Skírnir - 01.04.2009, Page 26
24
MÁR GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
voru lausafjárkreppur einstakra banka og þjóðbundinna bankakerfa
fremur algengar. Eftir það urðu þær hins vegar sjaldgæfari og heyrðu
víðast nánast sögunni til. Bankakreppur, sem áttu rætur að rekja til
of mikilla og áhættusamra útlána, og eftiráfylgjandi rýrnun eigna-
hliðar bankanna áttu sér hins vegar stað eftir sem áður. Þeir sem
ólust upp við að glíma við slíkar kreppur hafa sumir hverjir átt erfitt
með að skilja núverandi fjármálakreppu því að hún átti sér framan
af jafnoft stað, ef ekki oftar, á skuldahlið bankakerfisins, eins og
nánar verður fjallað um hér á eftir. En þeir hafa líka nokkuð til síns
máls því að lausafjárkreppur og eiginfjárkreppur eru ekki aðskilin
fyrirbæri. Ef lausafjárkreppa er nægilega djúp og langvarandi þá
leiðir hún að lokum til eiginfjárkreppu, þegar fjármálastofnanir
neyðast til að selja eignir á niðursettu verði til að afla sér lausafjár og
standa við skuldbindingar. Sömuleiðis er lausafjárskortur fjármála-
stofnana, vegna þess að lánadrottnar hafa kippt að sér hendinni, oft
afleiðing þess að þessir sömu lánadrottnar hafa áhyggjur af eigna-
stöðu viðkomandi stofnana. Að öðru óbreyttu er stofnun sem hefur
hærra eiginfjárhlutfall ólíklegri til að lenda í lausafjárvanda. Sömu-
leiðis, og að öðru óbreyttu, er sú stofnun ólíklegri til að lenda í
eiginfjárbruna sem býr við góða lausafjárstöðu.
Adrian og Shin (2008) og Brunnermeier o.fl. (2009) útskýra þá
kerfisáhættu sem felst í samspilinu á milli skuldsetningar, eigna-
verðs og eiginfjárhlutfalls banka annars vegar og veðhlutfalla,
seljanleika eigna á markaði, lausafjár fjármálastofnana og eigna-
verðs hins vegar. Ekki er rúm til að útskýra með fullnægjandi
hætti hvað hér er átt við. Meginatriðið er að tvenns konar spíral-
ar eru að verki. Saman valda þeir því að skuldsetning og eignaverð
magna hvort annað í uppsveiflu og verða að vítahringjum illselj-
anleika eigna, fallandi eignaverðs og uppgufunar lausafjár í niður-
sveiflu. Staðreyndin er sú að þótt einstakar stofnanir geti lækkað
skuldsetningarhlutfall sitt í þeirri merkingu að lækka skuldir í
hlutfalli við eignir, þá er það mun erfiðara þegar allar stofnanir
reyna hið sama, því eignaverð lækkar og eykur skuldsetningar-
hlutfallið á móti. Til að draga úr líkum á fjármálakreppum og
milda áhrif þeirra er meginatriði að draga úr virkni þessara spír-
ala.