Morgunblaðið - 25.03.2021, Side 58

Morgunblaðið - 25.03.2021, Side 58
AF BÓKUM Sölvi Sveinsson „Núpsskóli í Dýrafirði, Ungmenna- og héraðsskóli 1907-1992“ eftir Aðal- stein Eiríksson fv. skólameistara er viðamikið rit sem Hollvinir Núps- skóla gáfu út 2017 þegar öld var liðin frá stofnun skólans og tíu árum bet- ur, hnausþykk bók, 424 bls. í stóru og snotru tvídálkabroti þar sem eiginleg saga skólans er sögð á 318 bls. Nem- endatal (eftir AE og Pétur Garð- arsson) með ótal myndum af skóla- spjöldum þekur um 100 síður og kennaraskrá skól- ans (eftir Ástu Valdimarsdóttur) 4 bls.; loks eru til- vísanir og skrár. Ótal myndir og teikningar lýsa bókina sem er fal- lega gerð úr garði. Af skóla- spjöldunum brosa til mín skólasystkin úr MA og HÍ, vinir og kunningjar frá ýmsum ævi- skeiðum. „Þú hér?“ í svarthvítu frá fyrri árum í alls konar samhengi. Það er veröld skólaspjaldanna sem jafn- an eru hálfgerð opinberunarbók. Hér er rakin almenn skólasaga landsins frá öndverðu á skilmerki- legan hátt og raunar með skarpari hætti en í ýmsum greinargerðum; kjarni máls birtur með margvís- legum töflum og annarri myndrænni túlkun; fróðlegt er þar að sjá hvernig timarit.is gagnast til þess að rann- saka umræður um skólamál, draga orðanotkun hvers tímaskeiðs upp úr djúpinu með ýmsum afhjúpandi blæ- brigðum. Í bókinni eru ótal gröf, súlurit, töflur, línurit o.fl. til skýringarauka og blasir við að mikl- ar rannsóknir búa að baki á „inn- viðum“ eins og það heitir núna. Hér má nefna samantekt um náms- framboð í skólum og hlut hverrar greinar, íbúafjölda fyrir vestan o.v., efnahag, nemendafjölda og skiptingu þeirra eftir búsetu, fjölda í tíð hvers skólastjóra, meðalaldur, fjárveit- ingar til einstakra skóla og sem hlut- fall af fjárlögum, svo einungis fátt eitt sé talið. Þannig liggur fyrir samanburður við aðra landshluta o.s.frv. sem setur sögu Núpsskóla í Núpsskóli í Dýrafirði – Veröld sem var Héraðsskólinn Nýi Núpsskólinn í Dýrafirði upp steyptur, gamla skólahúsið aftar. Skólinn var settur fyrst í nýja húsinu í október árið 1932. Um 3.700 nemendur stunduðu nám við skólann þá áratugi sem hann var starfræktur. miklu víðara samhengi en ella hefði verið. Víða hefur verið leitað heim- ilda og þær excel-eraðar af dæma- fárri hugvitssemi og leikni, hvergi sér nokkurn vott skemmri skírnar; þarna liggja upplýsingar sem varða skólasögu alls landsins og eiga raun- ar nokkra hlutdeild í almennri sögu. Í þessum köflum flýtur með áhuga- verð og lýsandi greinargerð um hugtakanotkun: skólamál voru í deiglu og orðaforði um menntun ekki á hvers manns vörum; almúgaskóli, alþýðuskóli, barnaskóli, gagn- fræðaskóli. Hvað skyldi skólinn heita? Áttu virkilega öll börn að fara í skóla? Hvurslags er þetta eiginlega! Húsmæðraskólar og bændaskólar sigla með þegar þeir tengjast um- ræðunni. Margar úrtöluraddir heyrðust jafnan þegar almenna menntun bar á góma undir lok 19. aldar og við upp- haf hinnar 20. og ýmsir höfðu horn í síðu lærða skólans í Reykjavík, töldu hann afturhaldssaman – skólinn væri einungis til að unga út embætt- ismönnum sem mörgum var í nöp við; sumir þeirra þágu laun sín bein- línis úr höndum alþýðu manna í kvöðum eða aurum, dagsverki eða lambseldi, fiski í fjöru. Fróðlegt er að lesa umræður á alþingi um mennta- mál og kallast þær sannarlega á við ýmsa aðra málaflokka á sömu þing- um, svo sem um lausn vistarbands- ins, fátækramál (eins og framfærslu- mál hétu) o.fl. Þingmenn sem beittu sér fyrir atvinnufrelsi, réttindum kvenna, aukinni menntun (Skúli Thoroddsen, Páll Briem o.fl.) áttu víða ekki upp á pallborðið. Þumal- fingursreglan var sú að konung- kjörnir þingmenn voru hallir undir frelsi í atvinnumálum, en andvígir þjóðfrelsismálum, þjóðkjörnir þing- menn á öndverðum meiði. Menntahroki er ekki nýr Grundtvig er gert nokkuð hátt undir höfði í frásögninni enda höfðu forkólfar Núpsskóla fullt traust á danska uppreisnarklerkinum. Lýðháskólar voru ær og kýr Grundt- vigs sem vildi mennta ungmenni, vekja með þeim stolt fyrir þjóðerni sínu og sjálfstæði, ekki endilega leiða þau til prófs (sem ýmsir vildu orða síðar meir að leiða til höggs þegar landsprófið skildi milli feigs og ófeigs). Guðmundur Hjaltason stóð fyrir merkilegri skólastofnun í anda Grundtvigs á Akureyri en var kveð- inn ómaklega niður að mér sýnist og rakið er í ritinu; menntahroki er ekki nýr af nálinni. Sigurður Þórólfsson var allt í öllu í Hvítárbakkaskóla og sr. Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi, báðir heitir hugsjónamenn ásamt Guðmundi. Hér er lýst þessari til- raunastarfsemi sem bar upp á sker. Lýðháskólar hafa ekki náð hylli hér- lendis miðað við nágrannaþjóðir á Norðurlöndum. Íslendingar eru svo sólgnir í próf og aftur próf, einkum samræmd, ekki kannski í frum- bernsku en litlu síðar. Oft eru for- eldrar talsmenn prófanna – jafnvel þótt kerfið hrynji eða hrapi hvað eftir annað eins og stjarna í hvolfinu þeg- ar nemendur ganga til rafrænnar skoðunar á 21. öld. Dauft bergmál frá Menntamálastofnun og hinu háa ráðuneyti þegar rykið leggst. Árið 1907 tóku gildi lög um skólaskyldu 10-14 ára barna og í raun lauk henni með fermingu og lít- ið framboð á skólagöngu eftir það fyrir ungdóminn. Guðmundur Finn- bogason á hryggjarstykkið í þessari löggjöf sem best hefur verið und- irbúin af hálfu alþingis síðan það var endurreist, framsækin og í kallfæri við kröfur nýsprottins þéttbýlis – niðurstaðan að vísu ekki alveg eins og Guðmundur vildi en lögin marka þó upphaf nútíma skólahalds, fræðsluskyldu og skólaskyldu. Ung- mennaskólinn sem sr. Sigtryggur efnaði í á Núpi 1907 með Kristni bróður sínum o.fl. var fyrir eldri nemendur og var í raun jafnmikill lýðháskóli og Hvítárbakkaskólinn í Borgarfirði sem löngum hefur verið nefndur sem nánast eini slíki skólinn á landinu á sinni tíð, stofnaður 1905; áhersla á sögu og móðurmál hliðstæð í báðum skólum en það voru kjarna- greinar að mati Grundtvigs, um og yfir 40% af náminu á Núpi undir stjórn sr. Sigtryggs en yfirferðin ekki miðuð við próf. Markmiðin voru viðhorfabundin, ekki háð þekkingu, en tengd guði með sínum hætti í huga sr. Sigtryggs. Straumhvörf urðu í Dýrafirði þegar lög um hér- aðsskóla voru sett 1929 og Núpsskóli varð einn þeirra; ungmennaskólinn breyttist þá í héraðsskóla og sr. Sig- tryggur lét af skólastjórn, saddur starfsdaga þótt hann lifði lengi eftir það; líf er að loknu djobbi, eins og nú er viðkvæðið! Jónas á Hriflu taldi að- lögun Núpsskóla í héraðsskólalögin rökrétt framhald ungmennaskólans og kallaði hann elsta héraðsskólann. Árið 1930 voru sett lög um gagn- fræðaskóla, síðar komu ný fræðslu- lög 1946, m.a. um landspróf, ný grunnskólalög 1974 o.fl. sem allt er tíundað og sett í skynsamlegt sam- hengi. Skólana dagaði uppi Saga sr. Sigtryggs og Kristins búfræðings bróður hans er sögð, báðir eldhugar frá fátæku heimili í Eyjafirði, en spjöruðu sig til mennta, Kristinn „praktískari“ eins og það hét á þeirra tíð, keypti Núp 1895. Eiginkonur beggja koma við sögu og liggja þær ekki óbættar hjá garði í bókinni. Synir sr. Sigtryggs og Hjaltlínu seinni konu hans urðu báð- ir landsþekktir menn, Hlynur veð- urfræðingur og Þröstur skipherra. Um svipað leyti og héraðsskólar tóku til starfa urðu íbúar í þéttbýli í fyrsta sinn fleiri en í sveitum lands og fluttust þó sífellt fleiri á mölina með hverju ári. Nýju skólarnir áttu að veita bændum viðspyrnu en hjól tímans snerust þeim öndvert að sólu, mæðiveiki, kreppa o.fl., en svo kom „blessað stríðið“ 1939 og breski her- inn birtist 1940 og vantaði sárlega menn í vinnu sem kunnu að grafa skurð. Líka ofan í þá aftur, að sagt var. Merkilegt er í skólasögunni að með lögum var börnum í sveit mæld- ur mánuði skemmri skólatími en í kaupstöðum, bæði vegna þess að þau voru vinnuafl en ekki síður vegna þess að margir töldu sveitalífið svo gefandi og glæðandi að börnin þyrftu ekki að sitja jafnlengi yfir skólabók- um. Það kom því eins og köld vatns- gusa framan í samfélagið þegar kaupstaðarbörnin spjöruðu sig betur í samræmdum lestrarprófum eftir að þau voru tekin upp; urðu hluti af fullnaðarprófi 1929 og aukin 1934. Ný lög um héraðsskóla voru sett 1940 en komu fyrir lítið. Segja má að alla héraðsskólana hafi dagað uppi vegna þess að upprekstrarsvæði þeirra skiluðu sífellt færri nem- endum úr heimahögum í hús þrátt fyrir margvíslega viðleitni og við- spyrnu. Núpsskóli lognaðist út af 1992, Reykir í Hrútafirði fengu nýtt hlutverk, Laugar í Reykjadal eru nú almennur framhaldsskóli og sækir marga nemendur af fjarlægum af- réttum, en skólarnir á Eiðum, í Skóg- um og Reykholti og á Laugarvatni voru lagðir niður eftir að ýmiss konar bjargráð urðu sem reykur einn. Fjörlega skrifuð Hér er einungis stiklað á stærstu steinum í bókinni. Frásögnin er skorinorð og víða komist fjarska vel að orði og bókin einkar læsileg; minningar höfundar frá eigin skóla- vist og kennslu eru hlýlegar. Ég ákvað setja vesturferð á dagskrá eft- ir að hafa lesið bókina og gerði það þó ekki fyrr en sumarið 2019 og vegir holóttir. Gönguferðin um Skrúð stendur upp úr. Bókin um Núpsskóla á erindi til allra sem hafa pínulítinn áhuga á skólamálum og landsins sögu, hún er til minnis um líf sem var en nú er bara annars staðar. Hún er fjörlega skrifuð af áhuga og virðingu og hvar- vetna skynjar lesandi lifandi áhuga sögumanns sem slær persónulegar nótur á píanó minninganna þegar hann lyftist í sætinu. Ef bókin er ekki uppseld þá legg ég til að landsfeður og lausnarlið bregði undir sig betri fætinum og sæki sér eintak! » Frásögnin er skor- inorð og víða komist fjarska vel að orði og bókin einkar læsileg; minningar höfundar frá eigin skólavist og kennslu eru hlýlegar. 58 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. MARS 2021

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.