Skírnir - 01.04.2009, Síða 97
SKÍRNIR
HÖFUNDURVÖLUSPÁR
95
hins vegar væri unnt að gera sér grein fyrir höfundi Völuspár, við-
horfum hans og þekkingu, stöðu hans í samfélaginu, trúarlegum
viðhorfum og tilgangi hans með því að yrkja þetta margslungna
trúarkvæði, yki það okkur skilning á kvæðinu sjálfu, því að skiln-
ingur á bókmenntaverkum, ekki síst verkum eins og Völuspá, teng-
ist tvímælalaust höfundi.29 Af texta kvæðisins er unnt að gera sér
grein fyrir þessu flestu: viðhorfum, þekkingu, stöðu í samfélaginu,
trúarlegum viðhorfum og tilganginum með því að yrkja þetta marg-
slungna kvæði.
Fróðlegt er því að vita hvers vegna höfundur setti kvæðið saman.
Var hann að rekja heiðna heimssögu. fyrir Óðin að beiðni guða og
manna, eins og ráða má af upphafi kvæðisins:
Hljóðs bið eg
allar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdalar,
vildu að eg Valföður
vel fyr telja
forn spjöll fira
þau er fremst um man.
[1]
— eða orti hann kvæðið fyrir alla sem á vildu hlýða — og hvers
vegna vildi hann segja sögu heimsins á þennan hátt — var eitthvað
sérstakt sem knúði hann til að setja saman þetta dularfulla kvæði,
gerði höfundur sér vonir um umbun þessa heims eða annars, orti
hann af innri þörf, eins og höfundar allra mestu trúarkvæða heims
— eða er hugsanlegt að í kvæðinu felist uppgjör við fyrra líf og
fyrri trú og jafnvel von um aflausn og frið?
29 Nýrýnin, The New Criticism, lagði eins og kunnugt er áherslu á nærlestur,
close reading, þar sem bókmenntaverkið átti að tala fyrir sig sjálft, og vísaði á
bug aðferð sem leitaði að sögulegum eða menningarsögulegum skýringum og
byggðu á persónulegri reynslu og viðhorfi höfundar og kölluð hefur verið
„ævisögulega aðferðin" (The Biographical Method). Þótt nýrýnin opnaði á
sínum tíma augu manna á mikilvægi þess að láta verkið tala, væri blinda að leita
ekki eftir þáttum í lífi, starfi, stöðu og viðhorfi höfundar til að skýra og skilja
bókmenntaverk.