Skírnir - 01.04.2009, Side 119
SKÍRNIR
KONUSKEGG OG LOÐNIRBOLLAR
117
yrkisefninu á að „fara með líkindum ok eðli“ (Finnur Jónsson
1931: 121).17 Hér er náttúran hin upphafna fyrirmynd, a.m.k. er
látið í það skína eftir hinni klassísku fyrirmynd.
Vandinn er hins vegar sá að hugtakið nykrat er með öllu ónot-
hæft er kemur að því að lýsa hvað fagurfræðihneigð fornskálda
hefur snúist um. Ástæða þessa er í aðalatriðum tvíþætt. í fyrsta
lagi er hugtakið nykrat, líkt og barbarismos og cismus (brugðníng
og spell) og cacenphaton meðal Rómverja, og reyndar flest önnur
listahugtök, útilokandi (excluding) í eðli sínu. Þessi hugtök eiga
það sameiginlegt að lýsa því sem þau eru ekki, fremur en að lýsa
því sem þau eru. Listfræðingurinn E.H. Gombrich hefur bent á
þetta varðandi hugtök eins og barokk, barbarískt, rókokkó, got-
neskt eða germanskt. Grunnmerking þessara hugtaka er þegar öllu
er á botninn hvolft annaðhvort ,ekki-ennþá-klassískur‘ eða ,ekki-
lengur-klassískur, úrkynja' (Gombrich 1978: 84-89). Þannig lýsir
nykrat því hvernig myndmál, líkingar og nýsköpun líkinga (ný-
gervingar) skilja sig frá hinni klassísku kreddu, þ.e. hvernig það er
,ekki-klassískt‘. Hitt verðum við að lesa milli línanna að fagur-
fræðilegt markmið elstu skálda var kannski einmitt fólgið í því að
hlaða sem flestum myndum á sama táknmiðið, og sennilega er sú
iðja að líkja eftir birtingarformi náttúru bæði framandi og ómerki-
leg meðal elstu skálda.
Hin ástæðan er sú þrönga skilgreining sem nykrat fær í skáld-
skaparfræðum miðalda, og er vert að minnast bendingar Michels
Foucault (1996 [1966]) um getuleysi yngri hugtaka til að lýsa aftur
fyrir sig, til að lýsa fortíðinni eins og hún virkilega var, af þeirri
einföldu ástæðu að hugtökin eru alltaf afstæð að sama skapi og
þau eru bundin sögulegu samhengi. Afgerandi er nefnilega að
17 Ég deili ekki þeirri framsetningu fræðimanna sem tala um nýgervingastíl sem
einskonar andhverfu nykraðs stíls, þ.e. eftir klassísku reglunni. Ég sé ekki betur
en þar sé um að ræða misskilning á hugtakinu nýgerving í málsgrein Snorra í
Háttatali, en frænda hans Ólaf Þórðarson hef ég íyrir mínum skilningi á ný-
gervingum sem .nýmyndun kenninga1 er hann segir að nykrað og finngálknað
„verðr mest í nýgjörfíngum" (Jón Sigurðsson o.fl. 1852: 122). Nýmyndun (ný-
gervingar) þykja vel kvebnar, segir Snorri, „ef það mál er upp er tekið, haldi of
alla vísulengd" (1931: 217). Fyrir fyllri röksemdarfærslu, sjá Bergsvein Birgis-
son 2008a: 91-97.