Skírnir - 01.04.2009, Page 42
40
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
endurskoðunar þær leiðir sem við höfum farið að undanförnu við
að móta samlíf okkar. Sigurður Nordal benti á það fyrir tæpum 70
árum að á öllum hnettinum væri „ekkert sambærilegt dæmi þess,
að svo fámenn þjóð hafi færst annað eins í fang, bæði um pólitískt,
fjárhagslegt og menningarlegt sjálfstæði.“3 Nú virðumst við óneit-
anlega hafa færst meira í fang en við réðum við, fjárhagslegt sjálf-
stæði okkar er ef til vill lítið annað en orðið tómt, pólitískt sjálf-
stæði okkar virðist að sama skapi veikburða, en við getum enn
státað af menningarlegu sjálfstæði eða allavega menningarlegri
sérstöðu í krafti þess að eiga eigin tungu, sögu og land. Þó er
menning okkar núlifandi Islendinga að miklu leyti af erlendum
uppruna; við höfum tileinkað okkur hugmyndir, tækni og siði
annarra þjóða í ríkum mæli, en óvíst er hversu skynsamlega við
höfum farið að því. Margt hefur vafalaust tekist vel, ekki síst í
tæknilegum efnum, en annað miklu síður.
Ef til vill stafa ógöngur okkar nú af því að við höfum ekki
ræktað sem skyldi þann andlega menningararf sem forfeður okkar
og formæður lögðu okkur til og á að sjálfsögðu að vera grund-
völlurinn að því hvernig við tileinkum okkur framandi menningu.
Það er líka hugsanlegt að vissir veikleikar í hefðbundinni menn-
ingu okkar eigi sinn þátt í því að okkur hefur farist svo óhöndug-
lega að treysta og tryggja sjálfstæði okkar. Við þurfum þá að reyna
að finna þessa veikleika og ráða bót á þeim. Ef við höfum ekki
þegar gert það kann það að stafa af því að menntakerfi okkar hafi
ekki gegnt hlutverki sínu sem skyldi og þar sé að einhverjum hluta
rótin að þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.
Menntakerfið og ógöngur okkar
Ég hef sterka tilhneigingu til að hallast að þeirri skýringu svo langt
sem hún nær. Sú fullyrðing að við séum velmenntuð þjóð á ef til
vill ekki fyllilega við rök að styðjast. Ég hef fylgst með mennta-
málum þjóðarinnar síðustu 35 árin og tel að margt þurfi að end-
3 Áfangar /, bls. 277, úr erindi sem Sigurður Nordal flutti á háskólahátíð fyrsta
vetrardag árið 1942 undir heitinu „Manndráp". Ég vitna einnig til þessara orða
Sigurðar Nordals í upphafi greinarinnar „Menning og markaðshyggja".