-meðferð, en þeir sækja lyfin sín reglulega til hjúkrunarfræðings á smitsjúkdómadeild LSH og fá þá yfirleitt samtal um leið og stundum við félagsráðgjafann líka. Náðst hefur gott samstarf á milli borgarvarða og göngudeildar smitsjúkdóma sem keyra fíkla í virkri neyslu á göngudeildina til að sækja hiv-lyfin. Það hefur mikið að segja fyrir meðferðarheldni lyfjanna. Þeir láta líka deildina vita ef einhver hefur farið í meðferð. Meirihluti sprautufíkla eru núna á lyfjum, sem er mjög jákvæð þróun og í anda markmiða Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC). Lyfin eru lífsnauðsynleg sprautufíklinum og draga verulega úr smithættu sé skipst á sprautum eða stundað óvarið kynlíf. Sprautur og smokkar Sóttvarnalæknir styrkti heilsubílinn Frú Ragnheiði í upphafi árs 2012 til kaupa á einnota búnaði, þ.e. nálum sem ekki er hægt að endurnýta og blöndunarbúnaði. Þannig má betur koma í veg fyrir útbreiðslu hiv, lifrarbólgna og sýkinga. Einnig hafa samtökin HIV-Ísland verið styrkt til kaupa á smokkum fyrir hiv-jákvæða árið 2011 og 2012 í viðbót við styrkinn til að halda fræðsluerindi um hiv í skólum. Húsnæði Samstarfshópurinn fundaði með yfirmönnum þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða um stöðu mála og samstarfsfleti. Farið var á þeirra vegum í vettvangsferð og skoðað húsnæði fyrir fíkla og sprautufíkla í Reykjavík. Gengið hefur nokkuð betur að fá viðunandi húsnæði fyrir sprautufíkla á þessu ári þótt róðurinn sé enn þungur. Fundað var með borgarvörðum Reykjavíkur og þeir m.a. beðnir um að gera úttekt á húsnæðisþörfum utangarðsmanna, sem taldir eru vera um 180 manns í Reykjavík í dag. Óskað var eftir því að húsnæðisvandi fíkla yrði jafnframt greindur eftir því hvers kyns neyslu væri um að ræða svo betri upplýsingar fengjust um þörfina fyrir húsnæði og hvers konar húsnæði hentaði best. Málþing Þann 25. október 2012 átti samstarfshópurinn frumkvæði að málþingi fyrir lyfjafræðinga sem var skipulagt í samstarfi við Lyfjafræðingafélag Íslands. Heiti málþingsins var Málþing um sprautufíkla – aukin fagmennska, betri þjónusta og héldu fimm sérfræðingar um málefni sprautufíkla erindi. Málþingið var mjög vel sótt og almenn ánægja með það. Stefnt er að því að halda fleiri slík málþing og þá fyrir aðrar stéttir sem koma að þjónustu við sprautufíkla eins og starfsfólk félagsþjónustunnar, lögreglunnar og fangelsisyfirvalda. Einnig hefur verið fundað með fíklunum sjálfum, t.d. í fangelsum, og haldnir fræðslufundir fyrir Hjálpræðisherinn, Samhjálp og starfsfólk fíknideilda LSH. Fyrir liggur að halda fleiri fræðsluerindi. Tölfræði Til að afla betri tölfræðilegra upplýsinga um sprautufíkn, viðhorf, áhættuhegðun og viðhaldsmeðferð sprautufíkla á Íslandi hleypti Vogur af stokkunum rannsókn í formi ítarlegs spurningalista meðal þeirra sem lögðust inn á Vog í febrúar 2012. Niðurstaðna er að vænta eftir að rannsókninni lýkur í febrúar 2013. Samkvæmt tillögum ECDC þarf að finna leiðir til að fá góðar tölfræðilegar upplýsingar um þessa þætti. Þær skipta máli fyrir skipulagningu og endurskoðun aðgerða sem eru viðhafðar. Í lokin Formlegu samstarfi samstarfshópsins mun væntanlega ljúka bráðlega með afhendingu skýrslu til sóttvarnaráðs um mögulegar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu hiv meðal sprautufíkla á Íslandi. Það skiptir miklu máli að þeir sem koma að málum sprautufíkla taki höndum saman til að sporna við fleiri hiv-sýkingum meðal þeirra. Þannig má efla lífsgæði þeirra og öryggi. Skýrsla samstarfshópsins um málefni sprautufíkla verður vonandi skref í þá átt. Sigurlaug Hauksdóttir Félagsráðgjafi hjá Embætti landlæknis og á Landspítalanum

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.