Skírnir - 01.04.2009, Page 72
70
MAGNÚS SIGURÐSSON
SKÍRNIR
Slíkur útdráttur á „söguþræði" Finnegans Wake er vitaskuld til
gamans gerður. Þó leynist í tíðindaleysi þessarar samantektar
ákveðið sannleikskorn. Bækur Joyce byggjast ekki á hinni hefð-
bundnu aristótelísku uppbyggingu skáldverks sem skiptist í kynn-
ingu, flækju og lausn. Bækur eins og Finnegans Wake og I leit að
glötuðum tíma eftir Marcel Proust, svo og skáldsögur Samuels
Beckett (helsta arftaka þeirra Joyce og Proust samkvæmt fræði-
mönnum), vinna meðvitað gegn takmörkunum söguþráðarins
með því að hafa hann að engu. Af þeim sökum er erfitt að fallast á
eina samantekt fremur en aðra á Finnegans Wake.
Engu að síður er ofannefndur H.C. Earwicker ein af aðalsögu-
hetjum bókarinnar. Eins og annað í verkinu tekur hann þó eilífum
umskiptum, meðal annars í krafti fangamarks síns — HCE. Ganga
upphafsstafirnir eins og rauður þráður bókina í gegn, til að mynda
sem „Howth Castle and Environs" í upphafsmálsgrein bókarinn-
ar, sem „High Church of England", „Humpheres Cheops Exar-
chas“, „Hatches Cocks’ Eggs“, „Hoo cavedin earthwight“ og, síð-
ast en ekki síst, sem „Here Comes Everybody“, en um hvunn-
dagshetju sína og fangamark hennar farast Joyce svo orð:
[...] it was equally certainly a pleasant turn of the populace which gave
him [H.C. Earwicker] as sense of those normative letters [HCE] the nick-
name Here Comes Everybody. An imposing everybody he always indeed
looked, constantly the same as and equal to himself and magnificently
well worthy of any and all such universalisation. (32.16-21)
Um þennan sérhvernleika H.C. Earwickers hefur Frank Budgen
eftirfarandi að segja í ritgerð sinni „James Joyce’s Work in Pro-
gress and Old Norse Poetry" sem birtist í Our Exagmination á
sínum tíma:
The many names and states of Mr. Earwicker recall those of Odin with his
legion of names — Grimni at Geirrod’s, Valfather on the battlefield, Ygg on
the scaffold, Bolverk on the harvest field, Gangleri going up and down the
world observing and learning. [...] In his multiple personality and his sum
of human experience Mr. Earwicker is of Odin’s kin. (Budgen 1972: 44)
Auk þess að sjá líkindi með Óðni og Earwicker bendir Budgen á
í ritgerð sinni að tungumál Joyce og aðferð eigi margt sammerkt