Skírnir - 01.04.2009, Qupperneq 102
100
TRYGGVI GÍSLASON
SKÍRNIR
Hálogaland, hið mikilúðlega land hálogans — norðurljósanna,
kemur víða við sögu Islands á landnámsöld.39 Hlutur samískra
kvenna — kvenna af Hálogalandi — eru furðu mikil í íslenskri
sögu og menningu, eins og Hermann Pálsson hefur bent á.40 Á
dögum Þuríðar sundafyllis bjuggu nyrst á Hálogalandi og norður
á Finnmörk einkum Samar eða Finnar.41 Samar voru fjölkunnug-
ir, eins og norræn miðaldarit greina frá, og landnámsmenn af Há-
logalandi koma víða við sögu á landnámsöld.42
Þegar völvan Þuríður sundafyllir fór af Hálogalandi, hefur hún
ekki verið gömul kona, af því að hún tekur með sér son sinn —
sem fylgir henni — og hlýtur því að vera á ungum aldri, hugsan-
lega milli tektar og tvítugs, en föður er ekki getið. Talið er að
Þuríður hafi komið til Islands eftir að landnámi lauk — jafnvel
laust fyrir miðja lOdu öld.43 Þá hefur hún hugsanlega verið komin
undir fertugt, fædd um 910, eins og annað mikið skáld íslenskt —
Egill Skalla-Grímsson. Sigurður Nordal telur höfund Völuspár
hafa verið roskinn mann um 1000 og hafi höfundur verið bæði
„spakur maður og mentaður á sinna tíma vísu, átt kost á því að
kynnast því, sem bezt hafði verið ort með Norðmönnum og
39 í Konungs skuggsjá er norðurljósum líkt við spinnandi loga. Af þessum spinn-
andi loga er nafn landshlutans dregið. Sjá Tryggvi Gíslason, „Hálogaland —
„land norðurljósanna”, Á sprekamó: Afmælisrit tileinkad Helga Hallgrímssyni
náttúrufrœðingi sjötugum, 11. júní 2005, Akureyri: Bókaútgáfan Hólar 2005,
bls. 372-377.
40 Sjá Hermann Pálsson, Úr landnorðri: Samar og ystu rœtur íslenskrar menn-
ingar. (Studia Islandica 54). Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla
íslands, 1997.
41 Hálogaland náði á miðöldum yfir strandhéruð Noregs frá Naumudal,
Namdalen, norður að firði þeim, sem í íslenskum miðaldaritum er kallaður
Malangur, en heitir nú Malangen, skammt sunnan við Tromso. Nú er hið gamla
Hálogaland kallað Helgeland og nær frá Namdalen norður að Saltfjorden í
Nordland fylke.
42 Til gamans má nefna að flestir íslendingar virðast komnir af galdramönnum af
Hálogalandi. Annars vegar er það ætt Hallberu Ulfsdóttur og bróður hennar,
Hallbjarnar hálftrölls í Hrafnistu á Hálogalandi, sem sagt er frá í Egils sögu, en
Kveld-Ulfur Bjálfason, afi Egils og forfaðir Mýramanna, var sonur Hallberu.
Hins vegar er það Ketill hængur, landnámsmaður að Hofi á Rangárvöllum, og
mikil ætt hans en Ketill var einnig kominn af Hallbirni hálftrölli í Hrafnistu.
43 Sigurður Nordal, „Völu-Steinn“, Iðunn 1923-1924. Nýr flokkur 8, bls. 165.