Morgunblaðið - 25.03.2021, Side 28
28 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. MARS 2021
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Uppi varð fótur og fit í prjóna-
samfélaginu Handóðum prjónurum
á Facebook þegar hannyrða-
áhugafólk þar, og án efa víðar,
horfði á aðra röð norsku sjónvarps-
þáttanna Exit þar sem persónan
William Bergvik, sem norski leik-
arinn Pål Sverre Hagen túlkar í
þáttunum, birtist áhorfendum í
lopapeysu með prjónamunstrinu
„Riddaranum“, sem runnið er und-
an rifjum íslenska hönnuðarins Vé-
dísar Jónsdóttur.
„Ég hef ekki horft á þættina, en
það kom mér nokkuð á óvart að
heyra að persóna í Exit væri í þess-
ari peysu. Mér skilst að þetta séu
óttaleg varmenni,“ segir Védís í
samtali við Morgunblaðið. Hún seg-
ir Riddarann vinsælt munstur víða
um heim. „Ég hef heyrt sögur af því
að minnst 300.000 Riddarar hafi
verið prjónaðir í Finnlandi og sænsk
börn kalli lopapeysur „Riddara“, en
ég veit nú ekki hvort það eru bara
riddarasögur,“ segir hönnuðurinn
glettnislega og vísar til þýddra frá-
sagnabókmennta myrkra miðalda.
„Hannaðir þú Riddarann?“
„Já já, það er bara svoleiðis,“ seg-
ir Védís og hlær þegar blaðamaður
kallar hana heimsfrægan hönnuð í
ljósi orðstírs Riddarans. „Ég flutti
heim aftur 2018 eftir níu ára fjar-
veru og byrjaði aftur í ullinni,“ segir
hönnuðurinn frá, en Védís bjó hvort
tveggja í Róm og New York.
„En Riddarinn er gömul peysa,
hún var hönnuð árið 2008 og það
verður einhvern veginn ótrúlegt æði
í kringum hana seinna. Ég man að
ég var í New York í ársbyrjun 2013
og þá kom kona til mín og spurði:
„Hannaðir þú Riddarann? Ég er bú-
in að prjóna fjórar,““ segir Védís.
„Þessi gaur þarna í Exit er ein-
mitt í upprunalegu litasamsetning-
unni, eins og hún var gefin út á sín-
um tíma, fólk er auðvitað að prjóna
þetta í alls konar litum og svo hefur
þessu munstri verið margstolið og
fólk verið að prjóna alls konar út-
gáfur af því,“ útskýrir hún.
Blaðamann, sem síðast stundaði
prjónaskap við litla frægð undir
leiðsögn Margrétar heitinnar Halls-
dóttur, handavinnukennara í Flata-
skóla, árið 1983, fýsir að vita hvern-
ig höfundarréttarmálum prjóna-
munstra sé háttað.
„Ístex á útgáfuréttinn að þessu
munstri, en ég á sæmdarréttinn eins
og það er kallað. Við höfum nú ekki
skráð þetta sem vörumerki eða neitt
svoleiðis, en það væri kannski sterk-
ur leikur,“ segir hönnuðurinn í létt-
um dúr.
Japanskar rætur í Borgarfirði
Innblásturinn segir hún koma úr
ýmsum áttum þótt íslensk náttúra
standi ofarlega á listanum. „Þegar
ég er að hanna sæki ég oft í bíó-
myndir, tónlist og einhverja upp-
lifun, það getur verið alls konar.
Riddarann hannaði ég uppi í Borg-
arfirði, þaðan er ég ættuð og var þar
eins og oft að vinna um helgar,“ seg-
ir Védís af uppruna peysunnar sem
norskir milljónamæringar skarta í
lífi munaðar og sviksemi á sjón-
varpsskjánum.
„Ég var uppi á lofti að teikna og
fást við munstur sem mér fannst
ekki nógu gott og labba þá niður þar
sem allir eru að horfa á mynd um
japanska samúræja-stríðsmenn.
Þegar ég kem þarna að eru sam-
úræjarnir að koma ríðandi yfir hæð
í fullum skrúða og þá sé ég þetta
munstur bara fyrir mér, byggt á
höfuðbúnaði þeirra og fánunum.
Þess vegna heitir munstrið Riddari,
það er nú eitthvað sem ég hef ekki
sagt mörgum, en jæja, nú er ég að
segja blaðamanni það,“ segir Védís
og hlær dátt.
Allt að verða vitlaust
í hannyrðum
„Ég er nú svo sem enginn mál-
svari þessa samfélags, en prjónafólk
er úti um allt,“ segir Ástríður Ein-
arsdóttir kennari, sem búsett er í
Nordfjordeid í Vestland í Noregi.
Samfélagið sem hún vísar til er
áðurnefndur prjónahópur á Face-
book, Handóðir prjónarar, þar sem
þjóðlegur íslenskur fatnaður í Exit-
þáttunum vakti verðskuldaða at-
hygli.
Miðað við umræðu sem Ástríður
fylgist með í norskum prjónahópum
nýtur íslensk ull virðingar og marg-
ir orðnir meðvitaðir um einstaka
eiginleika hennar, þ.e. að hún skipt-
ist í þel og tog sem gerir hana létta
og mjúka, með mikla öndunar-
eiginleika jafnframt því að veita
góða vörn gegn vætu og roki, að-
stæðum sem norrænar þjóðir
þekkja kannski einna best allra
þjóða á eigin skinni.
Íslandsvísanir og -tengingar eru
orðnar býsna margar og mismun-
andi í erlendu sjónvarps- og kvik-
myndaefni og viðbrögðin við þeim
eðlilega líka. Á næsta ári verða 20 ár
liðin síðan meintar íslenskar flug-
freyjur, sem dúkkuðu upp í veislu
hjá Tony Soprano í sjónvarps-
þáttaröðinni The Sopranos haustið
2002, struku einhverjum íslenskum
áhorfendum andhæris á meðan aðr-
ir brostu út í annað. Hvað á fólk þá
að halda um íslenskt lopamunstur
úr Mosfellsbænum í umdeildum
sjónvarpsþáttum sem alls ekki eru
taldir við hæfi barna?
„Þetta er náttúrlega skemmtilegt
og kannski sérstaklega þegar maður
er Íslendingur í Noregi, auðvitað
vottar fyrir þjóðarstolti,“ segir Ást-
ríður. „Ef ég á líkja þessu við eitt-
hvað er það kannski tilfinningin
þegar Íslendingar vinna stærri
þjóðir í fótbolta og maður hugsar
með sér já, þarna erum við, litla Ís-
land,“ segir Ástríður.
Prjónaði 30 Riddara
Hún segist vel skilja þau viðbrögð
Védísar, að henni hafi komið á óvart
að heyra af sinni eigin hönnun í
þáttunum. „Fyrir mína parta kom
það kannski ekki svo mikið á óvart
að sjá þessa peysu í þáttunum af því
að maður er búinn að sjá hana hér
úti um allt og hér vita allir hvaða
peysa þetta er.
Ef maður sá íslenska lopapeysu
hér í Noregi fyrir átta árum vissi
maður að þar var Íslendingur á
ferð. Nú eru þær alls staðar og
Riddarinn áberandi vinsælastur. Ég
spurði að gamni eftir myndum frá
þeim sem höfðu prjónað þessa
peysu, í norskum prjónahópi á
Facebook. Á tveimur klukkutímum
var ég búin að fá yfir 200 svör. Ein
þeirra sem sendu mynd sagðist vera
búin að prjóna þrjátíu Riddara,“
segir Ástríður Einarsdóttir að lok-
um, þjóðarstoltur Handóður prjón-
ari í Noregi.
Norskir úlfar í sauðargærum
- Rammíslensk hönnun í norsku Exit-þáttunum - Riddarinn getur sér orðstír ærinn víða um heim
„En gaman að heyra frá Íslandi,
þó að þú sért í Ósló,“ segir norski
leikarinn Pål Sverre Hagen í
stuttu spjalli um Riddarann, sem
persóna hans, auðmaðurinn Willi-
am Bergvik, klæddist í einum
Exit-þáttanna og vakið hefur verð-
skuldaða athygli meðal áhugafólks
um flíkina.
„Ég skil það mjög vel að fólk sé
spennt fyrir þessari peysu, sjálfur
elska ég hana. Ég reyndi að stela
henni eftir tökur á þessu atriði til
að fá að eiga hana sjálfur, en það
tókst nú ekki,“ segir Hagen.
„Fyrir mörgum árum eignaðist
ég hina frægu peysu Færeyinga
sem er með hnöppum á öxlunum,
þegar ég var við tökur þar, en mig
vantar þennan íslenska verðlauna-
grip í safnið,“ segir Hagen og er
því hér með komið áleiðis til gjaf-
mildra prjónara.
Skjáskot/RÚV
Stórhrifinn Norski leikarinn Pål Sverre Hagen kveðst hafa orðið svo hrifinn af flíkinni að hann hafi reynt að nappa
henni eftir að tökum var lokið. Varð honum þó ekki kápan úr því klæðinu í bókstaflegum skilningi þeirra orða.
Reyndi að
stela henni
Védís
Jónsdóttir
Ástríður
Einarsdóttir
BRÚÐKAUPSBLAÐIÐ
Kemur út 16. apríl
Viðtöl viðBRÚÐHJÓN
Fatnaður, förðun og hárgreiðsla
Giftingahringir
BRÚÐKAUPSVEISLUR
Veisluþjónustur og salir
Dekur fyrir brúðhjón
Brúðkaupsferðir
ÁSTARSÖGUR
og margt fleira
PÖNTUN AUGLÝSINGA
til mánudagsins 12. apríl
Katrín Theódórsdóttir
S. 569 1105 kata@mbl.is - meira fyrir áskrifendur
Ferðafélag Íslands | Mörkinni 6 | 108 Reykjavík | S. 568 2533 | www.fi.is
Aðalfundi
Ferðafélags Íslands frestað
Aðalfundi Ferðafélags Íslands sem vera átti í mars hefur verið
frestað vegna sóttvarnarreglna og fjöldatakmarkana í samkomuhaldi.
Fundurinn verður boðaður með lögbundnum hætti
um leið og slakað verður á sóttvarnarreglum.
Stjórnin.