Skírnir - 01.04.2009, Page 86
84
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
grundvöllur söguskilnings þeirra sjálfra og Norðmanna, og sum-
part Svía og Dana. Mörg þessara rita voru ætluð til útflutnings
þegar þau voru skrifuð; skrifuð fyrir lesendur beggja vegna Atl-
antsála þar sem íslensk tunga var skilin þar til á fjórtándu öld. Og
þá er mikilvægt að átta sig á því hverjir rituðu söguna og í hvaða
tilgangi. Þeir sem túlka liðna atburði standa í raun uppi sem sigur-
vegarar þegar til lengri tíma er litið, móta mynd okkar af fortíð-
inni, klappa yfir misfellur, stækka hlut ákveðinna persóna og mála
atburði litum sem henta málstað þeirra. Það er nauðsynlegt verk-
efni að afhjúpa þá skrumskælingu. Ekki er laust við að svo sé enn
í dag. Fjölmiðlar keppast hver um sig við að bera fram sína gerð af
raunveruleikanum, og þeir sem eiga fjölmiðlana og ná eyrum sem
flestra, ná mikilvægu forskoti í amstri daganna.
Þegar við erum komin á Sturlungaöld vitum við ekki fyrr en
við erum föst í neti Sturlunga. Saga Sturlungaaldar var mótuð af
þeim. Islendingasaga, sú stóra og breiða pólitíska frásögn með há-
værum siðferðilegum undirtóni, var skrifuð af Sturlu Þórðarsyni
sem sjálfur laut í lægra haldi fyrir Gissuri Þorvaldssyni og þurfti
að gefa upp hið gamla ríki Sturlunga í Borgarfirði í hendur Hrafni
Oddssyni sem þá var Gissuri þóknanlegur. Sturla var ekki hlut-
laus skrásetjari, eins og saga hans ber vitni um. Hann var innherji
og læðir t.d. inn í Islendingasögu beittri ádeiluvísu á Gissur þar
sem jarlinum er líkt við hinn slæga Óðin. Ekki nægði ritstjóra
Sturlungu að vitna einu sinni í þá vísu, heldur tvisvar sinnum.
Sturla svaraði ósigrinum með því að fara í útrás til Noregs með
hugvitið eitt að vopni — eins og við þurfum að gera núna. Hann
lagði upp í förina, sneyptur og niðurlægður af Haukdælum, og í
engu vinfengi við Hákon gamla, en að lyktum var honum falið af
syni Hákonar, að rita bæði hina opinberu sögu Hákonar gamla
Hákonarsonar og Magnúsar lagabætis sonar hans. Þegar heim
kom skrifaði hann útgáfu sína af atburðum Sturlungaaldar þar sem
atburðir voru skoðaðir og greindir frá hans sjónarhorni. Þannig
varð sögutúlkun Sturlunga ofan á og Gissur að ráðgátu íslenskrar
sögu. Með ritun Sturlungu stóðu Sturlungar uppi sem sigurvegar-
ar þrátt fyrir allt sem á undan var gengið.
Jafnvel þó að Island yrði hluti af Noregi í lok þrettándu aldar